Málefni aldraðra

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 13:38:27 (1300)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér flytur ríkisstjórnin tillögu um að skerða Framkvæmdasjóð aldraðra um 160 millj. kr. og taka úr lögunum takmörkunarákvæði sem þar voru þannig að framvegis verður hægt að taka allan sjóðinn í rekstur. --- Það er allt í lagi að loka þarna. Það eru umhvrh. og svoleiðis menn sem eru að trufla fundinn, ýmsir menn úr Stjórnarráðinu. --- Það er gert ráð fyrir því sem sagt að taka 160 millj. kr. af Framkvæmdasjóði aldraðra á næsta ári og síðan er gert ráð fyrir því að breyta lögunum þannig að það megi framvegis taka sjóðinn allan í rekstur. Það hefur verið með þeim hætti að það hefur verið ákveðin takmörkun á því hversu langt mætti ganga í því skyni að taka slíka sjóði í rekstur eins og Framkvæmdasjóð aldraðra og Framkvæmdasjóð fatlaðra. En hér er gert ráð fyrir því að það verði opnað fyrir að allur Framkvæmdasjóður aldraðra verði tekinn í rekstur.
    Með hliðsjón af þeim umræðum sem fram fóru um þennan sjóð á síðasta kjörtímabili hlýt ég að spyrja sérstaklega þingmenn Sjálfstfl. sem eru í salnum hvort þeir standi að þessari breytingu, hvort þeir séu tilbúnir til þess eftir þá umræðu sem fram fór á síðasta kjörtímabili, m.a. undir forustu núv. formanns þingflokks Sjálfstfl., að fallast á það að taka allar takmarkanir út úr lögunum. Það er ekki bara verið að taka þetta út að hluta, heldur er verið að taka allar takmarkanir út þannig að allan Framkvæmdasjóð aldraðra má samkvæmt þessu taka í rekstur.
    Með öðrum orðum er hér verið að taka ákvörðun um það að framkvæmdasjóðurinn verði í raun og veru lagður niður, að hann verði aðeins til á pappírnum vegna þess að ríkisstjórn eða meiri hluti Alþingis getur þá og þá á fjárlögum tekið allan sjóðinn í rekstur.
    Þetta eru auðvitað býsna alvarleg tíðindi því Framkvæmdasjóður aldraðra hefur um 10 ára skeið gegnt mjög þýðingarmiklu hlutverki og um hann hefur verið mjög víðtæk samstaða. Ég beitti mér fyrir því sem heilbr.- og trmrh. að þessi sjóður varð til á sínum tíma og ýmsir menn úr þáverandi stjórnarandstöðuflokkum, eins og hv. þm. Matthías Bjarnason og hv. þm. Albert Guðmundsson, studdu gjaldtökuna í Framkvæmdasjóð aldraðra þó svo að þeir væru þá í stjórnarandstöðu. Ég man eftir því að ýmsir þingmenn Alþfl. á þeim tíma voru á móti þessari gjaldtöku og nokkrir þingmenn Sjálfstfl. en þessir þingmenn Sjálfstfl., sem ég hér nefndi, greiddu atkvæði með stjórnarliðinu og gátu þannig tryggt það að málið næði fram að ganga en sú stjórn bjó við mjög knappan og oft tæpan þingmeirihluta. Þess vegna er hér verið að stíga mjög sögulegt skref og það er fróðlegt að vita hvort Sjálfstfl. er tilbúinn til þess að standa að þessu frv. um að leggja niður Framkvæmdasjóð aldraðra eins og hér er verið að gera tillögu um. --- Ég sé að hv. 8. þm. Reykv. hefur þegar tekið hæstv. heilbrrh. tali, vafalaust út af þessu máli til þess að rétta kúrsinn í þessu efni. (Gripið fram í.) En þið eruð núna að tala um þetta. Ég sé það á þér að þú ert í góðum verkum, hv. þm.
    Varðandi málið að öðru leyti . . .   ( Forseti: Má forseti biðja hv. þm. um að fá tækifæri til að koma hér inn tilkynningu. Forseta varð á í messunni og gleymdi að boða, áður en þessi umræða hófst, að utandagskrárumræða mun fara fram klukkan hálffjögur að beiðni hv. 6. þm. Norðurl. e. um Kristnesspítala. Forseti hefði átt að tilkynna þetta í upphafi fundar en hreinlega gleymdi því og biður hv. 9. þm. Reykv. velvirðingar á þessari truflun á ræðu hans.)
    Varðandi málefni aldraðra sem hér eru á dagskrá er rétt að fara aðeins nánar út í stöðu þeirra mála. Það er kannski þannig að ekki þurfi að byggja meira fyrir gamalt fólk á Íslandi. Það er kannski þannig að þingmenn Reykvíkinga séu þeirrar skoðunar að ástandið í málefnum aldraðra í Reykjavík sé svo sérstaklega gott að það sé ástæðulaust að byggja meira fyrir gamalt fólk í þessu byggðarlagi. Ég hef enga trú á að það sé skoðun hv. 16. þm. Reykv., svo ég nefni dæmi. Staðreyndin er sú að í þessu kjördæmi blasa við alvarlegri vandamál í málefnum aldraðra en víðast hvar annars staðar vegna þess að hér eru færri rúm á tiltekinn fjölda aldraðra íbúa en í nokkru öðru kjördæmi.
    Á síðasta þingi lögðum við þingmenn Alþb. fram beiðni um skýrslu um málefni og hagi aldraðra. Hæstv. heilbr.- og trmrh. sendi frá sér þá skýrslu þegar mjög var liðið á þing þannig að það gafst ekki kostur á því að ræða skýrsluna í einstökum atriðum. Því miður fór það svo að skýrslan var tekin fyrir á næturfundi þar sem hæstv. umhvrh., í fjarveru hæstv. heilbrrh., mælti fyrir skýrslunni og ekki gafst tóm til þess að ræða hana að neinu gagni, því miður. Það er auðvelt að vera vitur eftir á og ég sé það núna að það hefði verið skynsamlegt að knýja þá fram ítarlega umræðu um þetta mál með hliðsjón af því frv. sem verið er að flytja núna um að leggja niður Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Þessi skýrsla var í raun og veru mjög alvarleg áminning um ástandið í þessum málaflokki. Ég tel út af fyrir sig fulla ástæðu til þess að þakka heilbrrn., starfsmönnum þess og hæstv. ráðherra fyrir það að hafa séð til þess að skýrslan var lögð hér fram. Hins vegar var hún mjög gölluð, einkum að því er varðar Reykjavík. Einn af öldrunarlæknunum sem starfar í Reykjavík, Sigurbjörn Björnsson læknir, sendi frá sér ítarlegar athugasemdir, sem við þingmenn fengum í hendur á sl. vori, þar sem skýrslan að því er varðar málefni aldraðra í Reykjavík er gagnrýnd mjög harðlega. Þar eru færð mjög greinargóð rök fyrir því að það er ekki tímabært að leggja niður Framkvæmdasjóð aldraðra í Reykjavík. Það er ekki tímabært að leggja niður byggingar fyrir gamalt fólk í Reykjavík.
    Í athugasemdum Sigurbjörns Björnssonar læknis segir t.d. --- ég hef satt að segja sjaldan séð jafnalvarlegar athugasemdir við eina opinbera skýrslu frá fagmanni og þessar, þar sem hann segir: ,,Skýrslan er ýmist rangfærð eða það vantar hreinlega í skýrsluna til þess að gefa rétta heildarmynd og skapa grundvöll fyrir áætlanir á sviði öldrunarmála í Reykjavík.``
    Í skýrslunni eru t.d. talin fjölmörg hjúkrunarrými og öldrunarrými sem ekki eru notuð fyrir aldraða. Það er t.d. í skýrslunni gert ráð fyrir því að öll B-álma Borgarspítalans sé notuð fyrir aldraða. Það er ekki rétt. Hún er ekki öll notuð fyrir aldraða. Ein deildin í B-álmu Borgarspítalans er ekki notuð fyrir aldrað fólk.
    Í skýrslunni er t.d. talað um plássin á öldrunarlækningadeildum Landspítalans og Borgarspítalans eins og það væru hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Það er að sjálfsögðu ekki. Öldrunarlækningadeildirnar þjóna allt öðrum tilgangi en hjúkrunarheimili. Það er rangt að birta opinbera skýrslu þar sem það er gefið í skyn að öldrunarlækningadeildir nýtist sem hjúkrunarrými fyrir aldraða.
    Í skýrslunni eru margar aðrar rangfærslur sem Sigurbjörn Björnsson læknir bendir á í þeim athugasemdum sem hann sendi þingmönnum á sl. ári. Niðurstaða hans er sú, með leyfi forseta:
    ,,Þegar upp er staðið eru eiginleg hjúkrunarheimilisrými í Reykjavík 456 eða 5 á hverja 100 íbúa 70 ára og eldri sem er langt undir þeim viðmiðunarmörkum sem að öðru leyti koma fram í skýrslunni.``
    Þetta er auðvitað mjög afhjúpandi niðurstaða læknisins og heilbrrn. og heilbrrh. hafa ekki sent frá sér neinar opinberar athugasemdir um þessar tölur sem hér koma frá Sigurbirni Björnssyni sem er starfandi öldrunarlæknir m.a., ef ég man rétt, við Skjól, og ég hygg Hrafnistu líka.
    Niðurstaðan er sem sagt sú að í Reykjavík eru þetta 5 rými á hverja 100 íbúa 70 ára og eldri en í skýrslunni segir að rýmin séu 8,1. Það munar ekki nema 3,1 en það munar sem sagt nærri helming þar sem ráðherrann gefur upp rangar upplýsingar miðað við raunverulegar staðreyndir þessa máls.
    En hvernig er þetta í öðrum byggðarlögum? Ef við tökum Vesturland eru rýmin tvisvar sinnum fleiri en í Reykjavík á hverja 100 íbúa eða 10,3. Á Vestfjörðum eru þau 14,8 á hverja 100 íbúa miðað við 5 í Reykjavík. Í Norðurlandshéraði vestra eru rými fyrir aldraða á hverja 100 íbúa 70 ára og eldri 16,8 en 5 í Reykjavík. Í Norðurlandshéraði eystra eru rýmin 10 miðað við 5 í Reykjavík. Í Austurlandshéraði eru rýmin 11,7 miðað við 5 í Reykjavík. Í Suðurlandshéraði 13,9, 5 í Reykjavík, og í Reykjaneshéraði 12,6 en 5 í Reykjavík.
    Þetta er sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir í þessu byggðarlagi sem höfum sinnt opinberum málefnum nú um nokkurt skeið. Við höfum kynnst því mjög vel hver vandi þeirra fjölskyldna er sem er með aldraða á sínum vegum, fólk sem fær ekki neina þjónustu, fólk sem kemst ekki inn á stofnanir og fær ekki viðhlítandi heimilisþjónustu. Eftir að hafa farið yfir biðlista Félagsmálastofnunar og alla þjónustumöguleika fyrir aldraða, m.a. dagdeildir í Reykjavík, er það mat öldrunarlækna að 150--200 aldraðir í Reykjavík eru í svokallaðri brýnni þörf og það er eftir að mjög ítarleg flokkunarvinna hefur farið fram og verulegum fjölda fólks sem er á mörkunum hefur verið ýtt út af þessum listum. Menn eru að tala um að það vanti um 150--200 pláss í Reykjavík og ég er sannfærður um að það er lágmarkstala miðað við það sem ég þekki sjálfur af þeim fjölda fólks sem til mín leitar sem þingmanns þessa byggðgarlags og ég er viss um að aðrir þingmenn Reykvíkinga þekkja líka. Þetta er þeim mun alvarlegra umhugsunarefni, virðulegi forseti, þegar þess er gætt hvernig úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra hefur verið á undanförnum árum. Ég sé ekki betur en að Reykjavík hafi farið mjög varhluta að því er varðar þessa úthlutun fyrir utan þau ár sem við vorum að byggja B-álmu Borgarspítalans fyrir 10 árum eða svo, en eftir það sýnist mér að menn hafi í raun gleymt þeim alvarlegu vandamálum í þessu byggðarlagi, því miður.
    Í frv. hæstv. heilbrrh. er aðallega gert ráð fyrir því að breyta ákvæðum um Framkvæmdasjóð aldraðra. Þá er fróðlegt að vita hvernig úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra hafa verið á undanförnum árum og bera þær saman við t.d. hlutfall aldraðra í íbúafjölda viðkomandi byggðarlaga. Þar kemur fram að hlutfall aldraðra, 70 ára og eldri, á Reykjanesi t.d. er um 15,5% af öldruðum á landinu öllu en Reykjanes hefur fengið um 16% af sjóðnum eða nokkurn veginn það sem það hefur óskað eftir. Það verður auðvitað að taka það fram að ástæðan fyrir því að Reyknesingar og dreifbýlið hafa oft og tíðum fengið fé úr sjóðnum hefur verið sú að þar hafa menn verið duglegir að berjast fyrir hagsmunum byggðarlaga sinna. Í Reykjavík höfum við hins vegar haft sveitarstjórn sem hefur verið á móti því að takast á um hagsmuni síns byggðarlags við ríkisvaldið. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekki verið með plön um lausn á vandamálum aldraðra en í öðrum byggðarlögum hafa menn barist um á hæl og hnakka að því er þetta varðar t.d. í Reykjaneskjördæmi og á Vestfjörðum. Í þessu sambandi get ég minnst á þá sem standa að uppbyggingu heimilisins Hlíðar á Ísafirði eða heimilisins á Reykhólum. Þar hafa menn unnið af krafti og þrótti við að ýta á eftir framkvæmdasjóðnum, stjórn hans, heilbrrh., ríkisstjórnum, fjárln. og öllum þeim aðilum. En að því er þetta byggðarlag varðar hefur vísvitandi verið reynt, einkum af fyrrv. borgarstjóra, að byggja virki í kringum borgina þannig að ekki er hægt að koma á eðlilegu samstarfi við uppbyggingu þjónustu, hvorki í skólamálum né heilbrigðismálum og núna geldur gamalt fólk í Reykjavík þess.
    Þegar úthlutun er skoðuð að því er varðar Reykjavík, þá búa í Reykjavík 47% þeirra sem eru 70 ára og eldri en sveitarfélagið hefur fengið 37% af sjóðnum. Sem fulltrúi fyrir þetta byggðarlag finnst mér fráleitt, virðulegi forseti, að taka svo stóran hluta sjóðsins út eins og hér er gerð tillaga um, en látum það þó vera ef menn settu sér að nema þar alveg staðar. En það er ekki gert því frv. opnar fyrir það að sjóðurinn sé allur tekinn í rekstur, þ.e. að Framkvæmdasjóður aldraðra og þar með þessi nefskattur sé í raun

og veru allur tekinn í ríkissjóð. Nú er ég vinur ríkissjóðs og menn vita það en ég er ekki tilbúinn til þess að fallast á að þessir fjármunir séu teknir með þessum hætti. Þetta er spurningin um að raða málum í forgangsröð og eitt brýnasta forgangsverkefnið í félagslegri þjónustu í þessu byggðarlagi og reyndar víðar á landinu er þjónusta við gamalt fólk. Þess vegna er það ekki líðandi að gera Framkvæmdasjóð aldraðra upptækan í ríkissjóð eins og ríkisstjórnin er að gera tillögu um. Nú er ég ekki að kenna heilbrrh. einum um þetta, hann hlýtur að hafa flokkana eins og þeir leggja sig á bak við sig, skárra væri það nú. En þeir geta vonandi endurskoðað afstöðu sína og gera það sjálfsagt.
    Varðandi þær athugasemdir sem fram komu hjá Sigurbirni Björnssyni öldrunarlækni mætti margt segja. Ég ætla þó að nefna eitt atriði sem ég hef dálitlar áhyggjur af og heitir málefni aldraðra í þessu byggðarlagi og reyndar á landinu öllu. Það eru svokallaðar íbúðir fyrir aldraða. Það er verið að byggja íbúðir fyrir aldraða um allt. Tveir turnar eru að rísa í Mjóddinni í Reykjavík sem sagðir eru íbúðir fyrir aldraða. Að ég best veit er mjög óveruleg þjónusta fyrir gamalt fólk í tengslum við þessar íbúðir. Félmrh. lét taka saman skýrslu þar sem ráðherra taldi að í raun þyrfti að herða enn á byggingu íbúða af þessu tagi á næstu árum. Heildarfjöldi þessara íbúða er talinn vera um 1.550 samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu og þar af er liðlega helmingurinn í Reykjavík. Verulegur hluti af íbúðunum er í raun og veru ekki sérstakar íbúðir fyrir aldraða heldur almennar íbúðir. Íbúðirnar seljast inn á almennan markað þegar fólkið sem býr í núna hættir að búa í þeim. Það eru engin takmörkunarákvæði að því er varðar eignarrétt þannig að aldraðir skuli bara kaupa þessar íbúðir. Þetta eru dýrar íbúðir, í mörgum tilfellum rándýrar. Satt að segja er það þannig að tilteknir byggingarverktakar í Reykjavík hafa á undanförnum árum lifað af því að byggja íbúðir með yfirskriftinni íbúðir fyrir aldraða, þó þetta séu í raun og veru engar íbúðir fyrir aldraða og fólkið sé að kaupa köttinn í sekknum. Mér liggur við að segja að verið sé að blekkja þetta fólk.
    Á síðasta þingi hreyfði ég þeirri hugmynd óformlega við heilbrrh. hvort ekki væri rétt að setja í reglugerð með lögunum um málefni aldraðra ákvæði um að segja: Það er aðeins ákveðin tegund af íbúðum sem kallast má íbúð fyrir aldraða. Það er bannað að auglýsa íbúð fyrir aldraða nema hún uppfylli tiltekin fagleg skilyrði, að þar sé ákveðin þjónusta, heilsugæsla og félagslegt öryggi.
    Ég beini þeirri áskorun til hæstv. heilbr.- og trmrh. að setja þessi ákvæði í reglugerð, hann getur það eigin hendi, þannig að þeirri blekkingarstarfsemi sem menn hafa komist upp með á undanförnum árum linni, þ.e. ýmsir sterkir verktakar að byggja íbúðir sem eru engar íbúðir fyrir gamalt fólk. Það er algerlega ólíðandi að halda svona á málum. Ég þekki þetta ekki vel í öðrum byggðarlögum en hygg þó að annars staðar séu menn líka að byggja íbúðir sem þeir kalla íbúðir fyrir aldraða. Ég er viss um að þetta mál á eftir að koma okkur stórkostlega í koll. Ég hvet þá sem hafa með þessi mál að gera í heilbrrn. að skoða það atriði sérstaklega að því er varðar svokallaðar íbúðir fyrir aldraða sem eru engar íbúðir fyrir aldraða.
    Núna háttar þannig til, virðulegi forseti, að dagdeild fyrir aldraða í Skjóli hefur staðið tilbúin í líklega þrjú ár. Ég hygg að það sé svo langt síðan þetta húsnæði var tilbúið að það séu komin ein þrjú ár. Plássið er talið með í skýrslu heilbrrh. frá því í fyrra eins og það sé tilbúið. Það er að vísu tilbúið en ekki komið í notkun. Í fjárlagafrv. get ég ekki séð að gert sé ráð fyrir því að taka dagdeildina í Skjóli í notkun. Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort hann ætli að beita sér fyrir því að dagdeildin í Skjóli verði tekin í notkun á næsta ári, þ.e. að fjármagn í gegnum sjúkratryggingar Tryggingastofnunar ríkisins verði tryggt í því skyni.
    Í öðru lagi er verið að byggja hjúkrunarheimili fyrir rúmlega 100 aldraða einstaklinga, hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi. Það hjúkrunarheimili verður að öllum líkindum að verulegu leyti tilbúið á næsta ári. Fyrir utan það að þar er um að ræða almennt hjúkrunarheimili fyrir aldraða er gert ráð fyrir að þar verði unnt að vista heilabilaða aldraða einstaklinga en þeim fer fjölgandi í seinni tíð eins og kunnugt er. Það er mjög mikilvægt að hjúkrunarheimilið Eir komist í notkun og eins og menn heyra af þessum tölum, annars vegar um 100 manns þarna og hins vegar það að Félagsmálastofnun talar um 150--200 í brýnni neyð, þá mundi muna mjög mikið um það ef hvort tveggja gerðist að við fengjum dagvistunina í Skjóli og sömuleiðis hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi í notkun. Ég spyr hæstv. heilbr.- og trmrh. hvort ákvæði séu í fjárlagafrv. sem gera ráð fyrir að hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi verði tekið í notkun á næsta ári.
    Virðulegi forseti. Ég hef farið hér yfir nokkur mál með hliðsjón af frv. sem ég tel að gangi út á það að gera Framkvæmdasjóðinn upptækan í ríkissjóð. Ég er andvígur því m.a. með þeim rökum að það er stórkostleg þörf fyrir þjónustu fyrir gamalt fólk m.a. í þessu byggðarlagi og ég hef rökstutt það að rúm fyrir aldraða eru helmingi færri hér en þau eru annars staðar á landinu. Ég hef bent á að með tilteknum ákvörðunum er hægt að koma í notkun rými fyrir um 100 aldraða hjúkrunarsjúklinga og 25--30 manns á dagvist aldraðra á næsta ári hér á þessu svæði. Ég hef beint fyrirspurnum til hæstv. heilbrrh. um þetta efni og ég hef skorað á hæstv. heilbrrh. og stjórnarflokkana að íhuga það mjög alvarlega hvort ekki sé hægt að setja inn takmörkun þannig að ríkinu verði ekki heimilt að gera Framkvæmdasjóð aldraðra upptækan í ríkissjóð. Ég vona að þingmenn stjórnarflokkanna sem hér eru og heyrt hafa mál mitt, hafi ekki alveg áttað sig á þessu atriði og séu tilbúnir til að beita sér fyrir því að það verði sett takmörkunarákvæði í lögin þannig að ríkissjóður sem er ævinlega svangur geti a.m.k. ekki satt hungur sitt á Framkvæmdasjóði aldraðra.