Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 14:52:27 (1290)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað grundvallarmunur á því hvort menn eru að fara fram hjá reglum eða eftir reglum. Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. að það hefur verið unnt að fara fram hjá reglum og stofna dótturfyrirtæki og koma sér þannig inn. Það sem hér er á ferðinni er að það er verið að afnema allar slíkar hugsanlegar takmarkandi reglur og í raun að banna alla mismunun gagnvart mönnum á þessu svæði. Hinu tók ég eftir í fyrri athugasemd hv. 1. þm. Reykn. sem er mjög athyglisvert. Hann upplýsti að það væru til leiðir til þess að fara fram hjá þessu. Til væru girðingarmöguleikar, svo ég noti orðbragð Framsfl. sem talar mikið af skiljanlegum ástæðum um girðingar í sambandi við Evrópskt efnahagssvæði.
    Þó að ekki sé kostur á því við þessa umræðu væri fróðlegt að hv. 1. þm. Reykn. mundi hér eða á öðrum vettvangi greina frá því hvernig hann sem verktaki sæi þessa girðingarmöguleika sem hann lét koma fram áðan að væru hugsanlega til. Ég geri ráð fyrir því að þingmönnum yfirleitt séu þeir ekki ljósir vegna þess að girðingarmöguleikar að því er varðar þjóðerni, mismunun eftir þjóðerni, eru algerlega bannaðir. Það er í raun og veru lykilgreinin í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði að allar takmarkanir á grundvelli þjóðernis eru bannaðar. Það er svo einfalt. En hafi hv. 1. þm. Reykn. fundið aðferð fram hjá þessu óska ég honum til hamingju með það og skora á hann að gera alþjóð grein fyrir því máli hið allra fyrsta því að það gleddi örugglega fleiri en mig.