Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 14:54:09 (1291)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt, sem fram hefur komið, að það er nokkuð um liðið síðan flutt var framsöguræða í þessu máli og þess vegna er eðlilegt að menn þurfi að rifja upp hvar komið var í þessu

efni. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni þegar hann sagði að eðlilegt væri að nefndin tæki þetta mál til athugunar með þeim hætti að kallaðir yrðu til sérfræðingar og hagsmunaaðilar og þeir spurðir spjörunum úr. Það verður að sjálfsögðu gert og fulltrúar í fjmrn. munu kappkosta að koma öllum þeim upplýsingum sem á þarf að halda til nefndarinnar til að það starf geti gengið sem allra best.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði nokkurra spurninga sem ég ætla að reyna að svara. Ef mér tekst það ekki í öllum atriðum vonast ég til þess að þau svör fáist þegar málið verður til meðferðar og umfjöllunar í nefndinni enda veit ég að hv. þm. á þess kost að fylgja spurningunum þar eftir. Hún spurði hvaða áhrif þessi lög, ef frv. yrði að lögum, kynnu að hafa á verktakamarkaðinn. Um það hafa farið fram nokkrar umræður nú við 1. umr. þar sem hv. 1. þm. Reykn., sem er vel kunnugur verktakaiðnaðinum, skýrði það mál nokkuð frá sjónarhóli þeirra sem hafa þurft að keppa á þeim markaði. Sannleikurinn er sá að samningurinn er ekki einhliða samningur um það að Íslendingar verða að sætta sig við að útlendingar komi inn á íslenska verktakamarkaðinn heldur felst gildi samningsins kannski ekki hvað síst í því að Íslendingum gefst nú kostur á að starfa á erlendri grund. Þeir geta þar á meðal boðið í verk þar sem Íslendingar hafa nokkra sérkunnáttu. Eins og flestir vita þá þekkja íslensk verktakafyrirtæki, sem hafa starfað hér við fulla samkeppni á undanförnum árum, talsvert til verka og á sumum sviðum betur en önnur samsvarandi fyrirtæki sem starfa á erlendri grund vegna þess að sumpart hafa verkefnin verið nokkuð sérhæfð, t.d. þegar um hitaveituverkefni er að ræða. Þannig gæti það hugvit og það verkvit sem við höfum aflað okkur í þessum fyrirtækjum nýst okkur til útflutnings í stærri stíl en verið hefur hingað til. Á þetta vil ég leggja áherslu því að mér sýnist stundum þegar hv. stjórnarandstæðingar tala hér í þingsölum að minnimáttarkennd þeirra sé slík að öll þessi löggjöf, sem verið er að setja varðandi EES, hljóti að koma okkur í koll og einhverjir vondir útlendingar hljóti að steypa íslenskum fyrirtækjum í glötun í samkeppni sem hér verður um ýmis verkefni. Ég held þvert á móti að íslensk fyrirtæki undir stjórn harðduglegra manna, þar sem mjög gott fólk vinnur sem hefur safnað upp starfsþekkingu, eigi mikla möguleika erlendis þegar þau fá tækifæri til að keppa, ekki síst þar sem um er að ræða sérhæfð verkefni sem þróast hafa við íslenskar aðstæður.
    Önnur spurningin veit að því hversu mörg útboðsverk hefðu verið útboðsskyld hér á landi. Ég get því miður ekki svarað því með öðru en að benda á upplýsingar sem koma fram í greinargerð með frv. á bls. 9 undir kaflanum Um áhrif frv. á opinber innkaup hér á landi. Þar kemur fram hve mörg útboð varðandi vörukaup hafa verið auglýst á undanförnum árum sem hefðu farið yfir þau mörk sem getið er um í II. kafla frv. Það er um tuttugu útboð sem þar eru talin til. Jafnframt kemur það glögglega fram í greinargerð með frv. og kom einnig fram í framsöguræðu að allmörg verkefni og flest stærri verkefni hér á landi hafa verið boðin út á alþjóðlegum markaði. Þess vegna er ekki um neina breytingu að ræða í þeim efnum.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, 18. þm. Reykv., spurðist fyrir um það hvort nægilegt væri að senda auglýsinguna, ég skildi spurninguna þannig, á einu tungumáli til útgáfustjórnar Evrópubandalagsins. Svo mun vera. Útgáfustjórn Evrópubandalagsins annast síðan dreifingu á auglýsingunni og ber allan kostnað af því.
    Í fjórða lagi var spurt um hlutverk Innkaupastofnunarinnar. Ég hef aðeins vikið að því áður hér en það var spurt að því hve stór hluti innkaupanna væri á íslenskum vörum sérstaklega. Því miður get ég ekki svarað þeirri fyrirspurn en ég veit að forstjóri og starfsfólk Innkaupastofnunar munu fúslega svara því og ég tel sjálfsagt að leita til þeirra um svör þegar kemur að vinnunni í hv. nefnd. Ég hygg þó að með sérstökum vörulýsingum sé hægt að stýra útboðum á tilteknum vörum með þeim hætti að íslensk fyrirtæki eigi auðveldara með að bjóða í og taka þátt í útboði.
    Varðand undirboð skal það sagt hér að undirboð eru óheimil. Ég skal hins vegar viðurkenna að það er ákaflega erfitt að sanna undirboð en séu þau sönnuð eða taldar sterkar líkur á undirboðum, eins og mig minnir að segi í tollalögunum, er fjmrh. heimilt að setja sérstakan undirboðstoll á slíkan varning sem hingað er fluttur. Þótt sjaldan hafi komið til þess að beita þessu ákvæði, a.m.k. aldrei í seinni tíð, er þetta ákvæði fyrir hendi. Mér er að vísu kunnugt hversu erfitt þetta mál er þegar um heildarútboð er að ræða en vil taka fram að að því er unnið mjög ákveðið innan Evrópubandalagsins og verður á Evrópska efnahagssvæðinu að gera öll viðskipti sem allra mest gagnsæ til að koma í veg fyrir ríkisstyrki og undirboð. Það er kannski einn helsti tilgangur með þessari viðskiptasamvinnu að koma í veg fyrir að einstaka ríkisstjórnir geti beitt brögðum eins og þeim að borga niður laun eða aðra kostnaðarþætti við vöru- og þjónustuframleiðslu. Íslendingar þekkja þetta ákaflega vel. Við þurfum ekki annað en líta á skipasmíðar til þess að sannfærast um það hvernig íslenskar skipasmíðastöðvar hafa lent í því að verða ekki samkeppnishæfar vegna þess, a.m.k. er því haldið fram og ég hef ekki séð neinn mótmæla því, að um hrein undirboð er að ræða í vissum skilningi og niðurgreiðslur með vissum hætti. Þá er Noregur nefndur til sögunnar og jafnvel nefndar prósentutölur í því sambandi, 10--15%, hvað þá þegar minnst er á Pólland en þar gegnir þó öðru máli því að ljóst er að vinnulaun í Póllandi eru aðeins lítið brot af því sem vinnulaun eru hér á landi.
    Það er full ástæða til þess að minnast á það hér og nú vegna umræðnanna sem orðið hafa um frv. að erlendum fyrirtækjum, sem mundu bjóða í verk hér á landi, er ekki heimilt að borga sínum starfsmönnum öðruvísi en íslenskum starfsmönnum þótt þeir fyrrnefndu séu erlendir. Það er skýrt tekið fram að það

ber að greiða erlendu vinnuafli sams konar laun og gilda hér. Þannig verður ekki um það að ræða og það er ekki ætlunin að hægt sé að flytja hér inn ódýrt erlent vinnuafl frá löndum þar sem laun eru lág. Það má kannski halda því fram að þetta sé breyting hvað það varðar ef við hverfum frá því. Það hafa verið talin nokkur brögð að því að erlend fyrirtæki sem hafa unnið að sérstökum verkum hér, til að mynda ýmsir undirverktakar, hafi notað vinnuafl sem ekki fékk sams konar laun og sams konar kjör og Íslendingum bjóðast.
    Hvaða stærðir er um að ræða? Það er erfitt að tiltaka það en sé miðað við einhvers konar stórhýsi get ég ímyndað mér að stærðarmörkin svöruðu til húsrýmis sem væri 2.500--3.000 m² eða þar um bil. Þetta fer auðvitað allt eftir því hvers konar hús er um að ræða. Að öðru leyti geti ég ekki svarað því en það veit ég að þeir sem eru vanir slíkum útboðum þekkja mjög vel til þessara mála.    
    Þegar spurt er um hvaða verksamninga þessi lög næðu ekki til veit ég til þess að hjá öðrum þjóðum er fyrst og fremst um það að ræða þegar öryggishagsmunir krefjast þess. Það er til að mynda ljóst að framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli mundu ekki raskast við þetta og þetta hefur ekki þýðingu fyrir þá framkvæmd sem þar er nema íslenska og bandaríska ríkisstjórnin samþykki það. Það ætti því ekki að raska framkvæmdum þar en hefur ekkert með það að gera hvaða íslenskir verktakar taka að sér verkefni á Keflavíkurflugvelli. Verkkaupinn þar er yfirleitt alltaf varnarliðið eða Mannvirkjasjóður NATO. Þess vegna ná lögin ekki til þessara aðila.
    Hv. þm. Svavar Gestsson lagði hér orð í belg og reyndar hefur nokkru af því sem hann kom fram með í sinni ræðu verið svarað af hv. 1. þm. Reykn. Það má benda á að Íslendingar hafa það fram yfir útlendinga að hér eru tæki og tól, hér er reynsla og við njótum þess að eiga fjarlægðarvernd. Við þurfum ekki að flytja eins mikið að eins og þeir sem hingað kynnu að koma til að taka að sér verk. Þá er það ljóst að mörg stærri íslensk fyrirtæki eiga samstarf við erlend fyrirtæki og í sumum tilvikum er um þá samvinnu að ræða að stofnað er til nýrra fyrirtækja sem eru í sameign íslenskra og erlendra aðila o.s.frv. Þá er í raun og veru ekki verið að fara á bak við eitt eða neitt, dótturfyrirtæki, sem svo eru kölluð og með eignaraðild Íslendinga, eru félög sem er ósköp eðlilegt að stofna til hér á landi á sama hátt og við hljótum að stofna félög með erlendum aðilum á erlendri grund. Sem betur fer hafa Íslendingar haft þá framsýni á undanförnum árum að reyna að ná verkum annars staðar. Ég minni þar á starfsemi Virkir-Orkint í því sambandi sem hefur verið að leita fyrir sér og reyndar náð verkum víða þótt ekki sé á Evrópska efnahagssvæðinu heldur fyrst og fremst í öðrum heimshluta.
    Ég ætla ekki að ræða hér um prentfrelsið. Það er hægur vandinn hjá nefndinni að kanna það og leita upplýsinga hjá þeim sem eru sérfræðingar í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Það vita þó allir að takmarkanir eru á prentfrelsi af ýmsum ástæðum þótt grundvallarreglan sé að höft á prentfrelsi megi eigi í lög leiða. En það eru auðvitað til ýmsar takmarkanir. Eins og allir vita er bannað að birta sumt á prenti og í vissum tilvikum eru menn skaðabótaskyldir fyrir að birta hluti á prenti. Við verðum að átta okkur á því að hér er verið að gæta svokallaðrar jafnræðisreglu. Það er í raun og veru ekki verið að banna mönnum að birta eitt eða neitt heldur að banna mönnum að birta hluti fyrr en ákveðin dagsetning er runnin upp. Annað dæmi um þetta, sem mér flýgur í hug nú, og það veit hv. 9. þm. Reykv., er að þegar alþjóðastofnanir ýmsar senda frá sér skýrslur, þar á meðal OECD, senda þær skýrslur til ríkisstjórna. Skýrslurnar eru prentaðar í ákveðnum löndum. Þeir sem fá skýrslurnar í hendur mega ekki birta þær fyrr en á tilteknum degi. Það er bannað og það gilda almenn lög um það ef menn brjóta slíkt bann. Það er slíkt bann sem hér er um að ræða. Það er verið að segja að ákveðnar upplýsingar megi ekki birtast fyrr en á tilteknum degi en bannið gildir ekki að öðru leyti.
    Þegar minnst er á orðið upplýsingar í lagagreininni er að sjálfsögðu átt við að það sé ekki verið að gera upp á milli aðila þannig að ítarlegri og betri upplýsingar birtist af hálfu útboðsaðila í íslenskum blöðum sem þeir, sem starfa á Evrópska efnahagssvæðinu, hafa ekki tækifæri til að sjá. Þannig ber að lesa þennan lagatexta og ef hv. nefnd sem fær málið til meðferðar telur að þarna þurfi að breyta orðum er að sjálfsögðu ekkert við því að segja, en þetta er, eins og allir hljóta að sjá, það sem við er átt í frumvarpsgreininni.
    Virðulegi forseti. Ég tel að ég hafi a.m.k. rætt um flestar þær fyrirspurnir sem til mín var beint í þessum umræðum. Ég skal ekki fullyrða að ég hafi svarað þeim öllum en vonast til þess að þessi 1. umr. hafi þó orðið til þess að málið hafi skýrst og geti nú gengið til hv. efh.- og viðskn. og til 2. umr.