Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 15:29:33 (1430)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er komið fram eitt ,,tímamótafjárlagafrumvarpið`` í viðbót við öll hin sem lögð hafa verið fram á síðustu árum. Þegar við vorum á sl. vetri að ræða fjáraukalög fyrir það ár, árið 1991, var fjárlagafrv. fyrir árið 1992 nýkomið fram. Það var lagt fram með 4 milljarða kr. halla og kynnt sem ,,tímamótafrumvarp`` að sjálfsögðu. Allt annað en fjáraukalagafrv. sem sýndi það að hallinn hefði tvöfaldast og vel það á því yfirstandandi ári. Í umræðum um fjáraukalögin sagði ég m.a.:
    ,,Enn einu sinni er ríkissjóður rekinn með stórkostlegum halla. Það virðist óbreytanlegt, þó að stefnt hafi verið að því í fjárlögum yfirstandandi árs að hallinn yrði 4 milljarðar verður hann helmingi hærri þegar upp er staðið.
    Fyrir Alþingi liggur nú fjárlagafrv. þar sem stefnt er að 4 milljarða halla. Skyldi hann líka verða helmingi hærri í október á næsta ári?``
    Þessi orð voru sem sagt sögð í fyrra. Það hefur komið á daginn að hallinn verður ekki aðeins helmingi hærri heldur enn meira því að útlit er fyrir að hallinn á fjárlögum í ár verði 9--10 milljarðar samkvæmt þeim fjáraukalögum sem komin eru fram í stað 4 milljarða og erum við þá að ræða um greiðslugrunn fjárlaga. Þegar endanlegar tölur ríkisreiknings fyrir yfirstandandi ár liggja fyrir verður þessi tala að sjálfsögðu enn þá hærri þar sem þá verður búið að taka með ýmsar skuldbindingar sem ríkissjóður gerir á árinu.
    Það er siður hér á hinu háa Alþingi að gera meira mál úr fyrirhuguðum halla fjárlaga en þeirri staðreynd sem kemur í ljós þegar ríkisreikningur er lagður fram. Þó ég sé ekki að leggja til að við þingmenn hættum að ræða um fjárlögin þegar þau eru lögð fram, þá finnst mér að gjarnan mætti fara fram meiri umræða um ríkisreikning, skoða hann af meiri nákvæmni og freista þess að finna út úr þeirri vinnu leiðir til úrbóta.
    En við þessa 1. umr. fjárlaga núna vil ég gera að umtalsefni stöðu mála í þjóðfélaginu. Við stöndum óneitanlega frammi fyrir miklum erfiðleikum. Fjárlögin eru lögð fram með 6,3 milljarða halla. Hættumerkin í efnahagsmálum blasa við. Þar á ég sérstaklega við stöðu atvinnulífsins. Fyrirtækin eru komin á

ystu nöf flestöll. Það er sama hvort við skoðum sjávarútveginn, stóriðjuna, iðnaðinn eða landbúnaðinn. Við þessar aðstæður er þetta fjárlagafrv. lagt fram og að mati mjög margra höfum við ekki síðan 1967--1969 staðið frammi fyrir jafnalvarlegri stöðu. Það væri ekki úr vegi að rifja upp hvað hæstv. fjmrh. sagði þegar hann lagði fjárlögin fram fyrir einu ári síðan, stefnumótandi fjárlög, með leyfi forseta, þá sagði hann hér í ræðu sinni:
    ,,Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni að íslenskt efnahagslíf hefur gengið í gegnum miklar þrengingar á undanförnum árum. Frá árinu 1987 hefur þjóðarbúskapurinn verið í öldudal og framleiðslustarfsemin í lágmarki. Hver er ástæðan fyrir þessu? Algengasta svarið hefur verið að um sé að kenna minni afla og erfiðleikum í sjávarútvegi. Þetta er auðvitað rétt svo langt sem það nær enda er sjávarútvegur mikilvægasta atvinnugrein okkar. Þó er þetta aðeins hluti af skýringunni. Málið er í rauninni alvarlegra og vandinn djúpstæðari. Ef við lítum í kringum okkur sjáum við að það ríkir kyrrstaða í íslensku atvinnulífi. Það er nánast sama hvert litið er. Ný fjárfesting er í lágmarki, nýsköpun er mjög lítil og ný atvinnutækifæri eru af skornum skammti. Það er þessi lognmolla, þessi stöðnun sem er hið raunverulega vandamál í íslensku efnahagslífi. Þessu þarf að snúa við, að öðrum kosti blasir við áframhaldandi kyrrstaða og sífellt lakari lífskjör.``
    Þetta sagði hæstv. fjmrh. fyrir einu ári og meginmarkmið efnahagsstefnunnar komu fram í fjórum atriðum í fjárlagafrv. fyrir árið 1992. Þau voru að draga úr ríkisumsvifum, að tryggja lága verðbólgu og stöðugt gengi, að stuðla að frjálsum viðskiptum milli landa og í fjórða lagi að tryggja atvinnu og aukinn kaupmátt til lengri tíma litið. Hvernig skyldi hafa verið staðið við þessi markmið?
    Í framhaldi af þessum markmiðum sagði hæstv. ráðherra: ,,Á þessu ári má þó gera ráð fyrir að atvinnuleysi á Íslandi verði nálægt 1,5% af vinnuafli og spáð er auknu atvinnuleysi á næsta ári. Sem betur fer er atvinnuleysi hér á Íslandi lítið miðað við það sem aðrar þjóðir þurfa að þola. Í þessu efni getur þó brugðið til beggja átta ef hagstjórnin fer úr böndunum, það sýnir reynsla annarra þjóða.`` Skyldi það ekki geta verið að hagstjórnin hjá hinni íslensku ríkisstjórn hafi farið úr böndunum?
    Og eitt markmiðið var enn að árið 1992 yrði halli ríkissjóðs ekki umfram 1% af landsframleiðslu. En hvað verður hann? Hann verður 2,4%. Á árinu 1993 áttu fjárlög að verða hallalaus og hvað verða þau? Þau eru með 6,3 milljarða halla.
    Í spá Þjóðhagsstofnunar fyrir næsta ár er gert ráð fyrir 0,5% minni landsframleiðslu og þjóðartekjur minnki vegna versnandi viðskiptakjara um 1,5%. Yfirleitt má þó segja að spáin geri ráð fyrir að ekki verði eins mikill samdráttur á næsta ári eins og hafi orðið á þessu ári en við skulum líka athuga það að samdrátturinn er mikill á þessu ári þannig að það er líka spurningin um við hvað er miðað. Allt um það, þá heldur samdrátturinn áfram.
    Það sem ég deili fyrst og fremst á í þessu fjárlagafrv. er að það er reynt að slá ryki í augu fólks. Sem dæmi er tekið fram að viðskiptahalli muni batna á næsta ári, en í hverju liggur það? Ekki í því að við flytjum út verðmætari afurðir eða meira magn. Nei, viðskiptabatinn liggur í því að á næsta ári verði minna um kaup á flugvélum og skipum. Það að Flugleiðir voru að endurnýja flugflota sinn jók viðskiptahallann á yfirstandandi ári og ýmsir voru að kaupa frystitogara eða endurnýja skipin. Raunar er ekki séð fyrir endann á frystitogarakaupum á næsta ári. Þau geta sem sagt vel orðið meiri en nú lítur út fyrir ef stjórnvöld móta enga stefnu í þeim málum. Þó má vera að þær upplýsingar, sem nýlega eru komnar fram á fiskiþingi, munu hafa þar einhver áhrif.
    Á næsta ári munu skuldir þjóðarbúsins aukast miðað við verga þjóðarframleiðslu og fara yfir 50% og greiðslubyrðin hækkar úr 25% í 30% af þjóðarframleiðslu. Það segir þó ekki alla söguna að horfa bara með skelfingu á þessar tölur. Vitanlega hækka skuldirnar miðað við þjóðarframleiðslu þegar þjóðarframleiðsla dregst saman og greiðslubyrðin eykst að sama skapi, vitanlega. Ef þjóðarframleiðsla væri í meðallagi eða vaxandi þá mundi þetta hlutfall vera annað. Við verðum að skoða hlutina í samhengi. Og hvers vegna er svo mikill samdráttur? Samdrátturinn byrjar auðvitað í frumvinnslugreinunum þar sem verðmætin verða til og þar á sjávarútvegurinn stærstan þátt þar sem frá honum koma um 70--80% af okkar útflutningsverðmætum. Þar byrjar snjóboltinn að velta og hleður á sig eftir því sem neðar dregur. Samdráttur í þjónustu og verslun kemur í kjölfarið og uppsagnir starfsfólks eru svo afleiðingin. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá er samdráttur í þorskveiðum nú að hafa þessi margfeldisáhrif.
    Það er því miður að þegar fjárlagafrv. er skoðað í ljósi þessara staðreynda þá blasir það við að þær staðreyndir eru ekki teknar með í reikninginn við áætlanagerðina. Tekjuhlið frv. er meingölluð og getur alls ekki staðist.
    Ég ætla að taka nokkur dæmi. Gert er ráð fyrir að selja eignir ríkisins fyrir 1,5 milljarða kr. Á þessu ári átti að selja fyrir 1 milljarð kr. en ekki hefur tekist að selja nema fyrir 500 millj. Eru líkindi til þess að betur gangi með eignasölu á næsta ári í áframhaldandi samdrætti? Ég segi nei.
    Þá eru þær tillögur sem byggt er á varðandi virðisaukaskattinn, lækkun skatthlutfallsins og niðurfelling á greiðslu innskatts af ýmissi þjónustu þegar orðnar breyttar. Samningar við sveitarfélögin, sem nýlokið er við, gera ráð fyrir að áfram verði endurgreiddur virðisaukaskattur af snjómokstri og sorphreinsun. Fleira getur átt eftir að breytast í áætlunum um breyttar innskattsreglur svo sem af útgáfu bóka og tímarita svo eitthvað sé nefnt. Þar hafa risið háar mótmælaöldur vegna þess máls og engan veginn séð fyrir endann á þeim afleiðingum sem það kynni að hafa. Þau áform að draga úr skattfrelsi ýmissa neysluþátta eins

og húshitunar, útvarps og sjónvarps geta líka breyst. Tekjuhliðin af virðisaukaskattinum getur því átt eftir að taka miklum breytingum frá því sem sett er fram í fjárlagafrv.
    Þá er sú spá sem gengið er út frá um atvinnuleysi heldur ekki mjög sannfærandi. Spáð er 3% atvinnuleysi. Það er í dag 2,8%. Þess vegna verður það trúlega meira, 4--6% er miklu líklegra og það veldur að sjálfsögðu lækkun tekjuskatts jafnframt því að meira fjármagn vantar til að standa við greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Hvert prósent í atvinnuleysi kostar sjóðinn um 600 millj. kr. í atvinnuleysisbætur. Þarna er því um veruleg skekkjumörk að ræða í tekjuhlið fjárlagafrv. og frávikin eru öll niður á við, því miður.
    Sömu sögu er að segja af gjaldahlið frv. Sá sparnaður, sem nást átti í heilbrigðiskerfinu á þessu ári, hefur ekki gengið eftir. Nú á enn á ný að ná fram sparnaði með svipuðum aðgerðum og þá var beitt og er viðbúið að ekki takist betur til. Það gengur einfaldlega ekki að ganga um og skera niður nauðsynlega þjónustu á einum stað, fólk leitar þá bara á aðra staði, samanber það að draga úr aðgerðum á skurðstofum og lengja biðlista. Þá leita menn til sérfræðinga og kostnaðurinn lendir á sjúkratryggingum, þar með Tryggingastofnuninni og þar með ríkinu. Það verður aðeins tilfærsla milli stofnana eða starfsgreina. Það verður að móta heildarstefnu í þessum málum og gera það með langtímasjónarmið í huga. Slíkar skammtímalausnir, sem hér hafa verið iðkaðar, skila akkúrat engu. Væri sú leið farin að leita samstarfs við heilbrigðisstéttirnar, ræða málin og finna lausnir sameiginlega, þá er ég ekki í vafa um að árangurinn yrði meiri. Því miður virðist hæstv. heilbrrh. ekki vera þeirrar skoðunar að starfsfólk eigi að hafa um slíkt að segja.
    Það markmið er sett fram í fjárlagafrv. sem stærsta verkefni á útgjaldahliðinni að koma í veg fyrir sjálfvirka hækkun ýmissa útgjaldaliða eins og sjúkratrygginga. Þeim markmiðum á að ná með því að setja ný lög um sölu og dreifingu lyfja, sparnaði í lækniskostnaði á að ná m.a. með breytingum á greiðsluþátttöku ríkisins og síðan á að auka útboð á ýmissi þjónustu sjúkrahúsa og er þar tilnefnd þjónusta þvottahúsa spítalanna. Hv. þm. Guðmundur Bjarnason gerði nokkra grein fyrir því áðan þannig að ég ætla að sleppa því að fara út í það nánar, en þetta segir okkur í einföldu máli að við eigum að fara að greiða meira í lyfjum sjálf, greiða meira af lækniskostnaði og byrja á sparnaðinn hjá þeim sem vinna í þvottahúsunum. Eru þetta ekki dæmigerð vinnubrögð ríkisstjórnarinnar? Sparnaður hins opinbera verður að nást hjá þvottakonunum og almenningur að borga meira fyrir lyf og læknishjálp.
    Þá á að ná 100 millj. kr. sparnaði með því að færa slysatryggingar til almennra tryggingarfélaga og endurskoða lög um Atvinnuleysistryggingasjóð, ekki með það fyrir augum að gera hann hæfari til að sinna öllum sem þurfa á að halda heldur til að spara 100 millj. kr. hvernig sem það á nú að vera hægt á tímum vaxandi atvinnuleysis.
    Í menntmrn. á aftur að reyna að koma á skólagjöldum í framhaldsskólum landsins. Það tel ég að fari ekki á milli mála þó að það sé falið inni á milli lína í greinargerðinni. Nú eru það um 80 millj. sem ná á inn á þennan hátt. Í frv. heitir það að samræma innritunar- og efnisgjöld á milli skóla og taka þetta inn í reikninga skólanna. Ég spyr því hæstv. fjmrh.: Er ætlunin að gera þessi gjöld, sem nemendur hafa að mestu haft í sína starfsemi, að sértekjum fyrir framhaldsskólana?
    Þá er sú breyting að taka framhaldsdeildir og setja kostnað við starfrækslu þeirra alfarið inn í framhaldsskólana mjög athugaverð. Það gæti vel haft þau áhrif að framhaldsdeildirnar verði ekki starfræktar þrátt fyrir að mikið hafi verið lagt upp úr því á undanförnum árum að byggja þær upp. Það getur líka skipt miklu máli bæði fjárhagslega og félagslega fyrir fólk í dreifbýlinu þar sem það er mjög hár kostnaðarliður margra fjölskyldna að þurfa að senda börn sín og unglinga í framhaldsskóla langt frá heimilinu.
    Framlög til Háskóla Íslands standa nokkurn veginn í stað, en fjárhagur skólans þrengist allnokkuð, m.a. vegna þess að happdrætti skila minnkandi tekjum samanborið við fyrri ár. En áform stjórnvalda um fækkun nemenda í háskólanum hafa náð fram að ganga þar sem nemendur eru nú um 500 færri en á síðasta skólaári og þar eru konur í miklu meiri hluta þeirra sem hætta við að fara í nám. Þar hafa breyttar reglur um Lánasjóð ísl. námsmanna orðið til þess að konur hverfa í vaxandi mæli frá námi eða hætta við að fara í það og í framhaldi af þessu lækkar auðvitað framlag til LÍN um rúmar 500 millj. En við skulum ekki gleyma því að framlög til háskólans voru mjög skert á yfirstandandi fjárlögum þannig að þó að ekki sé nú um enn meiri skerðingu að ræða, þá er staða skólans mjög erfið og nánast ekkert svigrúm til að þróa skólann áfram sem hverri háskólastofnun er nauðsyn. Hins vegar hækkar nokkur framlag til Háskólans á Akureyri vegna breytinga á lögum sem gerð voru sl. vor. Þar verður sett á fót ný rannsóknastofa og störfum fjölgað. Ég tel að það sé sæmilega vel að málum staðið.
    Þá vil ég gera að umtalsefni þá fjármuni sem fara eiga til rannsókna- og þróunarmála. Þegar ríkisstjórnin kynnti aðgerðir til að efla atvinnulíf þá voru sérstaklega nefndar vegagerðarframkvæmdir, lækkun tekjuskatts fyrirtækja og að verja 240 millj. til sérstakra rannsókna- og þróunarverkefna.
    Ég hef áður sýnt fram á það úr þessum ræðustól að framkvæmdir í vegagerð eru ekki viðbótarframkvæmdir þar sem áður var búið að skerða framlög til vegagerðar á þessu ári um 900 millj. kr. í fjárlagafrv. og þær 900 millj. sem eru til viðbótar verða fjármagnaðar af vegafé næstu ára. Það er því alrangt að þetta sé eitthvert viðbótarfjármagn.
    Hvað varðar lækkun tekjuskatts fyrirtækja úr 45% í 33% þá gæti það haft áhrif ef fyrirtækin væru rekin með hagnaði. Svo er þó í fæstum tilfellum. Taprekstur fyrirtækja er staðreynd og flest eru á núllinu ef þau eru ekki fyrir neðan. Breyting eða niðurfelling á aðstöðugjaldi mundi hafa miklu meiri áhrif. En

ég hef verið að leita að því hvar þessar 240 millj. væru og hvert þeim væri ætlað að fara. Um þetta segir svo í tilkynningu forsrn. sem var birt þann 15. sept. sl., með leyfi forseta, um rannsókna- og þróunarverkefni:
    ,,Mikilvægt er að auka nýsköpun og fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og efla þannig hagvöxt á næstu árum. Það hafa verið leiddar að því vaxandi líkur að vísindi og rannsóknir séu veigamikil undirstaða hagvaxtar til lengri tíma litið. Er ekki ástæða til að ætla annað en það eigi einnig við hér á landi. Í þessu sambandi skiptir mestu máli að nýta sem best það fé sem varið er til þessarar starfsemi. En ríkisstjórnin vill einnig setja ákveðnar áherslur í þessu efni, ekki síst við núverandi aðstæður.
    Á undanförnum árum hefur alþjóðlegt samstarf um rannsóknir farið vaxandi og á vettvangi Evrópubandalagsins er t.d. beinlínis hvatt til þess með fjárframlögum af hálfu bandalagsins. Með EES-samningnum opnast Íslendingum miklir möguleikar til þátttöku í þessu samstarfi. Er því mikilvægt að íslenskar rannsóknastofnanir og fyrirtæki geti nýtt þessa möguleika sem best. Til þess þarf að efla íslenska vísinda- og rannsóknastarfsemi. Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að verja sérstaklega 240 millj. kr. á næsta ári til nýrra verkefna á sviði rannsókna- og þróunarstarfsemi. Til þess verður varið hluta af söluandvirði þeirra eigna sem seldar verða á næsta ári. Lögð verður áhersla á rannsóknir og námsstyrki og stuðning við þróunarverkefni.``
    Þetta segir um áætlun ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum sem tileinkað er rannsókna- og þróunarverkefnum. En hvernig er þessu fylgt eftir í fjárlagafrv.? Fjárveitingar til rannsóknastofnana sem falla undir Rannsóknaráð ríkisins lækka um 4% á milli ára þrátt fyrir 36% hækkun til Tilraunastöðvarinnar að Keldum þar sem verið er að viðurkenna viðvarandi rekstrarhalla til margra ára. Heildarfjárveiting til rannsóknastofnana lækkar um rúmar 40 millj. á milli ára og 240 millj. sem leggja átti til rannsókna- og þróunarstarfa eru engin sjáanleg stærð. Þær eru bundnar því skilyrði að það takist að selja eignir ríkisins á næsta ári fyrir 1,5 milljarða kr. Og raunar er það ekki bundið við söluverð heldur það sem yrði greitt af söluverði. Hverjum dettur í hug þó að eignir væru seldar fyrir 1,5 milljarða að það fáist allt staðgreitt?
    Í 6. gr. fjárlaga er grein 6.6 sem er svohljóðandi:
    Heimilt er: ,,Að verja allt að 20% af greiddu andvirði seldra fyrirtækja og hlutabréfa til rannsókna- og þróunarverkefna.`` Þarna er því ekki neitt fast í hendi. Miklu frekar er þetta aðeins fugl í skógi. Ég tel því að yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við fjárlagagerðina um að nú eigi að gera átak í atvinnumálum og auka fé til rannsókna- og þróunarmála séu blekking. Það er mjög miður. Þjóðin þarf á öðru að halda við slíkar aðstæður sem nú eru en einhverjum skollaleik. Það sýnist reyndar eins og rauður þráður í gegnum allt þetta fjárlagafrv. að framlög til menntamála, rannsókna- og þróunarverkefna lenda í miklum niðurskurði. Það er miður að ríkisstjórnin skuli vera svo skammsýn að sjá ekki að þar er vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs, í mannauði þjóðarinnar. Þar eru skert framlög til hinna ýmsu rannsóknastofnana. Þau lækka um 4% milli fjárlagaáranna 1992 og 1993.
    Það má nefna stofnanir og verkefni, sem tilheyra sjútvrn. eins og Hafrannsóknastofnun og viðfangsefni gæðaátak, starfsmenntun, markaðsöflun og tilraunir í sjávarútvegi, lækka úr 51 millj. í 21 millj. Í frv. sem lagt var fram í fyrra var skerðing til rannsókna- og eftirlitsstofnana 51%. Erfitt er að gera raunhæfan samanburð núna þar sem talsvert er um tilfærslur á milli liða en þó er ljóst að sú aukning sem er á þeim lið nú er fyrst og fremst vegna stofnunar Fiskistofu.
    Það er líka ljóst að sá kostnaður, sem íslenskt þjóðfélag er að taka á sig í sambandi við Evrópskt efnahagssvæði, ef samþykkt verður, er mjög vaxandi. Til dæmis er bætt 5 millj. við framlög til Rannsóknasjóðs og Vísindasjóðs sem eru skilgreind sem kostnaður vegna Evrópusamvinnu. Það er kostnaður upp á 80 millj. í utanrrn. til Stofnana- og þróunarsjóðs EFTA vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Störfum mun fjölga og er að fjölga við sendiráð í Brussel og hjá Evrópubandalaginu. Alls konar nefndir eru í gangi sem kosta sitt og verði samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði samþykktur verðum við að taka á okkur auknar skuldbindingar sem leiða af samningnum.
    Það er yfirleitt fátt um svör þegar spurt er um kostnað Íslendinga ef EES verður að veruleika enda hefur það ekkert verið reiknað út. Menn tala um ávinning af opnun markaða og styrkjum til rannsóknaverkefna en það gleymist að allt þetta kostar okkur mikla fjármuni sem verða þá að takast af öðrum liðum sem í dag eru í fjársvelti. Menntastofnunum okkar og rannsóknarstofnunum er ekki gert kleift að þróast með eðlilegum hætti en stjórnvöld vilja kasta þeim inn í botnlausa samkeppni án þess að þau séu samkeppnisfær.
    Þetta fjárlagafrv. er vissulega lagt fram við mjög erfiðar aðstæður í þjóðarbúskapnum. Minnkandi fiskafli, samdráttur í landbúnaði og þær afleiðingar sem slíkur samdráttur hefur á allt efnahagslíf í landinu setja fjárlögum þröngar skorður. Verst af öllu er þó atvinnuleysið sem kemur í kjölfarið og leggst eins og farg á allt þjóðlífið. Það eru hættumerki alls staðar og við getum ekki setið aðgerðalaus. Í efnahagsmálaumræðu síðustu vikurnar hefur verið minnst bæði á sænsku leiðina og þá færeysku. Hver þjóð verður að finna sér leið sem hún getur farið til að takast á við vandann. Ýmsar leiðir eru til og við skulum ekki gleyma því að þrátt fyrir allt erum við í hópi þeirra þjóða sem hefur tekist að skapa velferðarþjóðfélag. Við verðum að standa vörð um það og það er nokkuð á sig leggjandi til þess. Við verðum öll að taka á okkur einhverjar byrðar til þess en mikilvægast er að þær komi réttlátlega niður. Þess vegna verður m.a. að nýta bæði fjármagnsskatt og hærra skattþrep tekjuskatts til að ná niður fjárlagahallanum.

    Hæstv. fjmrh. sagði áðan í framsöguræðu, með leyfi forseta:
    ,,Stjórnvöld hafa ýmist sofið á verðinum eða misskilið hlutverk sitt á undanförnum árum.``
    Ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin sé vöknuð og hún skilji hlutverk sitt. Það er ekki nóg að verðbólgan sé komin svo langt niður að hún sé undir því sem gerist í nágrannalöndunum ef atvinnuleysi hér á landi verður þá jafnvel enn þá meira en þar.
    Ég tel að fjárlagafrv. sem við erum að ræða taki ekki með raunhæfum hætti á þessu stærsta vandamáli okkar og það er enn ótrúverðugra plagg en það sem við sáum í fyrra. Ég mun því ekki ræða það frekar nú eða taka einstaka þætti. Ég mun ekki taka það fyrir í meira mæli en ég hef þegar gert. En ég vænti þess að við 2. umr. verðum við komin með raunhæfara fjárlagafrv. í hendurnar.