Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 17:13:45 (1435)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég kom um daginn í frystihús á Austurlandi þar sem fram fer fullvinnsla fyrir Bretlandsmarkað. Pundið hafði fallið um 10% á 10 dögum þegar ég var þarna. Ætli það sé ekki það sem formaður Framsfl. hefur rætt um, m.a. á fundi vestur á Hótel Sögu, að þetta ástand gæti hreinlega ekki gengið. Það er nefnilega ekki verið að tala um gengisfellingu. Gengið hefur hækkað. Það hefur hækkað síðan kjarasamningar voru gerðir og afkoma atvinnuveganna hefur raskast af þeim sökum. Ég er ekki að mæla með gengisfellingu. En það verður þá að gera atvinnulífinu það kleift með öðrum aðgerðum að þola slík áföll sem hafa verið nú. Ég er algerlega sammála formanni Framsfl. um það. Það er enginn ágreiningur um það okkar í milli. Ég er alveg tilbúinn til þess ef sá ágreiningur væri fyrir hendi og mér fyndist hann hafa rangt fyrir sér að telja honum hughvarf eins og ég veit að hv. 5. þm. Austurl. er duglegur við í sínum þingflokki að telja mönnum hughvarf þegar þeir fara villir síns vegar. (Gripið fram í.) En mér finnst bara eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. segir að árangurinn sé ekki alltaf mikill.