Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 15:55:36 (1431)

     Karl Steinar Guðnason :
    Frú forseti. Um þetta leyti í fyrra er 1. umr. um fjárlagafrv. fór fram beindust augu manna einkum að gífurlegum innbyggðum rekstrarhalla ríkissjóðs, skuldastöðu þjóðarbúsins og því kæruleysi sem einkennt hefur alla fjármálastjórn ríkisins undanfarna tvo áratugi. Þá er að baki mikil vinna við niðurskurð ríkisútgjalda og sparnað á öllum hugsanlegum sviðum. Þá stefndi í um það bil 20 milljarða halla á ríkissjóði á þessu ári og útgjöldin stefndu í 125 milljarða kr. Það tókst með samhæfðu átaki allra er til þess voru kvaddir að koma saman fjárlagafrv. sem gaf góð fyrirheit um árangur.
    Nú velta menn því gjarnan fyrir sér hvernig hafi til tekist og oft er hart deilt. Ljóst mátti vera frá upphafi að þrátt fyrir góð áform og föst tök fjmrh. á framkvæmd fjárlaga að ýmislegt hefur farið öðruvísi en ætlað var. Það er óhætt að segja að hvarvetna þar sem borið var niður í sparnaði og niðurskurði heyrðust mótmæli eða a.m.k. mikil andúð. Yfirleitt viðurkenndu menn, samtök og stofnanir að mikil þörf væri á ráðdeild og sparnaði og auknu aðhaldi. Það kom hins vegar afar víða fram að það ætti aðeins að gerast annars staðar en ekki í eigin garði.
    Á Alþingi hefur mestöll umræðan snúist um einstök atriði í niðurskurði eða viðleitni til aðhalds og yfirleitt aldrei rætt um heildarvandann en í stað þess lögð alveg sérstök áhersla á að allt það sem gert hefur verið sé sprottið af illum hvötum og ótugtarskap stjórnmálamanna. Það hefur líka verið merkilegt að þeir sem hafa verið við stjórnvölinn í allt að 20 ár finna enga ábyrgð hvíla á sér þrátt fyrir öll mistökin, þrátt fyrir alla óreiðuna, þrátt fyrir kæruleysið sem fyrri ríkisstjórnir hafa sýnt í meðferð fjármuna fólksins í landinu.
    Það er skoðun mín að það starf sem ríkisstjórnarflokkarnir hófu í fyrra hafi skilað miklum árangri. Það má alltaf gera betur en ég er þess fullviss að aðrir hefðu ekki gert betur. Sporin hræða.
    Gerð fjárlagafrv. á sér langan aðdraganda. Fyrstu útlínur þess voru lagðar um mitt ár og byggðu á þeim spám og væntingum um hægan bata í efnahagsstarfseminni sem þá voru uppi. Frá þeim tíma hafa margar forsendur breyst. Þar munar auðvitað mestu um þær hremmingar sem leiða af síminnkandi veiðiþoli þorskstofnsins. Við höfum byggt og mótað útgjöld ríkissjóðs á undanförnum árum með þann bakhjarl í huga að hér fiskuðust árlega 400 þús. tonn af þorski. Þorskafli hefur farið síminnkandi á undanförnum árum en ekki hefur þess verið gætt að minnka ríkisútgjöld, eyðsluna, í sama mæli. Stjórnmálamenn hafa þvert á móti talið sér fært að horfa fram hjá þeim vanda sem aflaminnkunin hefur haft í för með sér. Til að brúa bilið hafa menn tekið erlend lán í svo miklum mæli að gífurleg skuldasöfnun sem fylgt hafa tröllslegar vaxtagreiðslur hefur eitrað allt efnahagslífið.
    Nú er ákveðið að veiða aðeins 205 þús. tonn af þorski á næsta fiskveiðiári. Það mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heimilin í landinu og allt atvinnulífið. Þessu til viðbótar hefur verðlag útfluttra sjávarafurða farið lækkandi og afkomuhorfur í orkufrekum iðnaði eru afar dökkar og raunar verri en nokkur gat vænst. Ofan í allt þetta koma kollsteypur í gengismálum margra helstu viðskiptaþjóða okkar þar sem gengi einstakra gjaldmiðla hefur ýmist hækkað eða lækkað, jafnvel yfir 10%. Í þessu felst að gengissamstarf Evrópubandalagsríkjanna hefur skaðast varanlega og sveiflur á verðgildi einstakra mynta valda verulegum erfiðleikum í heimsviðskiptunum. Þeir erfiðleikar geta magnast ef ekki tekst með alþjóðlegu samstarfi að hindra að þessum erfiðleikum verði mætt með verndarstefnu í einstökum ríkjum. Þar eigum við Íslendingar mikið undir því fáar þjóðir eru eins háðar frjálsum og hindrunarlausum viðskiptum.
    Hinn stóri og þróaði heimur alþjóðaviðskipta teygir sig um allt hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Í umræðum um EES-samkomulagið hafa verið haldnar margar og fjálglegar ræður um sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Auðvitað eigum við Íslendingar að halda fast á frelsi okkar, fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti. Ég vil hins vegar benda á að þessi réttur virðist harla smár jafnvel stórum þjóðum þegar risarnir í alþjóðaviðskiptum hreyfa sig. Þegar þýski seðlabankinn ákvað á dögunum að hækka vexti dugði sjálfsákvörðunarrétturinn Svíum aðeins í 17 sekúndur eða þann tíma sem tekur að senda fax á milli síma. Svíar urðu strax að bregðast til varnar sínum gjaldmiðli með tilheyrandi afleiðingum fyrir peningakerfi þeirra.
    Gengisbreytingar koma einnig illa við beina útflutningshagsmuni okkar því að lækkunin hefur orðið meiri á gjaldmiðli þeirra ríkja sem við seljum mest til. Þannig er talið að breytingarnar valdi versnandi viðskiptakjörum sem svarar 1,5% og kemur það til viðbótar þeim hremmingum sem áður voru komnar fram. Upplýsingar um afkomu og afkomuhorfur í sjávarútvegi benda til mun lakari stöðu en vænst var því Þjóðhagsstofnun áætlar nú að tap á botnfiskveiðum og vinnslu á næsta ári verði rúm 8% að meðaltali ef ekkert verður að gert.

    Nýleg könnun á veltu- og starfsmannafjölda í iðnaði bendir eindregið til þess að iðnaðarframleiðsla okkar eigi mjög undir högg að sækja. Samdráttur í fjárfestingum og uppsagnir í byggingariðnaði nú á haustdögum gefa einnig til kynna að verulegur samdráttur sé fram undan í mannvirkjagerð. Verulegur samdráttur hefur einnig komið fram í verslun og sér þess stað í tekjuáætlun fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir. Það eru því dökkar horfur sem blasa við og marka ramma fjárlagagerðarinnar fyrir næsta ár.
    Efnahagshorfur eru auðvitað sífelldum breytingum undirorpnar en þó hygg ég að aðstæður hafi nú reynst hverfulli en verið hefur allt frá því að áhrif olíukreppunnar 1973--1977 riðu yfir. Þegar ég vísa til olíukreppunnar koma mér í hug orð Guðmundar Magnússonar prófessors sem hefur haldið því fram að við Íslendingar bregðumst venjulega við vanda 10 árum seinna en þyrfti. Því til rökstuðnings hefur hann sagt: Þegar viðreisnarstjórnin var mynduð árið 1960 afnam hún hvers konar hömlur á viðskiptum. Það höfðu stríðsþjáðar þjóðir Evrópu gert 10 árum fyrr. Árið 1960 var EFTA stofnað. Við Íslendingar gengum í EFTA árið 1970. Olíukreppan brast á 1973 en við Íslendingar brugðust við henni 10 árum seinna eða um 1983.
    Fjárlagafrv. tekur auðvitað mið af aðstæðunum eins og menn mátu þær síðla sumars og snemma hausts. Fjárlögin hljóta hins vegar að miðast við aðstæður eins og við ætlum nú og á næstu vikum að þær verði á næsta ári. Þar ber töluvert á milli því að svo mjög hafa aðstæður breyst til hins verra á ótrúlega stuttum tíma.
    Það fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir er árangur mikillar vinnu margra sem lagt hafa sig fram við að finna leiðir til sparnaðar og ráðdeildar. Það finna vissulega margir til þegar sú vinna fer fram því að mjög erfitt er að draga úr ýmsu sem þegar er farið af stað. Það er líka ljóst að við gengum til síðustu alþingiskosninga í allt öðru efnahagsumhverfi en nú er komið á daginn. Við vissum að vandinn var mikill. Við vissum að tregðan við að taka á vandamálunum hefur reynst okkur dýr. Það er staðreynd sem fram kemur í frv. að á næsta ári verður t.d. ekki komist hjá því að ríkissjóður greiði 9,2 milljarða í vexti auk allra þeirra skuldbindinga sem hlaðist hafa á ríkissjóð á undanförnum árum.
    Það var líka ljóst við síðustu alþingiskosningar að efnahagsleg stöðnun sem er samfara minnkandi þjóðartekjum hafði verið frá árinu 1987. Við bjuggumst hins vegar öll við, bæði meiri hluti ríkisstjórnar og stjórnarandstaða, að það birti til. Það hefur hins vegar ekki gerst. Ástandið hefur versnað til muna. Nú er svo komið að hástemmdar yfirlýsingar allra stjórnmálaflokka fyrir kosningar, yfirlýsingar sem gefnar voru við allt aðrar aðstæður, hljóta að endurskoðast í ljósi þeirra staðreynda sem við blasa. Kosningaloforð sem stangast á við þá nauðsyn að rétta fjárhag þjóðarinnar við, halda atvinnulífinu gangandi, forða því að atvinnuleysi banki á hvers manns dyr verða menn að endurskoða í ljósi staðreynda. Við blasir að afkomuvandi alls atvinnulífsins gerir kröfu til þess að forsendur efnahagsstefnunnar verði endurmetnar í ljósi breyttra aðstæðna.
    Augljóst er að svo mikill hallarekstur sjávarútvegsins sem spáð er hlýtur að leiða til fjöldagjaldþrota í greininni. Er þá skammt í að við Íslendingar fáum að kynnast erfiðleikum í bankakerfinu og atvinnuleysi á við það sem við þekkjum hjá frændum okkar í Finnlandi. Það má aldrei verða því að þeim aðstæðum hlyti að fylgja keðjugjaldþrot þjónustufyrirtækja og svo víðtækir erfiðleikar að ég fæ ekki séð á hvern hátt þjóðin getur vegið það áfall upp á þessari öld. Þess vegna hljóta stjórnmálamenn hvar í flokki sem þeir standa að taka höndum saman við önnur þjóðfélagsöfl um aðgerðir sem geta hindrað að til þess komi. Það hefur ekki staðið á því að sumir af eldri kynslóðinni kæmu fram haltrandi með sömu bjargráðin sem reynst hafa okkur svo hörmulega undangengna áratugi. Gengisfelling, bara ein enn, og þá á allt að verða gott að nýju. Það á meira að segja að bægja atvinnuleysinu frá með gengisfellingu eða svo hljóðlátu gengissigi að enginn taki eftir því. Menn halda víst að verðbólguvofan taki ekki eftir gengisfellingarfóðrinu sínu ef hljóðlega er farið. Ég vara við þessu tali því það er blekking, tilraun til sefjunar, fráhvarf frá viðfangsefninu.
    Við sem tókum þátt í gerð kjarasamninganna í febrúar 1990 vitum að verðbólgan hvarf ekki af sjálfu sér. Hún er horfin af því að aðilar vinnumarkaðarins bundust um það samtökum að taka upp ný vinnubrögð og knýja aðra til að gera slíkt hið sama. Ríkisstjórnin tók þátt í þessum aðgerðum og hefur fylgt þeim fram að sínu leyti. Árangurinn er augljós og eftir stendur þjóðfélag þar sem meinsemdirnar sem áður voru sveipaðar hulu verðbólgunnar blasa nú við.
    Í umræðum um vanda efnahagslífsins hafa menn auðvitað rætt margs konar leiðir. Segja má að þrír kostir hafi verið til umræðu. Í fyrsta lagi aðgerðaleysi, í öðru lagi gengisfelling og í þriðja lagi það sem ég vil nefna þjóðarátak til varnar efnahagslífinu. Það að horfa á vandann, beita sömu vinnubrögðum og fyrri ríkisstjórnir, taka bara erlend lán og láta sér detta í hug að þetta lagist allt einhvern tíma er þekkt leið. Það er leiðin sem skilað hefur okkur Íslendingum þeim hrikalegu vandamálum sem við blasa og eru þá utanaðkomandi aðstæður ekki með taldar. Í dag mundi hún hafa í för með sér fjöldagjaldþrot fyrirtækja um land allt því að erlendar lántökur til að leysa aðsteðjandi vanda er ekki lengur fær leið. Það þekkja frændur okkar í Færeyjum.
    Að mínu mati eru það almenn sannindi að fyrirtæki sem ekki standa sig, fyrirtæki sem er illa stjórnað eða hefur ekki rekstrargrundvöll á að verða gjaldþrota. Aðrir sem eru betur til þess fallnir að taka við eiga síðan að byggja upp. Í dag eru málin ekki svona einföld. Í áratugi má segja að það hafi verið stefna stjórnvalda að banna fyrirtækjum að fara á hausinn, verða gjaldþrota. Þess í stað var opinberum sjóðum beitt til að veita í þessi fyrirtæki. Sjaldnast var spurt hvort afkomumöguleikar væru fyrir hendi. Pólitískur þrýstingur og kunningsskapur réði meiru.
    Aðgerðaleysi mun valda gjaldþrotahrinu sem byrjar í sjávarútvegi. Síðar verða bankarnir gjaldþrota, því næst olíufélögin, tryggingafélög, þjónustufyrirtæki og sveitarfélög. Við slíkar aðstæður sætum við ekki uppi með atvinnuleysi 3--4 þúsund manna heldur tugþúsunda manna. Þá stæðum við frammi fyrir algerum afkomubresti heimilanna með tilheyrandi neyð og niðurlægingu.
    Eins og ég gat um áðan hafa ýmsir jafnvel hér í þingsölum hrópað ákaft á gengisfellingu. 10% gengisfelling mundi þýða 4,5% afkomubata í botnfiskveiðum og vinnslu miðað við að ekkert gerðist að öðru leyti, að fiskverð yrði óbreytt nema það sem selt er beint út. Ef bæta á 8% afkomuvanda, sem er vandinn í dag, þyrfti gengisfelling að verða 20%. Það þýddi 10% kjaraskerðingu hjá launafólki. Það þýddi líka það, sem alltaf gerist í gengisfellingardansinum, að þeir betur settu bjarga sér, hinir fá skerðinguna.
    Gengisfelling er líka vond lausn fyrir sjávarútveginn. Heildarskuldir sjávarútvegs eru 95 milljarðar kr. Þar af eru 54 milljarðar gengistryggðir, 17 milljarðar eru verðtryggðir, annað eru 24 milljarðar. 20% gengisfelling mundi auka skuldir sjávarútvegsins um 4 milljarða. Vaxtabyrði eykst um 4,5 milljarða og byrði afborgana um 1,5--2 milljarða. Þetta verða samtals um 6 milljarðar kr.
    Þeir eru margir sem halda því fram að gengisfelling mundi auka atvinnuna. Líklega mundi það gerast í nokkrar vikur eða mánuði. Gengisfelling fjölgar hins vegar ekki þorskunum í sjónum og því mundi sú aðgerð kalla á enn ægilegra atvinnuleysi en fyrr. Ég vara enn við tali um gengisfellingu. Sú leið leggst þyngst á láglaunafólk, hinir bjarga sér. Hálaunamennirnir og spekúlantarnir græða á verðbólgunni. Þjóðfélagið sem heild tapar.
    Frændur okkar í Finnlandi hafa nýverið kynnst gengisfellingum. Þeim er nú ljóst eftir að hafa nýverið fellt gengi finnska marksins tvisvar sinnum að það er ekkert efnahagsúrræði til sem heitir síðasta gengisfellingin. Yfirleitt er gengisfelling ávísun á þá næstu og svo koll af kolli enda hefur finnska markið enn lent í erfiðleikum á síðustu vikum.
    Svíar hafa í erfiðleikum sínum tekið þá ákvörðun að verja gengi sænsku krónunnar og ráðast beint að vandamálunum heima fyrir. Þeir hækkuðu vexti upp úr öllu valdi til að sýna spákaupmönnum að þeir sem vildu spekúlera með krónuna skyldu a.m.k. ekki gera það frítt. Samtímis voru undirbúnar aðgerðir sem miðuðu að því að ná niður halla ríkissjóðs og lækka kostnað fyrirtækjanna. Þessar aðgerðir tókust fyrir frumkvæði ríkisstjórnarinnar og með víðtæku samstarfi við stjórnarandstöðu, samtök launafólks og atvinnurekenda og eru taldar styrkja forsendur sænsks efnahags- og atvinnulífs nægjanlega til að samkeppnishæfni atvinnurekstrarins verði tryggð og gengi sænsku krónunnar er talið öruggt á nýjan leik. Nákvæmlega sama verkefni bíður okkar og því er það fagnaðarefni að aðilar vinnumarkaðarins hafi enn á ný frumkvæði að viðbrögðum við erfiðleikum í atvinnu- og efnahagsmálum. Þar er byggt á sömu sýn og fyrr, að setja stöðugleikann í öndvegi og bregðast við raunverulegum vandamálum með raunhæfum hætti. Þeir hafna fortíðarhyggju þeirra sem boða gengisfellingu og verðbólgu sem lausn og kalla eftir samstarfi um lækkun á kostnaðarsköttum atvinnulífsins, sanngjarnari dreifingu byrðanna og aðgerðir til uppbyggingar atvinnulífs. Slíka leið eigum við Íslendingar að fara. Við verðum að sameinast um þjóðarátak til varnar efnahagslífinu. Sú leið er ein fær til að lágmarka kjaraskerðinguna, treysta atvinnuna. Um þessi meginmarkmið hljóta allir þjóðhollir Íslendingar að sameinast því reynsla frænda okkar, Færeyinga, minnir okkur á að efnahagslegt sjálfstæði er ekki sjálfsagt. Efnahagslegu sjálfstæði verður aðeins haldið að við bregðumst af raunsæi við aðsteðjandi vanda, lækkum kostnað í framleiðslu og þjónustu á öllum sviðum. Við þurfum að vinna þrekvirki á næstu vikum í því að endurmeta hlutverk hins opinbera og ná meiri árangri í að lækka tilkostnað. Halli á ríkissjóði þýðir hækkun vaxta fyrir atvinnulíf og einstaklinga og þótt fjárlagavandi okkar sé ekki eins mikill og t.d. Svía og því ekki þörf á jafnstórfelldum niðurskurðaraðgerðum þá þurfum við samt að lækka tilkostnað og ná jafnvægi í rekstri ríkissjóðs á næstu 2--3 árum. Við þurfum einnig að taka af ábyrgð og festu á tillögum um að lækka skatta á atvinnulífið og færa skattbyrðina til.
    Nú er við stöndum frammi fyrir stöðnun atvinnulífsins, síminnkandi þjóðartekjum og fjöldaatvinnuleysi, sem þýðir niðurbrot og neyð heimilanna í landinu, þýðir ekki að fela hugsanir sínar í orðskrúði eða vífilengjum. Ég segi það tæpitungulaust að það þýðir kjaraskerðing. En takist á hinn bóginn ekki að styrkja stoðir atvinnuveganna verða þau kjör lítils virði sem skráð eru í minningabækur um horfin atvinnutækifæri. Við megum heldur ekki mikla breytingarnar fyrir okkur því lækkun veltuskatta á borð við aðstöðugjald og tryggingagjald þýðir lækkun verðlags svo breytingar á innheimtu skattanna þýða ekki endilega breytingu á skattbyrði.
    Hverjir halda menn að hafi borið aðstöðugjaldið aðrir en launamenn í þessu landi? Það eru þeir sem hafa borgað það í verði vöru og þjónustu og þeir hvað mest sem lakast standa og minnsta gera verslunina í útlöndum. Það er starfsfólk íslenskra iðnfyrirtækja sem mátt hefur þola atvinnumissi þegar störfin hafa flust úr landi því íslenska varan er 1--2% dýrari en hin útlenda vegna uppsöfnunaráhrifa aðstöðugjaldsins. Íslenski fiskurinn er líka þessum mun dýrari í framleiðslu en sá norski og allt skerðir þetta samkeppnishæfni íslenskrar framleiðslu og þjónustu. Það eru því mikil öfugmæli að halda því fram að einhverjir aðrir hafi borið þennan skatt en einmitt íslenskir erfiðisvinnumenn. Fáum kæmi betur að fá þennan skatt aflagðan og greiða ígildi hans frekar með öðrum hætti.
    Það er margt sem þarf að huga að og kemur þá auðvitað til úrlausnar í viðræðum aðila að frumkvæði ríkisstjórnar. Það er skoðun mín að m.a. sé ástæða til að stórauka baráttuna gegn skattsvikum sem ég er sannfærður um að eru stórfelldari en margan grunar. Það er t.d. athugunarefni að hér á landi eru það 30 þúsund aðilar sem hafa virðisaukaskattsnúmer og þar af eru 26.168 virk númer sem er ótrúlega há tala hjá ekki fjölmennari þjóð en okkur Íslendingum. Í Danmörku eru 80 virðisaukaskattsnúmer á hverja 1.000 íbúa. Hér á Íslandi eru rúmlega 100 virðisaukaskattsnúmer á hverja 1.000 íbúa. Þeir sem koma sér hjá skattgreiðslum eru að níðast á hinum. Þeir eru að ræna hinn almenna launþega. Þeir eru að svíkja samfélagið en þiggja jafnframt alla þá þjónustu sem samfélagið veitir. Láglaunafólkið og aðrir sem skattana borga eiga kröfu á því að skattsvik verði upprætt með öllum tiltækum ráðum.
    Þannig er ekki allt sem sýnist og við alþingismenn hljótum að skoða með opnum huga allar tillögur sem fram koma og miða að því að styrkja samkeppnishæfni þessa litla samfélags. Við eigum þess kost að taka nokkrar óþægilegar ákvarðanir á þessu þingi, m.a. í tengslum við fjárlagagerðina. Þau óþægindi eru þáttur í sjálfstæðisbaráttu smáþjóðar og óveruleg miðað við þá ógn sem við blasir ef við nýtum ekki í tíma þau tækifæri til sjálfsbjargar og sjálfsögunar sem nú blasa við.
    Við skulum hafa það í huga að síhækkandi atvinnuleysistölur eru staðreyndir um lifandi fólk, fólk sem horfir upp á afkomuna bresta, horfir upp á upplausn heimilanna og gjaldþrot í kjölfar þess. Þeir atvinnulausu hrópa á úrræði, aðgerðir sem duga. Þær aðgerðir munu kosta þá er enn hafa atvinnu nokkrar fórnir. Þær fórnir verður að færa til að íslenskt samfélag fái þrifist. En við þurfum líka að hugsa ýmsa hluti upp á nýtt, halda á mót nýjum tíma og nýjum viðfangsefnum óbundin af fordómum fortíðarinnar.