Kristnesspítali

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 16:00:10 (1325)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í sumar skipaði hæstv. forsrh. nefnd sem á að smíða tillögur um flutning ríkisstofnana út á land. Á sama tíma vinnur annar ráðherra, hæstv. heilbrrh., hörðum höndum að því að færa nánast alla heilbrigðisþjónustu til Reykjavíkur. Þannig vinnur hver höndin á móti annarri í ríkisstjórninni.
    Hæstv. heilbrrh. virðist trúa á mátt miðstýringarinnar og vera sannfærður um að öflugur ríkisspítali á Reykjavíkursvæðinu sé það sem stefna beri að. Í fyrra tókst að verja St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og koma í veg fyrir lokun skurðstofa og fæðingardeilda úti á landi, en í staðinn var Landakotsspítali tekinn kverkataki og sér ekki enn fyrir endann á erfiðleikum hans. Nú virðist eiga að taka Kristnesspítala sömu tökum því fjármagn til spítalans verður skorið verulega niður ef tillögur fjárlagafrv. ná fram að ganga. Við hljótum að spyrja: Hvaða markmiðum ætlar heilbrrh. að ná með þessum niðurskurði? Hvar á að veita þá þjónustu sem nú er veitt á Kristnesspítala? Hver er stefnan? Á að færa þá endurhæfingarþjónustu sem verið hefur í uppbyggingu á Kristnesi á Kópavogshælið? Heldur ráðherrann að það verði ódýrara að senda fólk suður eða telur hann að aðrar stofnanir fyrir norðan geti tekið við þessu?
    Er ekki kominn tími til, hæstv. heilbrrh., að móta heildarstefnu í málum sjúkrahúsanna hér á landi með tilliti til þarfa landsmanna og í ljósi þess minnkandi fjármagns sem íslenskt þjóðfélag hefur óneitanlega yfir að ráða? Er ekki kominn tími til að hætta þessum stórskotaliðsárásum á sjúkrahúsin og starfsfólk þeirra, svo og handahófskenndum, óskipulögðum og vanhugsuðum niðurskurðartilraunum sem brjóta munu meira niður en þær byggja upp?
    Það er augljóst mál að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu til lengri tíma litið næst ekki öðruvísi en með langtímamarkmiðum og endurskipulagningu. Því verðum við að stöðva þessi áform núna og skoða stöðu Kristnesspítalans og annarra sjúkrahúsa á landinu rólega og yfirvegað ef við ætlum okkur að ná árangri í fjármálum ríkisins.