Málefni Kópavogshælis

32. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 10:31:11 (1340)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. nefndi hafa orðið þær breytingar í millitíðinni sem gera það að verkum að rétt er að víkja að efnisatriðum málsins eins og það stendur nú og skal ég gera það.
    Á fundi stjórnarnefndar Ríkisspítala þann 22. sept. 1992 var gerð samhljóða samþykkt með stuðningi allra stjórnarnefndarmanna. Hún hljóðar svo:
    ,,Núverandi endurhæfingardeild á Landspítalanum verði lögð niður. Opnuð verði ný deild 1. jan. 1993 í húsnæði Kópavogshælis og á Landspítala sem nefnist endurhæfingardeild Landspítalans, Kópavogi. Sú deild verði á lyflækningasviði. Kópavogshælið verði lagt niður samtímis því sem endurhæfingardeildin í Kópavogi taki til starfa. Forsendur þess að tillagan nái fram að ganga eru eftirtalin atriði:
    Ráðinn verði nýr yfirlæknir yfir alla deildina en hjúkrun í Kópavogi verði hluti af hjúkrunarþætti Landspítalans. Á Landspítalanum verði eftir sem áður aðstaða þar sem hægt er að annast sjúkra- og iðjuþjálfun sjúklinga sem vistast á Landspítalalóðinni.`` --- Til þess að hrinda þessari tillögu í framkvæmd þarf að leggja niður fjórar stöður sem nefndar eru og í staðinn þarf að ráða í tvær stöður sem tilgreindar eru í samþykktinni. --- ,,Við framkvæmd þessarar tillögu þarf að gæta hagsmuna þroskaheftra sem nú eru á Kópavogshæli. Önnur skipulagning á hinni nýju deild fari fram í samráði við nýjan yfirlækni og hjúkrunarstjórnendur.``
    Þannig hljóðaði samþykktin sem gerð var 22. sept. 1992. Samþykktinni fylgdi greinargerð sem ég get ekki lesið tímans vegna en ég mun afhenda hv. þm. hér á eftir.
    Eftir þessa samþykkt var málið kynnt fyrir stjórn Þroskahjálpar og fyrir Félagi aðstandenda vistmanna á Kópavogshæli og báðir aðilar lýstu yfir stuðningi sínum við þá stefnumörkun sem þarna var gerð. Ég átti síðan tvo fundi með stjórnendum Ríkisspítala um þessi mál, fyrst með stjórnarformanni og forstjóra og síðan með kjörnum fulltrúum í stjórnarnefndinni. Sá fundur átti sér stað þann 5. okt. sl. Í framhaldi af þeim fundi ritaði ég svo svofellt bréf til stjórnarnefndar Ríkisspítala, og er orðrétt tilvitnað í það bréf:
    ,,Ráðuneytið vísar til bréfs Ríkisspítalanna frá 22. sept. þar sem með er send samþykkt stjórnarnefndar um endurhæfingardeild Landspítalans í Kópavogi. Ráðuneytið vísar jafnframt til fundar með þingkjörnum fulltrúum í stjórnarnefnd, formanni stjórnarnefndar og forstjóra hinn 1. okt.
    Ráðuneytið samþykkir fyrir sitt leyti þær breytingar sem stjórnarnefnd hefur lýst um framtíðarfyrirkomulag í Kópavogi. Ráðuneytið vill þó benda á eftirfarandi atriði:
    1. Gera verður ráð fyrir því að framvegis sem hingað til verði í Kópavogi hjúkrunarvistunaraðstaða fyrir þá þroskahefta sem ekki geta komist á sambýli og telur því ráðuneytið að nafn deildarinnar þurfi að fela í sér það hlutverk.
    2. Ráðuneytið telur nauðsynlegt að stjórnarnefnd útfæri betur tillögur sínar um framtíðarfyrirkomulag Kópavogshælis og að þar komi fram annars vegar heildarmynd stofnunarinnar þegar tillögur hafa komist í framkvæmd og hins vegar tímaáætlun og kostnaðaráætlun um að gera breytingar. Þá vill ráðuneytið benda á nauðsyn þess að stjórnarnefnd Ríkisspítalanna taki upp viðræður við félmrn. í sambandi við tilflutning úr Kópavogi og á sambýli og að því verði hraðað eftir því sem föng eru á.
    Ráðuneytið lítur svo á að stjórnarnefnd þurfi að fá endanlegt samþykki ráðherra að tillögum sínum þegar þær liggja fyrir í smáatriðum.``
    Í lok bréfsins er því svo lýst yfir að ráðuneytið muni beita sér fyrir þeim breytingum á ráðningarmálum sem þurfa fram að ganga samkvæmt tillögum stjórnarnefndar Ríkisspítalanna eins og þeim er lýst í samþykkt stjórnarnefndar.
    Ég vil aðeins taka það fram í lokin að ekki er gert ráð fyrir neinum sérstökum fjárveitingum til Ríkisspítalanna til uppbyggingar endurhæfingardeildar í fjárlögum fyrir næsta ár, enda var það ekki í samþykkt stjórnarnefndar að gert væri ráð fyrir neinum sérstökum fjármálalegum ráðstöfunum á næsta ári í því sambandi. Það er því með öllu rangt sem heyrst hefur ávæningur af að í samþykkt stjórnar Ríkisspítala hafi falist sú stefnumörkun að það fé sem hugsanlega væri hægt að spara í rekstri Kristnesspítala á Akureyri yrði notað til uppbyggingar endurhæfingaraðstöðu hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki rétt.