Verkefni tilsjónarmanna

32. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 10:54:58 (1351)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Þessar stuttu umræður hafa leitt mjög rækilega í ljós hversu góðum árangri núv. hæstv. ríkisstjórn hefur náð í því að veita rekstrarlegt aðhald í ríkisbúskapnum og er vissulega mjög ánægjuleg undirstrikun á því öllu saman.
    Við þær umræður sem fram fóru og margoft hefur verið vitnað til var mjög mikið talað um að þessir svokölluðu tilsjónarmenn ættu að hafa mikið boðvald og þeir væru ógnun við stofnanir og starfsmenn ríkisins. Hið gagnstæða hefur náttúrlega komið í ljós. Með þeim velheppnuðu og almennu aðhaldsaðgerðum sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir hafa að mestu náðst þau markmið sem að var stefnt. Ég tel hins vegar, eins og ég taldi þegar þessi lög voru sett, nauðsynlegt að hafa til staðar þessa heimild til þess að skipa tilsjónarmenn af ástæða þætti til, en vissulega er heppilegast ef svo vel tekst til eins og hefur gerst hjá hæstv. núv. ríkisstjórn að til þess þurfi ekki að koma að beita lagaákvæðinu um tilsjónarmenn.