Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 14:47:44 (1287)

     Gunnar Birgisson :
    Frú forseti. Ég vildi aðeins blanda mér inn í þessa umræðu og eyða misskilningi sem hefur komið fram hjá hv. þm. sem hafa tjáð sig um þetta mál á undan mér. Þar sem ég er í þessari atvinnugrein og þekki til hennar vil ég benda hv. þm. á að með þessu frv. er engin breyting frá því sem er í dag. Íslenskir verktakar eru að berjast við erlenda verktaka um verk í dag. Þessi viðmiðun, upp á tæpar 400 millj. sem lágmarksupphæð, er ekkert til að óttast held ég. Ég get nefnt eitt dæmi. Það var boðin út í fyrra lagning slitlags á flugvöll á Egilsstöðum upp á 250 millj. þar sem erlendur verktaki sá um verkið alfarið. Við íslenskir verktakar þekkjum það þess vegna að við erum að berjast á erlendum markaði við þessa verktaka. Þeir koma hingað en það sem kannski hrekur þá frá er smæð verkanna en þeir hafa komið ef um stærri verk er að ræða. Ég held að frv. sé til bóta fyrir okkur þar sem þetta gildir í báðar áttir. Við höfum ekki haft möguleika á að fara inn á Evrópumarkað þar til núna. Aftur á móti höfum við haft möguleika á að bjóða hér í nágrannalöndunum, þ.e. í Færeyjum og Grænlandi, og ég þekki það þar sem mitt fyrirtæki hefur unnið verkefni í Grænlandi, og léttir okkur verulega róðurinn.
    Án þess að hafa kynnt mér nokkuð þetta frv. vildi ég bara eyða þessum misskilningi. Ég tel þetta til bóta fyrir íslenska verktaka, ekki öfugt. Svo eru margar aðferðir til í útboðum. Það eru til forvöl og annað slíkt þannig að menn geta sett upp sínar girðingar og það er það sem hin löndin í Evrópu gera og ég hef kynnt mér það nokkuð. Menn hlaupa ekkert svo á milli landa nema um verulega stór verkefni sé að ræða.