Kristnesspítali

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 15:57:41 (1324)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er algjörlega óhjákvæmilegt að mótmæla mjög harðlega áformum um að þjarma þannig að Kristnesspítala hvað rekstrarfjárveitingu snertir á næsta ári að það jafngildi í raun því að leggja stofnunina niður. Ef rétt er sem fram hefur komið að taka eigi 40 millj. kr. af spítalanum er alveg augljóst mál að hann verður ekki rekinn í þeirri mynd sem gert hefur verið og getur ekki þjónað því heilbrigðishlutverki sem hann á að gera. Á Kristnesi hefur í samfellt 6--8 ár verið unnið samkvæmt stefnumörkun stjórnarnefndar Ríkisspítala með stuðningi heilbrigðisyfirvalda og fjárveitingavaldsins að því að byggja þar upp tvíþætta starfsemi, endurhæfingarstarfsemi annars vegar og hjúkrunardeild eða langlegudeild hins vegar og þörfin fyrir hvort tveggja er óumdeild. Engar upplýsingar hafa verið reiddar fram sem réttlæta þennan niðurskurð með vísan til þess að ekki sé þörf fyrir hvort tveggja, endurhæfingarstarfsemi og þau hjúkrunarrúm sem þar eru.
    Staðreyndin er sú að verði Kristnesspítali lagður af og fækkað rúmum á legudeildum sem því nemur verður verra ástand á Norðurlandi í þessum efnum en í Reykjavík, en hér er talað um neyðarástand. Ef endurhæfing leggst af á Kristnesi leggst þar með af eina starfsemi þeirrar tegundar utan suðvesturhornsins. Það er athyglisvert að öll sparnaðaráform Ríkisspítalanna samkvæmt fjárlagafrv. eiga að koma fram í stofnunum utan höfuðborgarsvæðisins. Í grófum dráttum sýnist manni stefnan ganga út á það að leggja niður alla starfsemi Ríkisspítala annars staðar en í Reykjavík. Er það þá orðin stefna ríkisstjórnarinnar að ríkisvaldið geti ekki staðið fyrir slíkri starfsemi neins staðar nema í höfuðborginni?
    Það er gjörsamlega óþolandi, hæstv. forseti, þegar heilbrrh. fær einstakar stofnanir á heilann eins og gerst hefur aftur og aftur á undanförnum missirum í hans embættistíð og níðist svo á þeim í krafti valdsins.