Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 15:37:39 (1398)

     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mjög athyglisverðar upplýsingar sem koma fram í máli þingmannsins vegna þess að hann vísar til úthlutunarreglna þegar fjárhæðir voru hækkaðar í apríl 1990. Þá fékk ég sem stjórnarþingmaður fyrst vitneskju um það mál með því að lesa grein í Þjóðviljanum. Ég spurðist fyrir um það í mínum þingflokki hvort þetta mál hefði verið tekið fyrir þar og fékk þau svör að svo væri ekki. Ég mun að sjálfsögðu kanna hvort mér hafa verið gefnar rangar upplýsingar. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að það er alltaf ánægjulegra að taka þátt í góðum gjörningum og auka útlán eða hækka fjárhæðir. Það er svo annar hlutur. En mér vitanlega hefur það ekki verið venja að úthlutunarreglur eða vinna í nefndum, sem eru utan þings, séu teknar fyrir í stjórnarflokkunum eða á Alþingi.