Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 15:14:01 (1293)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir það leitt að hv. þm. skyldi taka það illa upp þegar ég talaði um minnimáttarkenndina og ég get auðvitað dregið þau orð til baka. Ég skil það vel að stjórnarandstaðan vilji skoða þessi mál frá öllum hliðum. Ég get þó ekki látið hjá líða að benda á að einn aðili situr í þingsalnum sem hefur af þessum málum verulega reynslu. Það er 1. þm. Reykn. Hann tók þátt í umræðunni og ég held að orð hans hljóti að vega þungt í þessari umræðu, svo mikið og vel þekkir hann til verktakastarfseminnar hér á landi.
    Varðandi þann tækjakost sem minnst var á á ekki að vera hægt að erlendir aðilar sem þurfa að flytja inn tæki til landsins flytji þau hingað þannig að þau verði á öðrum kjörum, ódýrari, en þau tæki sem fyrir eru í landinu því að íslensk lög eiga ekki að gera upp á milli manna í þessum efnum.