Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 15:36:21 (1397)

     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var auðvitað ýmislegt fróðlegt sem kom fram í ræðu hv. 11. þm. Reykn., þó sérstaklega það að hún viðurkenndi að þingmenn stjórnarflokkanna, þar á meðal voru ekki forustumenn

stjórnarflokkanna í menntmn., hefðu haft hugmynd um þær víðtæku breytingar á úthlutunarreglum sem núverandi stjórn hefur gert. Hv. þm. bar það fyrir sig að á sínum tíma hefðu heildarreglur um lánasjóðinn, þ.e. að því er varðar hækkun framfærslulána, ekki verið bornar fyrir þingið. Það er rangt. Þær voru bornar fyrir stjórnarflokkana á sínum tíma sem stóðu að þeim ákvörðunum fyrir sitt leyti með opnum augum og endanleg niðurstaða var svo tekin á Alþingi sjálfu. Þannig að það er beinlínis rangt hjá hv. þm. og misskilningur að bera þetta tvennt saman. En ég fagna því að hv. þm. gefur því undir fótinn að hann hafi ekki haft hugmynd um þær undarlegu útlánareglur sem núv. stjórn lánasjóðsins hefur beitt sér fyrir. Það bendir til þess að í menntmn. gætum við jafnvel átt ágætar umræður um það hvernig unnið hefur verið að þessum reglum og hvort ástæða er til að breyta þeim.