Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 17:11:31 (1434)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson spurði hverjir það væru sem væru að biðja sérstaklega um gengislækkun um þessar mundir. Spurningin var fram borin í tilefni af varnaðarorðum hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar gagnvart gengislækkunarhættunni. Ég verð að minna hv. þm. Jón Kristjánsson á að það er einmitt formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson, sem hefur gengið fram fyrir skjöldu og boðað gengislækkunarleiðina hvað ákafast og að gengislækkun væri í ljósi allra aðstæðna sú leið sem skynsamlegast væri að fara um þessar mundir til að leysa fram úr efnahagsvandamálum þjóðarinnar.
    Nú veit ég vel að hv. þm. Jón Kristjánsson er á öndverðum meiði við formann Framsfl., Steingrím Hermannsson, eða svo skildi ég ræðu hans hér áðan, og er það vel, enda þekkir hv. þm. Jón Kristjánsson svo vel til allra aðstæðna á landsbyggðinni um þessar mundir, sérstaklega í okkar kjördæmi á Austurlandi, að hann veit að stefna formanns Framsfl., sem ég vona að sé ekki orðin stefna Framsfl. enn, dugar hvergi til þess að leysa öll þau vandamál sem þar er við að etja. Þvert á móti er hætta á að ef stefna formanns Framsfl. næði fram að ganga, þá mundi hún leggja atvinnulífið í okkar kjördæmi og víðar í byggðum landsins í rúst. Ég fagna því afstöðu hv. þm. Jóns Kristjánssonar og vona að hann muni geta snúið formanni Framsfl. til réttrar leiðar.