Kristnesspítali

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 16:13:04 (1330)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Því miður kom ekki fram hjá ráðherra það sem ég hafði vænst í þessu máli. Ég hlýt að lýsa miklum vonbrigðum mínum yfir því skipunarbréfi sem hann las upp fyrir þá nefnd að starfa eftir sem hann hefur skipað í málið. Hún hefur það hlutverk að útfæra hluti sem eru ósamrýmanlegir áframhaldandi starfsemi stofnunarinnar í þeirri mynd sem hún er í dag. Málið er svo einfalt.
    Það sem kom fram hjá ráðherra og ég ætla að drepa hérna á er varðandi kostnað við rekstur stofnunarinnar. Ráðherra getur þess ekki að þær tölur eru teknar frá þeim tíma þegar starfsemi stofnunarinnar var í lágmarki vegna endurbyggingar. Hann nefnir það ekki heldur að stofnunin hefur verið mjög þunga sjúklinga og ég sé ekki að hægt verði að spara nokkuð þótt þeir verði fluttir yfir á aðrar stofnanir.
    Þá nefndi hann húsnæðiskostnað. Þar er hann að skjóta sér á bak við hluti sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Þarna nokkuð öflugt húsnæði, það er þarna og það er staðreynd. Rekstur þess í dag kostar 1,6 millj. kr. á ári. Það er rekinn þarna hitaveita sem kostar 300 þús. kr. á ári.
    Ráðherra svaraði ekki spurningunni um Kópavogshæli. Af því hann gerði það ekki þá ætla ég að skýra frá því að hef ég hér undir höndum bréf þar sem hann er búinn að heimila þá uppbyggingu á sama tíma og hann virðist vera að leggja til að fella niður endurhæfingarstöðina á Kristnesi.
    Ég vil einnig benda á að hæstv. ráðherra sagði að fyrir löngu hefði forstjóra Ríkisspítalanna verið skýrt frá því hvað stæði fyrir dyrum. (Forseti hringir.) --- Virðulegi forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu. --- Ég bendi í því sambandi á að forstöðumaður Kristnesspítala er skipaður af ráðherra og ber ábyrgð gagnvart honum.
    Að lokum vil ég upplýsa það hér að þetta mál nýtur mjög víðtæks stuðnings fyrir norðan. Við þingmenn kjördæmisins höfum fengið á okkar fund sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar, við höfum fengið héraðsnefnd Eyjafjarðar, Eyþing, nýstofnuð samtök sveitarfélaga í Norðurlandi eystra, sem öll hafa lýst yfir miklum áhyggjum sínum vegna málsins og stuðningi við áframhaldandi rekstur Kristnesspítala.