Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 18:00:50 (1407)

     Gunnar Birgisson (frh.) :
    Frú forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni að ég ætlaði að tala um þær breytingar sem hv. þm. Svavar Gestsson tíndi upp í máli sínu áðan. Ég ætla ekki að svara þeim öllum, ég gerði það áðan, en vil benda á nokkur atriði. Það er í fyrsta lagi að reglur um veikindi í nýju úthlutunarreglunum hjá lánasjóðnum eru óbreyttar í eðli sínu. Svo bendi ég líka á að það eru til veikindapróf og hægt að taka próf ef menn lenda í veikindum á próftíma og taka þá veikindapróf.
    Ég vil líka benda þingmanninum á að meðlag er ekki talið til tekna varðandi tekjuviðmiðun hjá sjóðnum. Varðandi mastersnám í Bandaríkjunum þá hefur verið talið eðlilegt að það taki tvö ár. Það er í könnun og skoðun hvort mastersnám þar sem ritgerð fylgir verði fimm missiri í staðinn fyrir fjögur og síðan verði veitt lán til fjögurra missira fyrir mastersnám þar sem eingöngu eru teknir kúrsar og próf í þeim.
    Vaxtaálag hjá sjóðnum er 9%, miðað við 9% raunvexti, og það má eiginlega segja að námsmenn fái þann ávinning sem sjóðurinn hefur af því að taka ekki strax lán fyrir greiðslum til námsmanna.
    Varðandi það hvort Iðnnemasambandið fái áheyrnarfulltrúa í stjórnina þá er það enn óafgreitt í stjórninni. Ég vil benda á þá hættu sem því fylgir. Það geta komið fleiri félög eða hagsmunagæslufélög nemenda, t.d. getum við hugsað okkur að nemendur í Háskólanum á Akureyri mundu vilja fá slíkt hið sama og svo mætti lengi telja.
    Ef við snúum okkur aftur að 6. gr. eða eftirágreiðslunni sem er verið að deila hér um þá höfum við bent á það að með kerfinu eins og það var var mikið af ógreiddum lánum svo nam hundruðum milljóna. Það stafaði aðallega af vanáætlun tekna lánþega, kannski viljandi eða óviljandi. Síðan urðu menn að leiðrétta þetta á vormissiri eða eftir árið ef um ársnám var að ræða. Sumt var ekki hægt að leiðrétta, sumt sátu menn með og urðu að fá þetta lánað til 10 mánaða eða eins árs á markaðsvöxtum. Það var útilokað fyrir sjóðinn að fylgjast með þessu. Í dag er hægt að fylgjast með þessu því nú verða menn bæði að vera búnir að sýna tekjuáætlun og námsárangur. Einnig var áður útilokað að fylgjast með því fólki sem hætti í námi. Það má líka benda á að 40% af nýnemum nýta sér þessa þjónustu sem bankarnir bjóða upp á varðandi lánaþjónustu við námsmenn. 60% af nýnemum fjármagna nám sitt sjálfir og ég spyr: Hvers vegna er ekki hægt að menn vinni fyrir sér og fjármagni nám sitt sjálfir að hluta eða miklum hluta og taki síðan lán þegar á vantar?
    Varðandi það sem kom fram hjá 3. þm. Norðurl. e. um árskúrsa þá er verið að leysa úr því vandamáli. Það er vandamál í lögfræðideildinni, íslenskudeildinni og læknadeildinni. Það eru mál sem verða leyst og er ekki mjög erfitt mál.
    Ég vil mótmæla því að landsbyggðarfólk og konur hafi hætt í námi frekar en annað fólk.
    Ég vil líka benda á það miðað við fullyrðingar hv. þm. Svavars Gestssonar að stjórn sjóðsins hefur komið verulega á móts við sjónarmið námsmanna, bæði hvað varðar frítekjumörk og annað slíkt. Ég get talið það upp á eftir ef menn vilja.