Jöfnun verðlags

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 12:06:32 (1360)

     Flm. (Ragnar Arnalds) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þingmönnum úr fjórum stjórnmálaflokkum fyrir þátttöku í umræðu um þetta mál. Sérstaklega vil ég þakka tveimur stjórnarþingmönnum sem hafa tekið til máls og ég vil leyfa mér að halda því fram að ábendingar þeirra hafi verið um margt sanngjarnar og skynsamlegar og ég þakka þeim fyrir að hafa tekið þátt í umræðunni. Það kom skýrt fram hjá þeim báðum og reyndar öllum þeim sem hér hafa talað að markmið frv. væri brýnt.
    Ég vil taka það sérstaklega fram að frv. var að vísu flutt í fyrra en þá komst það aldrei til umræðu. Þetta er í fyrsta skipti sem frv. er til umræðu í þinginu.
    Hv. stjórnarþingmenn Gunnlaugur Stefánsson og Einar K. Guðfinnsson höfðu að vísu uppi efasemdir um vissa þætti frv. og þá helst aðferðina við að ná fram fullri jöfnun. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson talaði dálítið um það að oft hefðu verið gefnar yfirlýsingar en meiri þörf væri á að láta verkin tala. Ég vil vekja á því athygli að frv. er í þremur liðum. Það snertir í fyrsta lagi símann, í öðru lagi rafmagnið og í þriðja lagi almennt verðlag. Það er ljóst að ef frv. er samþykkt þá tala verkin. Þá er kominn fullur jöfnuður á varðandi raforkuna og símann. Hitt er annað mál og það skal ég viðurkenna að var laukrétt hjá þeim báðum og kom kannski enn skýrar fram hjá Einari Guðfinnssyni að þriðja málið, þ.e. um almennt heildsöluverð og smásöluverð í verslunum, að það er að sjálfsögðu miklu flóknara mál og erfiðara viðfangs. Það er síður en svo að ég sé að halda því fram að ég hafi nokkra töfralausn á því vandamáli með þeim breytingum á samkeppnislögum sem ég geri hér tillögu um. Ég held því sem sagt fram að í hinum tveimur tilvikunum leysist málið, varðandi símann og varðandi rafmagnið. En ég hef vissulega efasemdir um það, eins og hv. þm., að þriðja tillagan, sem þarna er gerð og snertir heildsöluverðið eða smásöluverðið, leysi þetta vandamál í eitt skipti fyrir öll, því miður er málið flóknara en svo.
    Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson talaði töluvert um húshitunarkostnaðinn og það var athyglisvert sem hann sagði um það mál. Frv. og sú grein sem er um rafmagnsmálin snýr kannski meira að almennum raforkukostnaði heimila öðrum en húshitunarkostnaði sem er ekki tekinn hér sérstaklega fyrir.
    Það er alveg rétt að Landsvirkjun hefur auðvitað lykilstöðu í þessu máli og vildi hún beita þeirri lykilstöðu sinni væri auðvelt að leysa málið á þann veg. Ég fara aðra leið vegna þess að Landsvirkjun hefur þráast við að beita þessari lykilstöðu sinni. Ég tek eftir því þegar dæmið er reiknað að Rafmagnsveitur ríkisins vantar ekki nema 116 millj. kr. upp á það að geta boðið sama taxta í smásölu, rafmagn til heimilisnotkunar, og Rafmagnsveita Reykjavíkur gerir. Þetta er ekki stærri upphæð en 116 millj. Þó ég viðurkenni að vísu að kannski væri einfaldasta lausnin að láta Landsvirkjun borga þennan mismun, þá er ég að reyna að fara aðra leið. Hún er einfaldlega sú að meira sé lagt til afskrifta af dreifilínum til Rafmagnsveitna ríkisins og annarra þeirra sem í þeirri stöðu eru að þurfa að bera þann kostnað og þá leysist sá þáttur málsins. Það er sem sagt leið sem er vel fær.
    Mér þótti athyglisvert að heyra hv. þm. Gunnlaug Stefánsson tala um jöfnunartolla. Auðvitað gengur sú hugmynd miklu lengra en hugmyndin sem felst í frv. Það væri auðvitað mjög stórt skref ef menn réðust í það að leggja á jöfnunartolla og jöfnuðu verðlag með þeim hætti. En ég hef ekki gengið svo langt og dreg reyndar í efa að það sé auðvelt að koma slíku máli fram í þinginu. Ég vel því einfaldari leiðina

sem ekki gengur alveg jafnlangt og ætla þá að vona að það verði þeim mun meiri samstaða um þá leið. Svo þakka ég fyrir ágætar umræður.