Jöfnun verðlags

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 11:03:31 (1354)

     Flm. (Ragnar Arnalds) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 41 flytjum við hv. þm. Margrét Frímannsdóttir frv. til laga um jöfnun verðlags. Í 1. gr. frv. segir að markmið laganna sé að stuðla að því að lífskjör þjóðarinnar verði sem jöfnust óháð búsetu. Í þeim tilgangi beri að tryggja eftir því sem kostur er að algengustu lífsnauðsynjar og almenn þjónusta verði boðnar á sama verði hvar sem er á landinu.
    Í rauninni má segja að óþarft ætti að vera að flytja frv. af þessu tagi. Fyrir löngu hefði átt að tryggja að lífskjör þjóðarinnar væru nokkuð jöfn óháð búsetu, en staðreyndin er að verulegur munur er á verðlagi eftir landshlutum. Þar má nefna rafmagns- og hitunarkostnað, símakostnað, smásöluverð í verslunum, svo og verð á ýmiss konar þjónustu sem háð er flutningskostnaði.
    Í frv. er ekki gerð tilraun til þess að jafna allt verðlag, enda er þar við ramman reip að draga en það er reynt að jafna þennan mun á þremur sviðum, þ.e. hvað varðar símakostnað, raforkuverð og heildsöluverð.
    Ef við lítum fyrst á málefni Pósts og síma er auðvitað nokkuð ljóst að engin rök mæla með því og enn síður nokkur sanngirni að dýrara sé fyrir símnotanda í einum landsfjórðungi en öðrum að hringja hingað á höfuðborgarsvæðið þar sem langflestar ríkisstofnanir eru ásamt meiri hluta landsmanna. Mishá gjöld eftir svæðisnúmerum eru ekkert annað en leifar frá liðnum tíma þegar símaþjónustan var handvirk. Þessa úreltu mismunun ber því tafarlaust að afnema.
    Í þessu sambandi er rétt að minna á að Póst- og símamálastofnunin greiðir hvorki meira né minna en 940 millj. kr. til ríkisins á þessu ári í arð, eða um 11% af tekjum, en greiddi árin þar á undan um 500--550 millj. Í stað þess að halda uppi þessari miklu skattheimtu á símnotendur ætti það að hafa forgang að láta fullan jöfnuð símgjalda verða að veruleika. Áreiðanlega væri hægt að láta það markmið koma til framkvæmda án þess að greiðslur símans til ríkisins féllu algjörlega niður því þarna er um svo gríðarlegar upphæðir að ræða að þó þær væru eitthvað skertar dygði það vafalaust til að jafna símgjöldin.
    Það er sem sagt gerð tillaga um að eigi síðar en 1. maí 1993 skuli samgrh. ákveða að landið allt sé eitt gjaldsvæði og öll símtöl innan lands verðlögð á sama hátt óháð vegalengdum milli notenda.
    Ódýrustu þriggja mínútna samtöl kosta nú 5,81 en 22 kr. þegar taxtinn er hæstur og hlutfallið er í dag 1 á móti 3,8. Þetta hlutfall hefur vissulega farið lækkandi á undanförnum árum og var fyrir tæpum áratug 1 á móti 11. En tillagan gengur út á það að færa þetta hlutfall niður í 1 á móti 1.
    Í 3. gr. frv. segir:
    ,,Eigi síðar en 1. maí 1993 skal Landsvirkjun bjóða raforku í heildsölu til dreifiveitna á sama verði um land allt miðað við afhendingu orkunnar í spennistöð hjá viðkomandi dreifiveitu.
    Ríkisstjórnin skal vinna að samræmingu raforkuverðs í smásölu með ákvörðun hámarksverðs sem

komi til framkvæmda eigi síðar en 1. jan. 1994. Í því skyni að gera dreifiveitum raforku kleift að laga sig að samræmdu orkuverði er ríkissjóði heimilt að yfirtaka hluta af skuldum þeirra og leggja fast gjald á alla raforkuvinnslu til að standa undir viðhaldi og afskriftum af sveitalínum.``
    Jöfnun raforkuverðs hefur gengið heldur hægt. Ástæðan er að sjálfsögðu m.a. sú að skipulag raforkumála er afar flókið. En fullri jöfnun raforkuverðs er að sjálfsögðu hægt að ná eftir ýmsum leiðum. Hér er valin sú leið, eins og kom fram í sjálfri lagagreininni, að vandinn verði leystur með sameiginlegu átaki Landsvirkjunar og ríkissjóðs, svo og einhverju framlagi orkuneytenda í formi orkugjalds ef hjá því verður ekki komist.
    Rafmagnsverð til heimilisnotkunar er nú um 20% hærra hjá Rafmagnsveitum ríkisins en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Meginástæða þessa mikla munar er sú að Rarik ber kostnað af viðhaldi og afskriftum af dreifikerfinu um sveitir landsins og þessar afskriftir af dreifilínum í sveitum nema um 300 millj. kr. árlega en Rarik fær ekki nema brot af þessum kostnaði greiddan úr ríkissjóði, t.d. á þessu ári aðeins 15 millj. kr. og eitthvað hliðstætt gildir um Orkubú Vestfjarða. Það er þessi munur, þ.e. byrðin af dreifiveitunum upp á 300 millj. kr. á ári og svo framlag ríkisins, sem ekki er nema 15 millj., sem veldur þessum mikla mun á rafmagnsverði frá rafmagnsveitunum annars vegar og Rafmagnsveitu Reykjavíkur og nokkrum öðrum rafmagnsveitum hins vegar.
    Ég held að þessar tölur sem ég hef nefnt sýni það ljóslega að fengju Rafmagnsveitur ríkisins helming af afskriftum sveitalínanna greiddan af almannafé árlega, þó það væri ekki nema helmingurinn af áskriftunum sem fengist greiddur, ætti fyrirtækið auðvelt með að bjóða raforku til heimilisnota á hliðstæðu verði og Rafmagnsveita Reykjavíkur.
    Í þessu sambandi er rétt að láta þess getið að í mörgum löndum þykir það sjálfsagt mál að orkuvinnslan sé látin borga dreifingu raforkunnar. Ég vil nefna sem dæmi að þannig er þetta í Skotlandi. Í Skotlandi er kostnaðurinn við þessa dýru sveitarafvæðingu borinn uppi af orkuvinnslunni. Það er raunverulega það sem hér er verið að gera tillögu um en til þess að það verði ekki of þung byrði til að byrja með er lagt til hér að ríkið komi þarna til móts og leysi vandann að nokkru með því að taka að sér helming af afskriftunum.
    Í 4. gr. frv. er svo vikið að verðlagsmálunum, heildsöluverði og smásöluverði. Á síðasta vetri kannaði Verðlagsstofnun verð hjá á annað hundrað matvöruverslunum um land allt. Í þessum könnunum kom í ljós að smásöluverð á landsbyggðinni hefur farið hækkandi síðustu tvö árin í samanburði við verðlag í Reykjavík. Það reyndist t.d. 9% hærra á Vestfjörðum en á höfuðborgarsvæðinu en var 6% hærra fyrir tveimur árum. Svipuð þróun átti sér stað á Vesturlandi, Norðurlandi og Suðurlandi. Það er erfitt að slá því föstu hvað veldur þessu mikla vandamáli en á það er bent að samkeppni stórmarkaða á höfuðborgarsvæðinu hafi mjög aukist í seinni tíð og að þessi samkeppni hafði leitt til lægra vöruverðs þar. Auðvitað ber að fagna því og vissulega hefur það haft sitt að segja fyrir neytendur á höfuðborgarsvæðinu. En á hinn bóginn er því ekki að leyna að sterkur grunur leikur á því að í mörgum tilvikum a.m.k. hafi landsbyggðin verið látin borga herkostnaðinn af verðstríðinu í Reykjavík. Það hafa að vísu komið fram fleiri en ein skýring á þessu vandamáli frá Verðlagsstofnun og nú seinast birti Verðlagsstofnun upplýsingar sem áttu að skýra hið lága vöruverð á höfuðborgarsvæðinu.
    Hver sem sannleikurinn er í þessu máli ætti að vera full þörf á því að Verðlagsstofnun setti reglur sem gætu stuðlað að sem jöfnustu vöruverði í landinu og reynt væri að tryggja að landsbyggðin væri ekki látin njóta verri kjara en gerist á höfuðborgarsvæðinu.
    4. gr. frv. beinist einmitt í þessa áttina en þar er gert ráð fyrir að við 1. gr. laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, lög nr. 56/1978, með síðari breytingum, bætist nýr stafliður þar sem því er slegið föstu að það sé eitt af hlutverkum Verðlagsstofnunar að vinna að því að jafna vöruverð í landinu. Síðan er bætt við 8. gr. laganna nýrri mgr. sem hljóðar svo:
    ,,Í reglum þessum skal stuðla að því að heildsölufyrirtæki bjóði smásöluverslunum vörur á sama verði um land allt og undirboð á einum stað séu ekki fjármögnuð með hærra verði annars staðar.``
        Virðulegi forseti. Þetta er stórmál sem vissulega væri full ástæða til að fjalla um í miklu lengra máli en ég hef hér gert. Ég hef hins vegar aldrei lagt í vana minn að halda hér mjög langar ræður enda tel ég það frekar til vansa og læt því þessi orð duga. Ég vil eindregið hvetja hv. alþm. til að veita þessu máli athygli því að þetta er mikið sanngirnismál. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. efh.- og viðskn.