Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 15:20:26 (1297)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. er sem betur fer aðeins að draga í land í þessu máli. Staðreyndin er náttúrlega sú að það sem hann er að segja er t.d. þó það að óheimilt sé að birta í blöðum á útboðstímanum upplýsingar um þá kauptaxta sem eru á bak við tilboðin frá einstökum verktökum frá hinum ýmsu löndum sem hugsanlega eiga aðild að tilboðinu vegna þess að kauptaxtarnir eru partur af útboðsskilmálunum. Kauptaxtarnir eru partur af tilboðsforsendunum.
    Ef hæstv. fjmrh. á við þetta er það bersýnilega svo að það stangast á við stjórnarskrána. Þess vegna kemst hann auðvitað ekki hjá því að leiðrétta þetta. Vandinn er auðvitað sá að menn hafa verið að þýða þessa texta Evrópubandalagsins á handahlaupum að undanförnu. Þar hafa margir unnið gott verk og við erfiðar aðstæður. Og ég er sannfærður um að þess eru dæmi, hæstv. fjmrh., svo ég segi nú ekki meira, að menn hafa kannski flýtt sér um of. Og það kemur ekkert við þeirri lögfræði sem hæstv. fjmrh. lærði að ég tel nauðsynlegt að Alþingi fái a.m.k. tækifæri og möguleika til þess að vanda sig betur en mönnum hefur tekist í sumum þeim setningum sem koma fram í þessum texta hér og reyndar ýmsum öðrum.
    Ég skora þess vegna á hæstv. fjmrh. að stuðla að því að þessi vitleysa verði leiðrétt því hvað sem öðru líður, þá getur þetta valdið misskilningi og ég geri ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. vilji standa þannig að málum að girt sé fyrir slíkt hvað sem girðingum líður að öðru leyti.