Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 14:10:30 (1380)

     Gunnar Birgisson (andsvar) :
    Frú forseti. Rétt til að svara fyrir nokkra hluti sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur verið að fullyrða hér en eru mér sum hver ókunnug þótt ég sitji sem formaður stjórnar sjóðsins, þá ætla ég rétt að tæpa á helstu atriðunum sem hann minntist hér á. Ég mun síðan svara öðru í ræðu hans seinna.
    1. Varðandi 25% viðbótareiningar vegna veikinda þá hefur því atriði verið lítið breytt frá síðustu reglum. Benda má á hvort menn geti alltaf tekið það með í reikninginn að konur séu einmitt ófrískar í prófum og þær taki bara 6 einingar. Ef við mundum nú taka 9 einingar eða 10 einingar. Þetta er bara spurning.
    2. Ég skil ekki athugasemd hv. þm. varðandi meðlögin.
    3. Ég skil ekki heldur athugasemd varðandi mastersnámið í Bandaríkjunum. Hún á ekki við rök að styðjast sú fullyrðing. Stjórnin hefur í engu stytt það nám sem þar fer fram. Það er að vísu í athugun hvort eigi að lána til meira en tveggja ára þegar um ritgerðir er að ræða sem fylgja mastersnáminu.
    4. Næsta atriði var að frestir séu túlkaðir strangt. Til þess eru dagsetningar að standa við þær, þær eru ekki settar til að menn geti brotið þær. Hvers eiga hinir að gjalda sem standast tímann?
    5. Ég nefni næst að undirbúningur iðnnáms, tækniskóla, samvinnuháskóla sé strikað út. Það var ákvörðun stjórnar sjóðsins að lána ekki til náms sem væri jafngildi stúdentsprófs. Það nám sem þarna fer fram er ígildi þess. Við getum alveg eins farið að lána til náms við fjölbrautaskóla í landinu. Hv. þm. sýndi það og sannaði þegar hann var menntmrh. að hann var höfðingi og útdeildi fjármunum okkar skattborgaranna og fór létt með það.
    Í úthlutunarreglum er reiknað með 9% vaxtaálagi ofan á lánin. Einnig var lánað vegna náms erlendis, læknanáms, og það er líka í athugun að breyta því. Yfirleitt er þar um að ræða menn sem hafa mjög há laun.
    Það er spurning hvort Iðnnemasambandið eigi að vera í stjórn sjóðsins. Þetta var nú einu sinni eitt samband, þ.e. samband sérskólanema. Nú klauf Iðnnemasambandið sig út og ég spyr: Ef einhverjir fleiri ætla að kljúfa sig út úr einhverjum öðrum samböndum eiga þeir þá að fá aðild að stjórn sjóðsins?
    Virðulegi forseti. Af því að tíma mínum er lokið ætla ég að fá að svara öðru seinna.