Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 14:49:48 (1288)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að það sé viss misskilningur sem fram kemur hjá hv. 1. þm. Reykn. í þessu máli. Staðreyndin er auðvitað sú að alþjóðlegir verktakar hafa verið að bjóða í verk hér á landi. Það er rétt og það þekkja allir. Og við þekkjum það líka að íslenskir verktakar hafa verið að reyna að bjóða í verk erlendis og hafa stundum náð svo langt að fá þau tilboð samþykkt. En breytingin er auðvitað gífurleg engu að síður vegna þess að eftir að þetta hefur verið samþykkt er óheimilt að ákveða að íslenskir verktakar standi einir að þeim verkum sem ákveðin eru og þá er óheimilt að standa þannig að málum að íslenskir launamenn skuli einir vera í vinnu við þau verk sem ákveðin eru. Við þekkjum það frá undanförnum áratugum að verkalýðshreyfingin hefur haft tiltekið skipulag varðandi það hverjir vinna við stórframkvæmdir. Það hafa t.d. verið Rangæingar þegar unnið var inni á Hrauneyjafossvirkjun og Húnvetningar þegar unnið var í Blönduvirkjun. Slíkar takmarkanir eru óheimilar eftir þessu kerfi. En ekki aðeins þær heldur eru þær líka óheimilar gagnvart erlendum aðilum. Ég er ekki að amast við þeim á neinn hátt en ég er að segja að ég tel að menn verði að átta sig á því að hér er um að ræða grundvallarbreytingu, skert frelsi íslenskra verktaka, íslenskra stjórnvalda og íslenskra launamanna.