Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 15:38:48 (1399)

     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað rétt að það hefur ekki verið venja að þingmenn hafi fjallað um úthlutunarreglur og framkvæmdareglur í einstökum atriðum. Það er alveg hárrétt. Það er í raun og veru engin ástæða til þess að gera það yfirleitt. Hins vegar held ég að þau dæmi sem ég nefndi í framsöguræðu minni í dag séu með þeim hætti að þau hljóti að hvetja þingmenn til þess að taka vinnubrögð meiri hluta lánasjóðsstjórnarinnar sérstaklega til meðferðar því það er bersýnilegt að mínu mati að meiri hlutanum var ekki treystandi fyrir því mikla valdi sem Alþingi fól honum með lagasetningu síðasta vor.