Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 18:59:18 (1414)

     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil leggja áherslu á að málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna og það frv. sem hér er til umræðu sé skoðað með hliðsjón af öðru sem er að gerast í þjóðfélaginu og snertir þessi mál.
    Þar á ég í fyrsta lagi við vaxandi atvinnuleysi sem hingað til hefur komið einna harðast niður á konum.
    Í öðru lagi á ég við fækkun nýnema við Háskóla Íslands sem er mest meðal kvenna. Í fyrra voru 59,1% nýnema við Háskóla Íslands konur en nú eru þær 54,9% samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands eins reyndar hefur komið fram fyrr í umræðunni. Í vaxandi atvinnuleysi ætti auðvitað að gera fólki kleift að byggja sig upp og mennta sig.
    Ég tel það mikið jafnréttismál að allir geti stundað háskólanám sem hafa til þess hæfileika og áhuga. Samkvæmt ákvæðum 6. gr. núgildandi laga nr. 21/1992 eru námslán veitt eftir á. Þ.e. fyrst á að ljúka prófi og síðan kemur lánið. Í frv. sem hér er til umræðu er lagt til að lánin séu greidd jafnóðum miðað við námsframvindu síðustu prófa. Þetta mundi spara fólki verulegar upphæðir í bankakostnaði, vaxtagjöldum og öðru og auðvelda fólki sem ekki á stönduga ábyrgðarmenn að vera í námi. Því styð ég þetta frv. sem nú er til umræðu.
    Þá vil ég taka undir með hv. frummælanda í þessu máli, hv. 9. þm. Reykv., og láta í ljós áhyggjur mínar af því litla fjármagni sem ætlað er til menntamála, einkum og sér í lagi til háskólastigsins. Í beinu framhaldi af fyrri niðurskurði til háskólans annað árið í röð er verið að neyða háskólann til að afla sér heimildar til að takmarka fjölda stúdenta en slík tillaga er nú til umræðu í deildum skólans. Á sama tíma og skólagjöld eru lögð á, lánin eru gerð dýrari og þau greidd út eftir á er námsframboð háskólans orðið

það lítið að fólk getur varla stundað fullt nám en verður samt sem áður að stunda fullt nám til að fá lán eða alla vega 75%. Slík aðgerð að takmarka fjölda stúdenta inn í háskólann er að mínu mati mjög varhugaverð, m.a. vegna þess að rannsóknir á fylgni námsárangurs í Háskóla Íslands og einkunna í framhaldsskóla benda til að um mjög flókið samband sé að ræða.
    Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé fylgjandi því að háskólinn taki upp almennar fjöldatakmarkanir og ítreka fyrirspurn frá Kristínu Ástgeirsdóttur um það hvort ráðherrann mundi heimila hækkun á skólagjöldum ef sú ósk kæmi fram.
    Ef svo heldur fram sem horfir má búast við að nemum úr lægri þjóðfélagshópum og konum almennt fækki áfram í háskólanum og aftur komi þeir tímar að konur þurfi að vinna fyrir mökum sínum og sjá svo til hvort þær geti menntað sig síðar. Konur urðu fyrst í meiri hluta í Háskóla Íslands árið 1986. Það endurspeglar að mínu mati mjög margt. Það að konur urðu í meiri hluta árið 1986 endurspeglar m.a. það að konur sem voru komnar yfir miðjan aldur, sumar hverjar höfðu gjarnan unnið fyrir mökum sínum á meðan þeir voru í námi, hafa komið inn í skólann.
    Í öðru lagi sýnir það að konur eru fjölmennari er karlar í háskólanum að þær sækja í minna mæli en karlar aðra starfsmenntun. Þá á ég ekki síst við Iðnskólann. Framboð á iðnfræðslunni í landinu hefur verið þannig að það höfðar ekki til kvenna.
    Í þriðja lagi er það vafalaust rétt að lág laun kvenna á vinnumarkaðnum hafa gert það fýsilegan kost fyrir konur, ekki síst einstæðar mæður, að fara í háskólann.
    En nú á sem sagt að reka konur út úr háskólanum því þrátt fyrir karp um tölur hér fyrr í dag þá viðurkenndi formaður lánasjóðsstjórnar að mest fækkun hefði orðið meðal einstæðra mæðra og innritunartölur háskólans staðfesta þessa fækkun.
    Virðulegur forseti. Það kom reyndar fram í máli hæstv. menntmrh. fyrr í umræðunni að það hefði orðið hlutfallslega mikil fjölgun foreldra meðal námsmanna í háskólanum, fjölgun um 40% á árunum 1988--1991. Hann taldi þetta hlutfall óeðlilega hátt og við því hefði mátt búast að það breyttist. Ég tel það reyndar mjög líklegt án þess að hafa um það tölur að það sé algengara hér á landi en víða í nágrannalöndum okkar að stúdentar sem eru að nema til fyrstu námsgráðu eigi börn. Ég get að sumu leyti tekið undir það með menntmrh. að það er algengt að stúdentar hér eigi börn. En skýringin á því að mínu mati að svo margir stúdentar eiga börn hér á landi er einföld. Hún er sem sagt sú að þær félagslegu aðstæður sem smábarnaforeldrar búa við eru svo slæmar að það er einna helst hægt að lifa af ef maður er námsmaður. En nú á að gera smábarnaforeldrum erfiðara fyrir líka að vera námsmenn með lækkuðum barnastuðlum og hertum kröfum um námsframvindu sem eru ógnvekjandi fyrir barnafólk því að ekkert lán fæst ef námsframvinda er undir 75%. Hvernig væri að viðurkenna að barnaforeldri gæti verið í hálfu námi og fengið hálft lán eða sem því nemur?
    Við umræðu ráðherrans í dag kom mér í hug sjónarmið kvenfrelsiskonunnar Firestone sem hefur haldið því fram að það séu fyrst og fremst barneignir kvenna númer eitt, tvö og þrjú sem viðhaldi undirokun þeirra. Þessu sjónarmiði hefur Kvennalistinn hafnað og gert þá kröfu að konur geti samhæft þátttöku í þjóðfélaginu og barneignir, enda hlýtur það að vera þjóðarheill, eða hvað?
    Er það stefna hæstv. menntmrh. að banna námsmönnum að eignast börn fyrr en námi er lokið? Kannski það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að leysa atvinnuleysi framtíðarinnar með því að stoppa barneignir í landinu því æ erfiðara verður að samhæfa lífsbaráttuna og barneignir hvort sem um námsmenn eða ungt fólk almennt er að ræða.
    Ég vil að lokum taka undir ábendingu hv. 14. þm. Reykv. að háskólakennarar eru settir í mjög erfiða stöðu þegar fall á prófi þýðir að það er verið að koma nemum fjárhagslega á vonarvöl. Og það er einlæg von mín að málefni lánasjóðsins og reyndar háskólans alls verði tekið til algjörrar endurskoðunar.