Kristnesspítali

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 16:02:38 (1326)

     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að breyta Kristnesspítala í þá veru að gera hann að fullkominni endurhæfingarstofnun og er það eina stofnunin þess eðlis utan höfuðborgarsvæðisins. Hér starfa vissulega nokkrar stofnanir eins og Reykjalundur, Grensásdeildin, endurhæfingastöð

hjarta- og lungnasjúklinga og reyndar er endurhæfingarstöð rekin í Hveragerði á heilsuhæli Náttúrulækningafélagsins. En utan þessa svæði er Kristnesspítali nánast eina stofnunin þessa eðlis.
    Hv. 5. þm. Norðurl. e. vitnaði til íslenskrar heilbrigðisáætlunar, sem Alþingi hefur samþykkt, þar sem sagt er að byggja skuli upp endurhæfingarþjónustu og öldrunarlækningar á Akureyri og Kristneshæli er auðvitað mjög vel fallið til þeirrar uppbyggingar. Eftir þessu hefur verið unnið og þetta er sú stefnumótun sem Ríkisspítalar hafa unnið eftir. Við umræður í stjórnarnefnd Ríkisspítalanna um uppbyggingu og endurhæfingardeild á Kópavogshæli hef ég undirstrikað það fyrir mína parta að það verði að taka tillit til fyrri ákvarðana um hlutverk Kristnesspítalans. Þetta má finna í fundargerðum stjórnarnefndar Ríkisspítalanna þar sem ég hef látið það koma skýrt fram að með ákvörðunum um breytingar á Kópavogshæli sé ekki gert ráð fyrir kerfisbreytingum varðandi þá þjónustu sem eigi að reka að Kristnesi.
    Þetta finnst mér að þurfi nauðsynlega að koma fram, virðulegi forseti. Ég treysti því að þó menn leiti allra leiða til þess að ná fram hagkvæmni í rekstri þessarar umræddu stofnunar og breyta rekstrarforminu, sem hefur reyndar verið rætt um og t.d. hefur Ríkisendurskoðun bent á að ef til vill væri hagkvæmt að reka Kristnesspítala í öðru formi heldur en sem hluta af Ríkisspítölunum, verði það samt gert með það í huga að stofnunin verði áfram endurhæfingarstofnun og hugsanlega öldrunarlækningastofnun og að því hlutverki verði ekki raskað. Ég mótmæli því eindregið að þessi rekstur verði lagður af ef sjúkrahúsinu verður lokað.
    Ég ítreka að það er eðlilegt að skoða vel samræmingu rekstrar á heilbrigðisstofnunum í Eyjafirði og leita allra leiða til þess að sá rekstur sé sem ódýrastur og hagkvæmastur en það er óásættanlegt að leggja þennan spítala niður og breyta þar með út af þeirri stefnu sem mótuð er í íslenskri heilbrigðisáætlun.