Jöfnun verðlags

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 12:12:31 (1361)


     Gunnlaugur Stefánsson :
    Herra forseti. Ég get ekki orða bundist. Það hefur vakið athygli mína að í þessum ágætu, fróðlegu og almennu umræðum sem hér hafa farið fram um málefni landsbyggðarinnar hafa fulltrúar Framsfl. ekki tekið þátt. Það hefðu þótt tíðindi hér fyrrum þegar málefni landsbyggðarinnar voru til umræðu á hinu háa Alþingi ef Framsfl. hefði ekki tekið þátt í þeirri umræðu. Ég segi að það hefði jafnvel verið til tíðinda kallað ef Framsfl. hefði ekki haft forustu fyrir umræðunni. En nú er hann víðs fjarri.
    Þetta kemur kannski ekki svo mikið á óvart í ljósi þess að það hefur farið ansi lítið fyrir áhuga Framsfl. á málefnum landsbyggðarinnar að undanförnu, einmitt eftir að hann komst í stjórnarandstöðu. Hann hefur haft mestan áhuga á málefnum höfuðborgarsvæðisins og þau verið fyrst og fremst tilefni um forustu fyrir málatilbúnaði á hinu háa Alþingi.
    Ég vildi vekja sérstaka athygli á þessu af því ég trúi að hér sé stigið sögulegt skref í pólitískri sögu þjóðarinnar, að hér fari fram ítarleg umræða um málefni landsbyggðarinnar án þess að Framsfl. hafi þar nokkra skoðun.