Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 15:47:33 (1406)

     Gunnar Birgisson :
    Herra forseti. Það hafa mörg orð fallið um Lánasjóð ísl. námsmanna hjá ræðumönnum í dag og er rétt að fara yfir nokkur atriði. Við byrjum þá á fullyrðingum um fækkun lánþega hjá sjóðnum og hvers vegna hún er. Þá er kannski rétt að eftirfarandi komi fram þegar búið er að kíkja á málin:
    Hlutfall námsmanna með börn á framfæri var yfirleitt 29--30% af tölu lánþega fyrir skólaárið 1990--1991. Þetta hlutfall hækkaði þó skyndilega í 38% á því ári en lækkaði í 34% á árinu 1991--1992 og er nú áætlað 28% á yfirstandandi skólaári. Þar sem mikið hefur verið rætt um hlut kvenna af heildarfjölda lánþega lánasjóðsins þá hefur hann farið jafnt og þétt hækkandi allan síðasta áratug. Hlutallið hækkaði úr 47% í 49% á þeim árum sem fjölgunin var mest og er samkvæmt áætlun 48%. Einstæðum foreldrum fjölgar mjög í hlutfalli við heildartölu lánþega lánasjóðsins á Íslandi þegar fyrrnefnd fjölgunarsveifla átti sér stað. Á árunum 1987--1989 var hlutfall þeirra 4--5% en hækkaði í 7% árið 1990--1991 og 8% 1991--1992. Nú er áætlað að á yfirstandandi skólaári verði þeir 7%.
    Þá hefur komið í ljós að meðalaldur lánþega hefur hækkað síðustu árin. Það bendir til þess, jafnframt því að námsmönnum með börn fjölgaði mjög, að óvenju margt fólk hefur byrjað nám að nýju eftir hlé á þessum árum þegar lánþegum lánasjóðsins fjölgaði hvað mest.
    Lánþegar sem hlutu námslán í fyrra og sóttu ekki um aftur eru fleiri en þeir sem sækja um í fyrsta sinn á yfirstandandi skólaári. Þannig hættu 3.086 manns sem lánþegar lánasjóðsins en um 2.400 nýjar umsóknir bættust við.
    Ljóst er að mikilvæg ástæða fyrir þessari þróun er sú að margir af þeim sem hófu nám þegar framangreind fjölgunarsveifla átti sér stað hafa lokið námi. Engan veginn var hægt að búast við að slík bylgja héldi áfram og ætti sér stað til frambúðar. Úr henni hlaut að draga eðli málsins samkvæmt án þess að til kæmu breytingar á reglum sjóðsins.
    Námsmönnum með börn á framfæri fækkar nú eðlilega hlutfallslega meira en einstaklingum þar sem fjölgun lánþega á sínum tíma átti að miklu leyti rætur að rekja til þessa hóps. Þetta á bæði við um einstæða foreldra og sambúðarfólk með börn á framfæri. Athyglisvert er þó hversu lítil sú fækkun virðist ætla að vera.
    Þegar menn kíkja á þetta má sjá að fækkunin hefur aðallega orðið hjá einstæðum foreldrum. Þá

er kannski að spyrja: Hvers vegna er það? Konum hefur ekki fækkað. Innritun í háskólann að hausti er ekki marktæk tala um það. Langt frá því.
    Í byrjun málsins, þegar núv. ríkisstjórn tók við völdum, stóð hún frammi fyrir miklum vanda eins og allt þjóðfélagið: Veruleg minnkun var á þjóðartekjum og þar af leiðandi lækkun á tekjum ríkissjóðs. Þá þarf að skera niður og það er ekki alltaf gaman að skera niður. En það lenti á ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að gera það. Það er auðveldara að hækka námslánin, eins og var gert á árum Svavars Gestssonar, um 20%. Hann var ekki fjmrh. þeirrar ríkisstjórnar. Svavar er ,,debetmaður``. Hann spáir ekki í peninga.
    Hvað átti ríkisstjórnin þá að gera? M.a. þurfti að lækka kostnað í þessum geira og það má líka spyrja: Ef haldið hefði verið svona áfram hvar hefðum við þá endað ef við hefðum haldið uppi þessari miklu velferð sem var hér í minnkandi þjóðartekjum? Við höfum eitt dæmið rétt hjá okkur og það er hjá Færeyingum. Það er ekki endalaust hægt að skrifa hjá ríkissjóði, slíkt gengur ekki endalaust. Á endanum þýðir það hrun. Svo var með þennan ágæta lánasjóð þegar þessi ríkisstjórn tók við. Þá höfðu lánin verið hækkuð en framlög ríkisins lækkuð sem þýddi aukna lánsfjárþörf lánasjóðsins.
    Það má líka bera þetta saman í heild. Ríkissjóður er ekkert öðruvísi en heimilin okkar. Þegar tekjurnar minnka hjá heimilunum verðum við að minnka útgjöldin, annars verðum við að fara í bankann og fá lán. Ríkissjóður er ekkert öðruvísi. Það er ekki hægt að skrifa endalaust hjá ríkissjóði eða skrifa hjá guði. Slíkt gengur ekki. ( ÓÞÞ: Hefur þetta seinna verið reynt?) Það er spurningin.
    Rétt er að rekja þetta. Námsaðstoðin 1989 í tíð Svavars Gestssonar var 2.900 millj. og hann hækkaði og hækkaði, um 20% samtals. Ef þessar reglur hefðu verið óbreyttar hefði námsaðstoðin numið tæpum 5 milljörðum í dag. Samkvæmt ríkisfjármálum fyrir árið 1991 áætlaði hann einungis 1.760 millj. kr. sem framlag frá ríkissjóði. Það þurfti því að slá lán upp á 3 milljarða kr.
    Það er, eins og ég sagði áðan, ekki gaman að þurfa alltaf að skera niður, langt frá því. Og það er svo óábyrgt að heyra hv. þm. stjórnarandstöðunnar tala eins og þetta sé ekkert mál. Þetta kostar allt. Ef menn ætla endalaust að slá lán fyrir velferðinni verður að lokum engin velferð því þá verðum við gjaldþrota. Menn hafa bara ekkert hugsað út í það fyrr en núna að Færeyingar eru í vandamálum, Grænlendingar eru í vandamálum. Einhvers staðar verðum við að stoppa við og segja: Hér er línan, þetta er það sem við getum og treystum okkur til til að aðstoða námsmenn.
    Breytingarnar sem gerðar voru, eins og hæstv. menntmrh. rakti áðan, voru nokkrar. Ég ætla að fara í gegnum þær af því það hefur verið deilt svo á okkur í stjórn lánasjóðsins þar sem við breyttum í vetur úthlutunarreglunum þannig að við náðum 500 millj. kr. sparnaði á ársgrundvelli. Það var gert í fyrsta lagi með breytta kröfu um námsframvindu, þ.e. að fyrir eðlilega námsframvindu fengju menn 100% lán, fyrir 75% af eðlilegri námsframvindu fengju menn 75% lán o.s.frv.
    Þessi aðgerð er mjög eðlileg og við vorum að reyna að skera niður. Það lá fyrir annaðhvort flatur niðurskurður eða að reyna einhverjar mildar aðgerðir. Það var áætlað að þetta gæfi 300 millj. kr. í sparnað. Lækkun vegna bókakaupa 100 millj., afnám ferðastyrkja, sem voru gerðir að ferðalánum, 100 millj., lækkun barnastuðla um 100 millj., lækkun aukalána um 100 millj. og breyting á skólagjöldum 50 millj. kr. Í staðinn var frítekjumark hækkað þannig að í dag er þetta um 20% fyrir einstæða foreldra og 15% fyrir aðra námsmenn. Þetta þýðir sem sagt að námsmenn geta unnið sér rúmlega 22.000 kr. meira án þess að skerða námslán sín.
    Við í meiri hlutanum vildum fara aðra leið en þessa, þ.e. minnka skerðinguna á þeim tekjum sem eru umfram frítekjumarkið. En við komum til móts við minni hlutann, við fulltrúa námsmanna, með þessum hætti.
    Það er áætlað að þetta valdi útgjöldum hjá sjóðnum upp á 100 millj. kr., ferðalán í stað ferðastyrkja verði 100 millj. kr. og lán vegna vaxtakostnaðar á námstíma 50 millj. kr. Þetta gerir sem sagt 500 millj. kr.
    Við gerðum þetta á eins mildan hátt og við gátum, þ.e. lán til skólagjalda og ferðalán eru veitt strax að haustinu. Bókalán eru strax veitt með fyrstu greiðslu frá færslu. Stjórnin reyndi að taka eins mildilega á þessu og hægt var og ég mótmæli því að um eitthvert gerræði hafi verið að ræða.
    Menn hafa verið í samanburðarfræðunum hérna og ég get ekki annað en kíkt aftur á súluritið sem var til umræðu áðan. Mánaðarleg aðstoð, ef við tökum það sem dæmi, við námsmann með maka og tvö börn, lán og styrkir eru inni í þessum tölum, eru á Íslandi tæpar 103 þús. kr., í Finnlandi 42 þús. kr., Svíþjóð 64 þús. kr., Noregi 73 þús. kr. og Danmörku 43 þús. kr. Ég vil því fullyrða það að okkar námslánakerfi er eitt það besta sem ég held að sé til. Einhver sagði við mig að það væri einungis betra í einu landi. Það væri í Kúveit en þar stunda einungis 5% landsmanna nám.
    Ég vil svara hv. þm. Svavari Gestssyni varðandi allar þessar breytingar sem hann tíndi upp og hafði sem dæmi um gerræði meiri hluta stjórnar lánasjóðsins. ( Forseti: Ég bið hv. þm. afsökunar á því að ég trufla ræðu hans en nú er klukkan fjögur og forseti hafði fyrirhugað að fresta fundi frá klukkan fjögur til klukkan sex vegna þingflokksfunda. Vildi hv. þm., sem ég trúi að eigi eftir eitthvað af ræðu sinni, taka tillit til þess og fresta ræðunni til klukkan sex?) Ég skal fresta ræðu minni. --- [Fundarhlé.]