Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 16:33:18 (1433)

     Jón Kristjánsson :

    Herra forseti. 1. umr. um fjárlagafrv. fyrir árið 1993 einkennist af því að þetta frv. felur í sér meiri óvissu en nokkru sinni fyrr. Fjárlagafrv. hverju sinni á auðvitað að vera þungamiðjan í efnahagsstefnu þeirrar ríkisstjórnar sem situr. Í athugasemdum þess frv. sem liggur fyrir, á bls. 241 í þeirri miklu bók sem fjárlagafrv. er, er fjallað um efnahagsstefnuna og markmið fjárlaganna. Þar er að finna hina pólitísku stefnumörkun sem liggur að baki fjárlagagerðinni. Þar segir m.a. að nú þegar fjárlagafrv. sé lagt fram í annað sinn af þessari ríkisstjórn hafi margt færst í þá átt sem stjórnarflokkarnir stefndu að, að sveigja efnahagslífið til frjálsræðis og koma á stöðugleika. Fram undan séu fjölmörg verkefni þar sem leggja þarf megináherslu á uppbyggingu atvinnulífsins og draga úr miðstýringu til að glæða hagvöxt.
    Þetta eru auðvitað frómar óskir og góð markmið út af fyrir sig og ég er sammála því að auðvitað á það að vera meginmarkmið fjárlagafrv. að stuðla að uppbyggingu atvinnulífsins og glæða hagvöxt í landinu. Fyrsta spurning sem vaknar við 1. umr. fjárlagafrv. er hvort frv. geri það. Önnur spurning og ekki veigaminni er: Munu þær forsendur sem í frv. eru standast? Er það plagg sem við erum með í höndunum marktækt?
    Það hefur að sjálfsögðu komið í ljós að svo er ekki og ég efast um að nokkur sem hlýðir á þessa umræðu hafi trú á því að t.d. tekjuhlið frv. muni standast. Atburðarásin síðan frv. var lagt fram sýnir að það er ekki nokkur tiltrú á því í þjóðfélaginu að ríkisstjórninni hafi með fjárlagafrv. tekist að skapa þann ramma um efnahagslífið á næsta ári sem leiðir til eflingar atvinnulífs og þar með aukinnar atvinnu. Samdráttur í þjóðfélaginu og atvinnuleysi er komið yfir hættumörk og áhrifin eru lík því þegar snjóbolti rennur niður hlíð og hleður utan á sig. Þess sér greinilega stað í ríkisfjármálum á yfirstandandi ári og kemur enn betur í ljós á næsta ári ef ekkert verður að gert. Því hefur þetta frv. ef til vill fengið ítarlegri umræðu í dag en ástæða er til því að það er alveg ljóst að eins og það er úr garði gert stuðlar það hvorki að eflingu atvinnulífsins né atvinnuöryggi landsmanna. Þvert á móti er líklegt ef það yrði samþykkt óbreytt eða lítt breytt að það mundi auka á vanda atvinnulífsins í landinu.
    Undirbúningur þessa máls gekk ekki átakalaust í stjórnarflokkunum. Áform um tekjuöflun í frv. einkennast af skyndiákvörðunum sem standast ekki í raun og eru teknar án jarðsambands úti í þjóðfélaginu eða samráðs við þolendur. Allt er í uppnámi varðandi tekjuhliðina og enginn veit á þessari stundu hver áform eru um tekjuöflun í virðisaukaskattinum sem er hvorki meira né minna en 39,5% af tekjum ríkissjóðs.
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því hvar þessi umræða sé á vegi stödd í stjórnarflokkunum. Það væri fróðlegt að fá það upplýst hvort í stjórnarflokkunum sé verið ræða um tveggja þrepa virðisaukaskatt og hvar þær hugmyndir séu á vegi staddar eða aðrar hugmyndir um breytingu á tekjuhliðinni. Þau áform sem kynnt eru í frv. um tekjuöflun með virðisaukaskatti eða auknar tekjur af honum hafa verið harðlega gagnrýndar. Við fjárlaganefndarmenn höfum a.m.k. fengið bunka af bréfum þar sem þeim er mótmælt, en þau hafa reyndar verið brotin á bak aftur að hluta til, þeim hluta sem víkur að sveitarfélögunum í landinu. Fyrir atvinnulífið er auðvitað alveg óþolandi að eiga það á hættu að forsendum og leikreglum sé breytt með nokkurra vikna eða jafnvel nokkurra daga fyrirvara. Það er grundvallaratriði að fjárlagagerð sé með þeim hætti að þeir sem um lögin fjalla geri sér grein fyrir afleiðingum þeirra fyrir atvinnulífið og þær stofnanir í þjóðfélaginu sem eiga að byggja starf sitt á opinberum framlögum. Það virðist svo sannarlega nokkuð á það skorta.
    Halli á fjárlögum yfirstandandi árs var áætlaður 4,2 milljarðar kr. og þau voru enn sem fyrr kynnt sem raunhæfustu fjárlög sem lögð hefðu verið fram eins og komið hefur fram í ræðum þeirra sem hér hafa talað áður í dag. Þessi halli er nú áætlaður 9,5 milljarðar kr. samkvæmt frv. til fjáraukalaga sem liggur á borðum hv. þm. og enn eru tveir og hálfur mánuður eða svo eftir af árinu þannig að enn eru ekki öll kurl komin til grafar í þessum efnum og líkur á því að hallinn verði enn meiri. Fjárlagafrv. er lagt fram með 6,2 milljarða kr. halla þegar búið er að taka inn framlag til atvinnuskapandi aðgerða upp á 2,1 milljarð kr.
    Staðreyndin er sú að þegar litið er á fjárlagafrv. nokkurra ára sýnir það sig að ekki eru ýkja miklar breytingar á útgjöldum ríkissjóðs. Þau eru nokkuð föst tala ef litið er yfir raungildi þeirra. Það var mikið brambolt, ef svo má segja, í stjórnarliðum fyrir ári síðan. Nú átti að hreinsa til í eitt skipti fyrir öll. Eigi að síður er árangurinn ekki mikill þegar upp er staðið. Samdráttarstefnan og atvinnuleysið hefur m.a. orðið til þess að tekjur ríkissjóðs hafa dregist saman, afkoman sveiflast eftir tekjunum sem auðvitað eru háðar afkomu atvinnuveganna og einstaklinganna í landinu. Óvissan í tekjuhliðinni er enn meiri á næsta ári og hvað kemur inn af tekjum í ríkissjóð er algerlega háð því hvort það tekst að koma grundvelli undir atvinnulífið.
    Fyrsta skilyrði til þess er auðvitað að ríkisstjórnin viðurkenni að stjórnvöldum komi atvinnulífið við. Ég sé nokkur merki þess að ríkisstjórninni sé að skiljast það að hún geti ekki látið sem atvinnulífið í landinu sé henni óviðkomandi. Ég skal geta þess sem gert er að í frv. er framlag til atvinnuskapandi aðgerða og lækkun tekjuskatts á fyrirtækjum.
    Hins vegar stöndum við í þeim sporum við 1. umr. fjárlaganna að málefni sjávarútvegsins eru í uppnámi og engan veginn séð hvernig stjórnvöld ætla að bregðast við þeim vanda, hvað þá með hverjum hætti það verður gert. Þetta er höfuðsynd ríkisstjórnarinnar og ein af helstu ástæðunum fyrir óvissunni nú að það hefur verið horft upp á hallarekstur í sjávarútvegi allt þetta ár án þess að hafa annað til málanna að leggja en það að gjaldþrot í greininni eigi að endurskipuleggja hana og fækka skipum og fiskvinnslustöðvum og upp eigi að rísa iðgræn jörð á eftir.
    Þessi stefna og óttinn við hana hefur tvímælalaust dregið kjarkinn úr forsvarsmönnum atvinnulífsins og átt sinn þátt í samdrættinum. Auðvitað eru allir landsmenn orðnir hræddir við þessa stefnu. Það er m.a. þess vegna sem er verið að vinna að því að gera þingflokk Alþb. að einhvers konar friðargæsluliði í þingsölum. Mælirinn er nefnilega orðinn fullur og aðilar vinnumarkaðarins vinna nú að því að reyna að skapa þjóðarsátt um eflingu atvinnulífisins sem ríkisstjórnin verði að taka þátt í. Einn þátturinn í þeirri þjóðarsátt hlýtur að verða sá að taka upp það fjárlagafrv. sem hér er til meðferðar og búa til úr því raunhæft plagg.
    Hv. formaður fjárln. hélt ræðu áðan og talaði um gengisfellingar og hafði nokkur orð um þá sem predikuðu gengisfellingu hér í þingsölum og var með útreikninga um hvað 20% gengisfelling mundi þýða. Ég veit satt að segja ekki hvaða ástæða er fyrir þessum hugleiðingum. Ég lýsi eftir því: Hver hefur verið að tala um 20% gengisfellingu hér í þingsölum? Það er staðreynd að gengið hefur hækkað og ef menn eru ekki tilbúnir til þess að horfast í augu við afleiðingarnar af því og lækka kostnað atvinnuveganna, þá fer illa. Ég held að það sé nauðsynlegt að undirstrika það að kostnaðarlækkanir verða að koma til. Hér hefur enginn verið að tala um 20% gengisfellingu, a.m.k. ekki úr mínum flokki. Þær hugleiðingar eru alveg óþarfar í þessu sambandi.
    Það er nú ljóst að aðilar vinnumarkaðarins eru að reyna að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina og hafa frumkvæði um tillögu til eflingar atvinnulífinu. Hv. formaður fjárln. ræddi um aðstöðugjaldið og nauðsyn þess að fella það niður. Ég vil þá spyrja: Hvað líður því máli? Ég vil spyrja fjmrh.: Hvað líður því máli að fella niður aðstöðugjaldið og breyta því kerfi sem er í tekjuöflun sveitarfélagana? Er það raunhæft að ætla að stjórnarflokkarnir komi sér saman um þetta og það verði sátt um það eða er þetta kannski eitt af því sem aðilar vinnumarkaðarins eiga að neyða ríkisstjórnina til að gera? Ég spyr fjmrh. að því vegna þess að ég veit að það hefur verið vinna í stjórnarflokkunum í því að skoða þessi mál og væri fróðlegt að vita hvort sú ákvörðun kemur inn í afgreiðslu þessa fjárlagafrv. Þetta er ekkert lítil ákvörðun því að einhverja tekjustofna þurfa sveitarfélögin að fá í staðinn fyrir þetta aðstöðugjald sem er mjög stór þáttur í tekjustofnum þeirra.
    Ég ætla ekki frekar en aðrir stjórnarandstæðingar hér að fara í einstaka útgjaldaliði frv. Það bíður 2. umr., enda er vinna í fjárln. ekki það langt komin að við séum búnir að fara ofan í þá útgjaldaliði og ná saman öllum endum þar. Ég vil þó minnast á nokkur atriði sem koma einkennilega fyrir sjónir í sambandi við þessa fjárlagagerð og nefni fyrst samskipti ríkisins við sveitarfélögin og þau átök sem þar hafa átt sér stað vegna virðisaukaskattsins. Þau átök urðu til þess að fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga drógu sig út úr svokallaðri sveitarstjórnarnefnd sem ríkisstjórnin bindur miklar vonir við að skili skynsamlegum tillögum sem verði þjóðfélaginu til framdráttar. Síðan var gert samkomulag. Það samkomulag fjallar um að sveitarfélögin leggi fram 500 millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð og er dagsett 10. okt. Ég vil vitna í það hér. Það er undirskrifað af forsrh., félmrh. og formanni Sambands ísl. sveitarfélaga. Þar segir:
    ,,Samband ísl. sveitarfélaga mælir með því við sveitarfélögin að þau leggi fram á árinu 1993 fjárframlag, kr. 500 millj., í Atvinnuleysistryggingasjóð. Framlagið verði miðað við íbúafjölda sveitarfélaga.`` Síðan segir: ,,Vegna þessa fjárframlags sveitarfélaganna mun ríkisstjórnin gera ráðstafanir til þess að á árinu 1993 verði Atvinnuleysistryggingasjóði heimilað að ráðstafa því fjármagni, þó þannig að dragi samsvarandi úr atvinnuleysisbótum að uppfylltum reglum sem settar verða um úthlutun úr sjóðnum. Þessum greiðslum skal einungis varið til sérstakra verkefna til eflingar atvinnulífs á vegum sveitarfélaga. Samband ísl. sveitarfélaga skal fá aðild að ákvörðunum um ráðstöfun þessa fjármagns. Ofangreindar ráðstafanir gilda einungis á árinu 1993 og mun ríkisstjórnin beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum.``
    Þarna er verið að taka fé frá sveitarfélögunum sem fer í Atvinnuleysistryggingasjóð og því úthlutað eftir einhverjum reglum, sem ekki eru fyrirliggjandi, til sveitarfélaganna aftur. Sannleikurinn er sá að sveitarfélögin hafa varið stórfé til þess að auka atvinnu í landinu. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert að fé úr Atvinnuleysistryggingasjóði sé notað til þess að auka atvinnu. Ég leggst ekki gegn þeirri breytingu. Það verður þó ekki séð nú á þessu stigi hvernig þetta samkomulag verður framkvæmt og margt er óljóst í þeim efnum, með hverjum hætti þessi úthlutun verður.
    Síðan er í þessu samkomulagi undirskrifað loforð um að meiri háttar breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnum sveitarfélaga, sem kveðið er á um í lögum eða gert hefur verið sérstakt samkomulag um, verði teknar til umfjöllunar í sérstakri samráðsnefnd þeirra. Þessi samráðsnefnd hefur verið til. Það er dálítið merkilegt að það þurfi hálfgert verkfall hjá sveitarstjórnarmönnum og samninga og undirskriftir félmrh. og forsrh. til að halda þessum samskiptum í lagi. En það er vonandi að þetta samkomulag haldi og þeim ófriði, sem var milli ríkis og sveitarfélaganna fyrir ári síðan og svo aftur núna, linni því að hann er ekki neinum til góðs.
    Hv. 1. þm. Norðurl. e. fór yfir landbúnaðarkaflann í frv. og ég ætla ekki að bæta mörgu þar við. Ég undrast þann mikla niðurskurð sem er í frv. til landbúnaðarmála, m.a. vegna búvörusamningsins, sem ég ætla ekki að gagnrýna því að búvörusamningurinn er undirritaður, gerður milli ríkisins og bænda og gerir ráð fyrir samdrætti í framleiðslu og niðurskurður er í samræmi við það. En hins vegar er niðurskurðurinn miklu meiri. Það er ekki gerð nokkur tilraun til að mæta þeim samdrætti á nokkurn hátt heldur er ráðist á hverja einustu grein sem við kemur landbúnaðinum og skorið niður í öllum þáttum og öllum þáttum sem gætu hugsanlega dregið úr því mikla áfalli og því slæma atvinnuástandi sem er í sveitum landsins. Það hefur verið nefnt hér, t.d. er Framleiðnisjóður skorinn niður um 50 millj. eða því frestað til ársins 1994 að leggja þær tillögur fram. Hvað þá verður veit náttúrlega enginn. Það er skorið niður til Byggðastofnunar, eins og hefur komið fram áður, og leiðbeiningaþjónustunnar í landbúnaði sem er náttúrlega grundvallaratriði að efla við þessar aðstæður. Auðvitað þarf að breyta skipulagi hennar miðað við breyttar aðstæður en það er nauðsynlegt að efla leiðbeiningaþjónustuna og beina henni að öðrum greinum en hinum hefðbundnu, að öðrum atvinnutækifærum og leiðbeina fólki í dreifbýli til þess að koma upp nýrri starfsemi sem gæti þrifist í sveitum. Atvinnuráðgjöf ætti að vera miklu stærri þáttur í leiðbeiningaþjónustunni en verið hefur.
    Það er einnig skorið niður til landgræðslu og skógræktar og það er illskiljanlegt í ljósi atvinnuástandsins, eins og komið hefur fram, vegna þess að launakostnaður er langstærsti þátturinn í kostnaði við landgræðslu og skógrækt. Þó að vegagerðin sé alls góðs makleg þá er launakostnaðurinn miklu stærri þáttur í landgræðslu og skógrækt en í vegagerð. Það er undarlegt við þessar aðstæður að skera þau framlög niður svo maður tali bara út frá því sjónarmiði. Ástand landgræðslumála er líka með þeim hætti að það veitir ekki af því að halda þar vel á spöðunum. Þó að það verði að spara og hafa aðhald er atvinnuleysi hið mesta böl, það dregur úr tekjum og veltu í þjóðfélaginu þannig að framlög til mála sem auka atvinnu verulega skila sér aftur að miklu leyti.
    Í B-hluta frv. er fjallað um ríkisfyrirtæki og sjóði. Þar stingur auðvitað í augun að B-hluta fyrirtækjum er ætlað að skila ríkissjóði arði í auknum mæli. Þessi fyrirtæki eru Áburðarverksmiðja ríkisins, Rarik, Lyfjaverslun ríkisins, Sementsverksmiðjan, Þvottahús Ríkisspítalanna, Lyfjabúð Háskóla Íslands og Póst- og símamálastofnun. Arðgreiðslur þessara fyrirtækja fara náttúrlega ekki neitt nema út í verðlagið. Í allri umræðu um orkumálin og gjaldskrár til fyrirtækja er það undarlegt að t.d. fyrirtæki eins og Rarik er gert að skila arði í ríkissjóð sem fer auðvitað beint út í verðlagið.
    Það er grunur minn að ein af ástæðunum fyrir þessu sé ein af trúarsetningum sem er hér á bls. 349 í frv. en þar segir: ,,Einn liður í þá átt að auka samkeppnishæfni ríkisfyrirtækja er að draga úr afskiptum ríkisins af gjaldskrárákvörðunum þeirra en þess í stað að ætla þeim að skila eiganda sínum arði af því fé sem bundið er í rekstrinum.``
    Það er sú samkeppnishugsun sem er trúarsetning þarna og kemur vel fram t.d. í áformum um að láta Þvottahús Ríkisspítalanna greiða arð í ríkissjóð sem hv. 1. þm. Norðurl. e. gerði skil og ég ætla ekki að endurtaka.
    Í frv. er auðvitað dulin skattheima með alls konar þjónustugjöldum. Það er haldið áfram á þeirri braut enda lýsti hæstv. fjmrh. því í framsögu sinni fyrr í dag að stefnan væri sú að notendur greiddu fyrir þjónustuna í auknum mæli. Það eykur ekki jöfnuð í þjóðfélaginu, eins og oft hefur komið fram, að reka þá stefnu harkalega. Það er bætt í núna við það sem var tekið upp í fyrra þó að það sé ekki í eins miklum mæli. Það er greinilega haldið áfram á þessari braut eins og menn þora.
    Ég tel að við eigum að hafa nokkur meginatriði í huga í baráttunni við atvinnuleysið sem væri hægt að taka á í þessu fjárlagfrv. ef vilji væri til. Það er í fyrsta lagi að auka áherslu á menntun og rannsóknir í þágu atvinnuveganna við þessar aðstæður. Áform ríkisstjórnarinnar um það eru tengd ófrávíkjanlega. Það hefur komið fram í umræðum í fjárln., sölu ríkisfyrirtækja upp á 1.500 millj. kr. sem mér er ekki kunnugt um að neitt samkomulag sé um í stjórnarflokkunum. Það er tekið fram í athugasemdum frv. að til að ná þessum markmiðum verði að selja lánastofnanir. Svo maður tali alveg skýrt, þá næst þessi upphæð ekki inn nema selja Búnaðarbanka Íslands. Og ég spyr: Er samkomulag um það í stjórnarflokkunum að selja Búnaðarbankann? ( GuðjG: Nei.) Nei, segir hv. 5. þm. Vesturl. og þar með eru náttúrlega þessar 300 millj. kr. í uppnámi. Það er einkennilegt að tengja þetta framlag til rannsókna sölu ríkisfyrirtækja sem menn eru ekki búnir að ná samkomulagi um. Ég treysti hv. 5. þm. Vesturl. til þess að veita verðugt viðnám í þessu efni og koma skynsamlegum ákvörðunum að í stjórnarflokkunum. Ég held að það ætti að efla rannsóknir án þess að það sé tengt slíkri sölu því við höfum fengið upplýsingar um það --- við fjárlaganefndarmenn fengum þær í morgun --- að sala ríkisfyrirtækja á þessu ári hefði ekki gengið sem skyldi. Það er aðeins búið að selja fyrir 240 millj. af þeim 500 sem áætlað var að selja ríkisfyrirtæki fyrir á árinu sem nú er að líða og verður að taka skarplega á þá tvo mánuði sem eftir eru ef þessi markmið eiga að nást.
    Það er nú svo að þessi sala og sölumennska öllsömul, ég tala nú ekki um sala upp á 1,5 milljarða kr., dregur auðvitað fjármagn frá atvinnuvegunum. Það fjármagn nýtist ekki til annarra hluta. Það væri að sjálfsögðu hægt að efla starfsemi sem skapar atvinnu í þjóðfélaginu í stað þess að skera hana niður eins og gert er í frv. og ég minntist á. Það væri ástæða til að breyta enn frekar. Það er að vísu svolítill vísir í frv. sem er ákvörðun um endurbætur á Þjóðminjasafninu, að taka enn frekar upp framlög til viðhalds opinberra bygginga. Það skapar mikla atvinnu. Síðasti áratugur var áratugur mikilla fjárfestinga eins og komið hefur fram. Ég held að við ættum að skipta um gír svo næsti áratugur færi í að viðhalda þeim byggingum sem við höfum verið að byggja og eru því miður sumar hverjar að grotna niður. Ég held að það sé rétt stefna að gera slíkt. Ég viðurkenni það og tel það rétta ákvörðun hjá ríkisstjórninni að taka upp framlag til að viðhalda Þjóðminjasafninu og vona að það sé vísir að einhverju meira.
    Ég ætla í sambandi við B-hlutann að minnast örlítið á athugasemdir varðandi byggingarsjóðina. Þar kemur fram að áformað sé að spara 132 millj. kr. í rekstri Húsnæðisstofnunar ríkisins með lækkun útgjalda og hækkun sértekna. Ég vil spyrja í hverju þessi hækkun á sértekjum sé fólgin. Þessum fjármunum á að verja til Byggingarsjóðs verkamanna samkvæmt athugasemdum frv. og þar segir svo:
    ,,Lækkar framlag úr ríkissjóði um 114 millj. kr. frá fjárlögum 1992 og verði 961 millj. kr. Sú lækkun á ekki að skerða útlánagetu sjóðsins heldur verður henni mætt með sparnaði í rekstri Húsnæðisstofnunar með skipulagsbreytingum og hagræðingu eins og vikið er að í greinargerð um Byggingarsjóð ríkisins.`` Síðan segir: ,,Takist ekki að ná þeim rekstrarsparnaði að fullu verður þó óhjákvæmilegt að draga úr útlánum sem því nemur.``
    Þarna er þetta mál skilið eftir í uppnámi eins og svo mörg mál varðandi frv.
    Hér hefur töluvert verið rætt um þjóðarsátt, að það þurfi að endurskoða frv. og koma í það einhverju viti. Við fulltrúar Framsfl. í fjárln. skorumst ekki undan þeirri vinnu sem þarf til þess. Við höfum ekki flutt og fluttum ekki tillögu til útgjaldahækkunar við síðustu fjárlagagerð og ég hef ekki trú á því að við gerum það nú. Við munum taka þátt í því að reyna að gera frv. þannig úr garði að það stuðli að atvinnuöryggi í landinu en við erum ekki til í neina sátt um að afgreiða frv. þannig að enginn grundvöllur sé undir atvinnulífinu í landinu og að frv. sé ávísun á gjaldþrot atvinnufyrirtækja og óhjákvæmilega gengisfellingu. Við munum taka þátt í þessari vinnu af fullum heilindum eins og við höfum gert. Við berum að sjálfsögðu enga ábyrgð á því plaggi sem liggur hér frammi. Við höfum ekki verið í þeim undirbúningi sem hefur verið unninn að þessu fjárlagafrv. en við erum auðvitað til viðtals um skynsamlegar breytingar á því sem miða að þeim markmiðum að auka atvinnuöryggi landsmanna sem er algert forgangsverkefni um þessar mundir.