Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 15:18:41 (1296)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki fallist á að verið sé að tala um ritskoðun í þessu sambandi. Ég held að það sé af og frá. Það er a.m.k. önnur lögfræði en sú sem ég lærði á sínum tíma.
    Þegar litið er á lagatexta verða menn að skoða í hvaða samhengi hann er skrifaður. Meira að segja sum orð og vissar setningar hafa þýðingu eftir umhverfinu. Í lok d-liðar 2. gr. frv. stendur: ,,Sendingardagur skal koma fram í auglýsingunni. Jafnframt er óheimilt að birta í innlendum fjölmiðlum`` --- og svo undirstrika ég næstu orð, ,,aðrar upplýsingar um útboðið en þær``, undirstrikun er lokið, ,,sem koma fram

í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.``
    Hér er einungis verið að segja að óheimilt sé að birta frekari og betri upplýsingar um þetta útboð og verk í innlendum fjölmiðlum en annars staðar og hefur eingöngu með upplýsingar að gera sem sendar eru frá þeim sem standa að útboðinu til þess að gæta þessarar jafnræðisreglu. Almennar upplýsingar, frásagnir blaða um verkið, ganga ekki á svig við þessa lagagrein. Hér er einungis um að ræða upplýsingar um útboðið í skilningi þessarar lagagreinar ef frv. verður að lögum.