Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 19:35:20 (1419)

     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni og hæstv. menntmrh. fyrir umræðuna. Ég tel mikilvægt að hún hefur farið fram. Það er verið að gera upp, má segja, að nokkru leyti umræðuna um Lánasjóð ísl. námsmanna eins og hún fór fram hér sl. vor. Þá urðu mikil átök um málið og við þingmenn Alþb. og fleiri lýstum því yfir að við mundum taka málið upp strax og þing kæmi saman að nýju. Það gerðum við alþýðubandalagsmenn með því að leggja þetta frv. fram á fyrstu dögum þingsins í sumar og það er alveg augljóst mál af þeim umræðum sem hafa farið fram í dag að þeim er ekki lokið. Þær munu fara fram áfram.
    Það er með öðrum orðum nokkuð augljóst mál að það er engin sátt um Lánasjóð ísl. námsmanna eða lögin um hann né heldur um framkvæmd þeirra. Það getur ekki verið sátt um lögin eins og þau eru sett upp hér núna. Ég varð ekki var við það í ræðu hæstv. menntmrh. né heldur í ræðum hv. 1. þm. Reykn. að þar væri neinn sáttavilji. Ég tók þó eftir því að hæstv. félmrh. kom öðruvísi að málinu en þessir tveir forustumenn Sjálfstfl. án þess þó að hún í raun og veru lofaði neinu, eins og fram kom í máli hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar.
    Ég vil taka undir það sem kom fram í ræðu hv. 9. þm. Reykn. að þær breytingar sem hafa verið gerðar á lögunum um lánasjóðinn og útlánareglunum alveg sérstaklega geta verið afar hættulegar þróun verknámsins eins og ég kom að í ræðu minni fyrr í dag, bæði hins almenna iðnnáms, Tækniskólans og þó alveg sérstaklega listnámsins. Ég held satt að segja að við getum hvað sem ágreiningi líður um málið í þessum umræðum í allri vinsemd beint þeirri áskorun til hæstv. menntmrh. að þau mál sem lúta að verknáminu verði sérstaklega skoðuð. Verknám á Íslandi og listnám er mjög veikt. Það er ríkjandi bóknámshefð í landinu. Hún hefur mjög lengi verið ríkjandi og það er mjög hættulegt að veikja þann litla stuðning sem verknám og listnám þrátt fyrir allt hafa í hinu almenna skólakerfi og stuðningskerfi.
    Þess vegna vil ég heita á hæstv. menntmrh. að líta sérstaklega á verknámið og listnámið hvað sem öllu öðru líður. Þar er ég auðvitað líka m.a. að tala um hugsanlega áheyrnaraðild Iðnnemasambands Íslands að stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna sem ég ræddi ítarlega fyrr í dag.
    Í sjálfu sér hafa talsmenn ríkisstjórnarinnar í þessu máli mjög litlu svarað. Þeir bera fyrir sig að fyrrv. ríkisstjórn hafi skilið illa við og það er lexía sem við höfum heyrt mjög oft og í sjálfu sér ekkert nýtt í henni af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar. Það má svo sem benda á það Lánasjóður ísl. námsmanna stóð tiltölulega vel 1991. Ef við berum hann saman við ýmsa aðra opinbera sjóði, t.d. Byggingarsjóð verkamanna, þá stóð Lánasjóður ísl. námsmanna tiltölulega mjög vel. Eiginfjárstaða hans var talin jákvæð, ef hann yrði gerður upp, upp á um það bil 9 milljarða kr. Það var þess vegna ekki hægt að mati Ríkisendurskoðunar að setja dæmið þannig upp að þessi sjóður væri með afbrigðum slæmur og þyrfti frekar að ráðast að honum en kannski öllum öðrum jöfnunar- og velferðarsjóðum í landinu.
    Það er nauðsynlegt í þessu sambandi líka að svara því sem talsmenn lánasjóðsins og ríkisstjórnarinnar hafa dregið inn í málið að hér sé allt mikið betra en annars staðar. Ég neyðist til þess satt að segja að fara aðeins ítarlegar út í það, virðulegi forseti. Í fyrsta lagi með því að benda á að í grannlöndum okkar er félagslegur stuðningur, bæði barnabætur og húsnæðisstyrkir, miklu hærri en hér. Húsnæðisstyrkir eru reyndar engir til hér. Barnabætur eru betri í grannlöndum okkar en annars staðar og úrræði t.d. fyrir börn námsmanna eru tryggari þar en hér. Það gerðist t.d. núna í sumar, svo makalaust sem það er, að gjald á dagheimilum námsmannabarna í þessu byggðarlagi var sérstaklega hækkað. Það er alveg augljóst mál að staða námsmanna er að þessu leyti mun verri hér á landi en í grannlöndum okkar fyrir utan það aðalatriði að inni í þeim tölum sem hæstv. menntmrh. las upp um námsaðstoð á Norðurlöndum eru styrkir. Hann sagði: Finnland 42 þús. kr. Já, en styrkur er þar af 20 þús. kr. Hann sagði: Svíþjóð, 64 þús. kr., en styrkur er þar af 19 þús. kr. Hann sagði: Noregur 73 þús. kr. en styrkur er þar af 17.800 kr. Hann sagði: Danmörk 43 þús. kr., en styrkur er þar af 27.800 kr. Það er því útilokað annað ef menn ætla sér að fá einhverja sanngjarna mynd af þessu en að nefna styrkina og halda því til haga að þar eru hlutirnir öðruvísi.
    Síðan vil ég segja það, hæstv. menntmrh., að ég dreg það stórkostlega í efa að staðið sé eins að stefnumótun í málefnum háskólanna í grannalöndum okkar og gert er hér. Hvað er að gerast t.d. í grannlöndum okkar að því er háskólana varðar? Það er ekki verið að skera þá niður í neinum líkum mæli og hér er verið að gera. Hvað er verið að skera mikið niður í raun og veru ef við skoðum framlög til Háskóla Íslands á föstu verðlagi?
    Ég gerði það að gamni mínu í dag að athuga framlög til Háskóla Íslands á föstu verðlagi. Háskóli Íslands er með á næsta ári framlög sem eru 89,2 á móti 100 árið 1991. Með öðrum orðum hafa framlög til háskólans hafa lækkað sem nemur nærri 200 millj. kr. Á sama tíma og verið er að skera niður lánasjóðinn, á sama tíma og verið er að herða kröfur um námsframvindu stórkostlega er verið að gera háskólanum, mér liggur við að segja, ómögulegt að tryggja þá námsframvindu stúdentanna sem lánasjóðurinn krefst. Ég held að það sé nauðsynlegt í þessu tilviki að hægri höndin viti hvað sú vinstri gjörir eða öfugt, hvernig svo sem menn vilja hafa það.
    Ég er sannfærður um að þessi uppsetning mála að því er varðar lánasjóðinn og háskólann gengur ekki. Ég skora á hæstv. ráðherra og aðra þá sem með þessi mál fara af hálfu ríkisstjórnarinnar að athuga það mjög vandlega hvort menn séu ekki að reyna að framkvæma óframkvæmanlega hluti. Þess vegna vil ég í þessu sambandi einnig í allri vinsemd beina þeirri áskorun til hæstv. ráðherra að þessi þáttur verði skoðaður, þ.e. að hve miklu leyti námsframvindukröfurnar eru framkvæmanlegar með hliðsjón af niðurskurðinum í Háskóla Íslands og ef til vill öðrum háskólastofnunum.
    Virðulegi forseti. Því hefur verið haldið fram að það hafi verið nauðsynlegt að skera niður og 6. gr. hafi verið algerlega óhjákvæmileg forsenda fjárlaga ársins 1992. Það er ekki rétt. Það er rangt. Staðreyndin er sú að Lánasjóður ísl. námsmanna, vegna þeirra aðgerða sem gripið er til, skilar afgangi upp á 220 millj. kr. á þessu ári. Það er verið að skera það af lánasjóðnum í því frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1992 sem lagt var á borð þingmanna núna áðan. Þar kemur fram að það er verið að lækka, ég segi lækka, virðulegi forseti, framlög til lánasjóðsins á þessu ári um 220 millj. kr. Ég spyr: Hvaða önnur stofnun ríkisins situr við þetta borð? Hvaða önnur stofnun ríkisins situr við það borð að það sé verið að skera niður framlög til hennar með þeim hætti sem hér er verið að gera? Hún er ekki til. Ég er búinn að blaða í öllu fjáraukalagafrv. eins og það leggur sig. Það finnast engin dæmi um annan eins niðurskurð og hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Það er verr farið með hann en alla aðra. Og þess vegna er það þannig að það að loka lánasjóðnum í haust, það er verið að gera það, honum er lokað og nemendunum er vísað á bankana, er ekki gert vegna þess að fjárlögin hafi krafist þess heldur vegna þess að átti að skera stuðningskerfið við námsmenn harkalegar niður en allt annað. Það er stefna. Og svar hv. 1. þm. Reykn. í þá veru að við séum eiginlega komin með nóg af fólki, það sé eiginlega bara ofmettun á þessu liði hjá okkur á köflum, er ekki svar að mínu mati, virðulegi forseti.
    Ég get þá spurt á móti: Hver er menntastefna ríkisstjórnarinnar? Er hún sú að fækka þessu fólki með beinum hætti? Hún er það í verki. En það er ekki hægt að setja dæmið þannig upp að hér sé um að ræða ofmettun að því er varðar fjölda þeirra sem ljúka prófum t.d. við háskóla eða aðrar menntastofnanir því að við erum ekki bara að tala um háskóla. Við erum að tala um sérskólana líka og við erum að tala um verknámið líka, virðulegi forseti.
    Út af fyrir sig kann það að vera alveg rétt hjá hv. 2. þm. Vestf. að það þýði ekkert að flytja svona mál hér. Út af fyrir sig þakka ég honum fyrir að gera tillögu um að ég fái bjartsýnisverðlaun Bröstes. Ég hef oft sýnt að ég er með bjartsýnni mönnum og oft enn frekar en í þessu máli af því að ég hélt að ég ætti kannski smávon í krötunum í málinu. Hæstv. menntmrh. veit að það er oft völt von. Hann þekkir það núna af biturri reynslu í nokkra mánuði. Ég hef auðvitað enn þá lengri reynslu af því kompaníi og segi það alveg eins og er að það er ekkert skrýtið að maður skuli vera gagnrýndur fyrir það að vera óhóflega bjartsýnn eftir að hafa setið í ríkisstjórn með krötunum árum saman. Formaður Alþfl. er ekkert sérstakur vinur lánasjóðsins. Hann hefur ekki gefið sig út fyrir það. Ég held að það sé ekki nokkur stjórnmálamaður á Íslandi sem fyrr eða síðar hefur talað um Lánasjóð ísl. námsmanna af eins mikill lítilsvirðingu og formaður Alþfl. Hins vegar verð ég að viðurkenna að það eru svolítið aðrir tónar í hv. 17. þm. Reykv., a.m.k. í orði. Það er eins með hæstv. félmrh. Það eru stundum svolítið aðrir tónar í því sem hún er að segja þó að hún láti dálítið pakka sér saman finnst mér þegar kemur á svona innanflokksfundi í Alþfl. og þetta flokksþing. Það varð ekki mikið eftir af henni, blessaðri, fannst mér eftir það flokksþing. Ég verð að segja það alveg eins og er, virðulegi forseti, og ég vona að ég hafi ekki brotið þingsköp með óhæfilegu orðbragði í þetta skiptið.
    Mig langar hins vegar til þess, virðulegi forseti, að eiga orðastað við fjarverandi alþýðuflokksmenn að því er varðar sérstaklega tvö atriði. Það er það sem hv. 11. þm. Reykn. sagði að orðið jafnrétti hefði ekki verið fellt úr lögunum. Það er alveg rétt. Við kunnum þau lög sem stóðum að því að setja þau á sínum tíma 1982 í þeirri sælu ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Hins vegar var það svo að við töldum það að setja orðið ,,jafnrétti`` inn í markmiðsgreinina væri ákveðið prófmál. Ef jafnréttisorðið fengi að vera þar væri hægt að gera þeim mun strangari jafnréttiskröfur á framkvæmd laganna að öðru leyti þrátt fyrir veikara félagslegt tillit í lögunum í 3. eða 4. gr., ef ég man rétt. Og ég vil einnig svara því sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi. Hún sagði: Það verður farið vel ofan í lánamál námsmanna á næstunni, hvort og hvernig á að taka á þessum málum. Ég skildi þetta ekki sem neitt loforð en ég mun stunda innheimtustarfsemi á þessum yfirlýsingum. Ég get ekki neitað mér um það. Ég held að námsmenn eigi það alveg inni hjá Alþfl. að við rukkum um þetta og við gerum það.
    Hv. 1. þm. Reykn., sem er varaþingmaður og hefur tekið þátt í þessari umræðu, er formaður stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það er full ástæða til að þakka honum fyrir að hafa verið hér við þessa umræðu. Það hefur vafalaust ekki alltaf verið mjög þægilegt geri ég ráð fyrir. Hann er hins vegar ýmsu vanur, situr í bæjarstjórn Kópavogs þar sem eru vaskir menn sem kunna að varpa á hann orði þegar mikið liggur við. Ég ætla samt að leyfa mér þá bjartsýni, sem er kannski enn þá meiri en sú að flytja þetta frv., að varpa nokkrum alveg sérstökum orðum á hv. þm. og kanna hvort ekki megi halda þannig á málum og orða hugsanir sínar þannig að það mætti verða honum til nokkurrar umhugsunar í hans starfi því að ekki erum við kosin hingað inn til að ráðast hvert á annað heldur til þess að láta gott af okkur leiða eins og það er orðað. Hvort sem menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, þá er það einu sinni svo að menn hafa þær

skyldur. Ég læt mér í léttu rúmi liggja það sem hann var að dylgja um undirritaðan, að hann væri alveg sérstakur ,,debetmaður``. Mér fannst það dálítið fyndið hjá honum hins vegar en ég gæti svo sem svarað honum með því að segja: Það eru bersýnilega til ,,debetmenn`` fyrir sunnan lækinn sem reka bæjarfélag sem heitir Kópavogur. Ég man ekki betur en við ætluðum einu sinni að byggja hérna íþróttahús og vorum þá báðir staddir debetmegin ef ég man rétt. Þetta fer því allt eftir því hvernig menn hugsa sér að koma hlutunum fyrir og hvar málin eru sett í forgangsröð eins og hv. þm. veit og ég ætla ekki að taka það illa upp sem hann nefndi í þessu sambandi.
    Hins vegar verð ég að segja að það eru nokkur atriði sem mér fannst hann misskilja alveg gersamlega af því sem menn höfðu verið að segja. Hann sagði t.d. að veikindareglurnar væru óbreyttar frá gamla kerfinu. Ég skildi hann þannig. Það getur verið að það sé út af fyrir sig rétt svo langt sem það nær. En nýja kerfið er allt öðruvísi þannig að þessi 25% regla varðandi veikindin og fleira er mikið harkalegri núna en hún var áður. Þess vegna vil ég beina því til hv. þm. að hann beiti sér fyrir því að það verði skoðað hvort þetta er ekki ósanngjarnt eins og það er sett upp í núverandi útlánareglum Lánasjóðs ísl. námsmanna.
    Ég vil einnig skora á hann að endurskoða afstöðu sína í sambandi við Iðnnemasamband Íslands. Ég tel að málið sé ekki þannig að það sé hægt, eins og hv. þm. orðaði það, að benda á hættu á að aðrir komi. Ég tel það ekkert voðalega hættulegt þó að aðrir komi. Hins vegar vill svo til að Iðnnemasamband Íslands er hagsmunaaðili fyrir gríðarlegan fjölda fólks og alla þá eða nánast alla þá sem eru í einhvers konar verknámi. Ég skora á hann og hæstv. menntmrh. að hann beiti sér fyrir því að Iðnnemasamband Íslands fái þarna fulltrúa vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem nú eru í samskiptum þeirra annars vegar og Bandalags ísl. sérskólanema hins vegar.
    Ég vil einnig segja við hv. þm. í fullri vinsemd að ég heiti á hann að segja aldrei oftar að það hafi verið ofgreidd lán úr lánasjóðnum upp á mörg hundruð millj. kr. Það er of mikið sagt. Það getur vel verið að það hafi verið eitthvað og við vitum það. En við skulum ekki orða það þannig að þetta sé eins og einhver ótíndur, ég segi ekki glæpalýður en vandræðalýður, þessir námsmenn sem alltaf séu að reyna að harka sér aukaréttindi út úr þessu félagslega kerfi. Staðreyndin er sú að þarna var um ákveðin vanda að ræða en fyrr mátti nú rota en dauðrota, ekki aðeins að skera þetta niður, ekki aðeins að setja þrengri reglur heldur líka loka sjóðnum haustið 1992 eins og gert var. Ég held að menn þurfi að átta sig mjög vel á því að það er ekki sanngjarnt að tala alltaf um námsmenn eins og þeir séu afbrigðilegir bófar í að harka út seðla úr svona félagslegum kerfum. Það er ekki þannig. Það vill nefnilega þannig til með þessa námsmenn, að þeir eru yfirleitt börnin okkar, þessa þversniðs af þjóðfélaginu sem við erum hér. Ef námsmenn eru bófar, þá erum við bófar. Ég held að við eigum ekki að setja hlutina upp með þessum hætti og ekki að efna til stríðs um lánasjóðinn að óþörfu með því að setja hlutina upp með þeim hætti sem hv. þm. gerði áðan.
    Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði fyrr í kvöld. Lánasjóður ísl. námsmanna er ekkert sjálfsagt mál. Lánasjóður ísl. námsmanna er ekki þannig að menn geti gengið út frá því sem vísu að hann verði alltaf til. Það þarf baráttu til þess að halda uppi Lánasjóði ísl. námsmanna. Það þarf baráttu og þrotlausa vinnu. Sú vinna hefur verið unnin af pólitískum aðilum og hagsmunasamtökum á undanförnum árum og áratugum. Þar hafa ýmsir beitt sér af mikilli hörku og hafa oft náð verulegum árangri, m.a. þeim að við höfum verið hér með sæmilegt námslánakerfi miðað við það sem gerist hjá öðrum þjóðum.
    Meðan ég fór með menntmrn. voru nokkrir ungir Vökumenn, sem hér voru nefndir til sögunnar áðan, sem beittu sér mjög hart í hagsmunabaráttu fyrir Lánasjóð ísl. námsmanna. Þá var ég sá bjartsýnismaður og það barn, eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefur oft ásakað mig um, að ég tók mark á þeim. Ég tók mark á þeim og taldi að þeir væru af einlægni að vinna í þessu málum. Þeir hrópuðu úlfur, úlfur. Aldrei kom úlfurinn. Svo loksins þegar úlfurinn kom, þá heyrðu færri en ella hefðu verið. Lærdómurinn sem ég vil draga af þessu fyrir námsmenn er sá að menn eiga ekki að hrópa úlfur, úlfur nema þegar úlfurinn er að koma.
    Hitt vil ég hins vegar segja við hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson að ég vil ekki ásaka það fólk sem slysaðist til að kjósa Sjálfstfl. í síðustu kosningum. Ég vil hins vegar skora á það að gera það aldrei aftur. Ef umræðan gæti orðið til þess að ná þeirri niðurstöðu, þá tel ég að hún hafi ekki orðið til einskis. En ég endurtek . . .  ( ÓÞÞ: Það er grundvallaratriði.) Ég heyri það að hv. þm. er vel að sér í hinum prestlegu fræðum eins og þau voru túlkuð í þessum galdraplássum fyrir vestan á fyrri öldum. En ég geri ekki kröfu um opinbera iðran. Menn mega iðrast með sjálfum sér.
    Aðalatriðið í mínum huga er þetta: Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég hef beint nokkrum áskorunum til hæstv. menntmrh. um að laga tiltekin framkvæmdaratriði. Ég hef lýst því yfir að ég mun rukka Alþfl. áfram. Þótt innstæðan sé lítil mun ég áfram sitja undir því að vera gagnrýndur fyrir það að vera óhæfilega mikill bjartsýnismaður sem gæti kannski orðið til þess að á endanum fengi ég bjartsýnisverðlaun Bröstes þó hitt væri miklu mikilvægara ef okkur tækist að lokum að breyta lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna og færa þau aftur í það horf að um þau geti verið þjóðarsátt. Nú er mikið talað um að það þurfi að vera þjóðarsátt, taka verði á vanda atvinnulífsins og efnahagslífsins. Ef það er stríð um eitthvað á Íslandi í dag, átök um eitthvað á Íslandi í dag, þá eru það lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna og framkvæmd þeirra. Þar þarf að verða þjóðarsátt, virðulegi forseti.