Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 17:15:58 (1436)

     Árni M. Mathiesen :
    Herra forseti. Það er víst óhætt að segja að fjárlagafrv. fyrir árið 1993 er engin skemmtilesning. Gjöldin eru of mikil, tekjurnar of litlar, skattarnir of háir og hallinn of mikill. En frv. er hins vegar tvímælalaust barn síns tíma. Það er lægð í efnahagslífinu um heim allan, að hluta til vegna of mikilla fjárfestinga ríkisstjórna og fyrirtækja á síðasta áratug og vegna of mikilla skulda einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera og ekki síst vegna of hárra vaxta.
    Einnig hefur fall kommúnismans og hrun Sovétheimsveldisins orðið til þess að auka á þennan vanda þar sem þjóðir eins og Finnar hafa tapað mörkuðum sínum og við Íslendingar og aðrar þjóðir bera af þessu beinan kostnað eins og Þjóðverjar vegna sameiningar Þýskalands. Enda hefur stefna Þýskalands í þessum efnum valdið þeim óróleika á gjaldeyrismörkuðum sem við höfum orðið vör við og hér hefur verið minnst

á. Til viðbótar þessu koma síðan innlendir atburðir: Mun minni afli á okkar fiskimiðum og okkar eigin fjárfestingarmistök á síðasta áratug. Það er hins vegar vandséð hvernig frv. getur verið öðruvísi, alla vega þegar litið er til skamms tíma ef ekki er almennur vilji fyrir því að lækka útgjöldin og miklar breytingar með tilfærslum á tekjuhliðinni, skattheimtunni, krefjast breiðrar samstöðu. En okkur verður öllum að vera ljóst að aukin skattheimta leysir ekki þennan vanda.
    Við megum ekki í allri neikvæðu umræðunni gleyma því sem vel er gert því óneitanlega fer hallinn minnkandi. Það er búið að stemma stigu við sjálfvirkum útgjöldum landbúnaðarins. Það hefur orðið sparnaður í menntakerfinu, einkanlega hjá Lánasjóði ísl. námsmanna og ný tilhögun við fjárlagagerð, svokölluð rammafjárlög, hefur leitt til betri niðurstöðu þegar milliuppgjör á þessu ári hafa verið skoðuð. Ég hefði hins vegar gjarnan viljað sjá meiri breytingar sem hefðu áhrif til lengri tíma litið og þá sérstaklega í heilbrigðis- og tryggingakerfinu því að þar er sjálfvirkni útgjaldanna mest. Þetta er einnig sá málaflokkur þar sem við sjáum fram á mesta útgjaldaaukningu á næstu árum og áratugum þó ekki væri nema bara vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. En þarna þurfa að koma til grundvallarbreytingar. Það er ekki nóg að taka bara upp tilvísanakerfi ef það á að vera eins og gamla tilvísanakerfið sem við lögðum af því tilvísanakerfi þarf að fylgja ábyrgð að sá sem vísar frá sér og á annan þarf jafnframt að bera einhverja ábyrgð á þeim kostnaði sem sjúklingnum fylgir á næsta stað.
    Það er ekki nóg að bjóða út á miðstýrðan hátt úr ráðuneytinu. Það er ekki nóg að bjóða út einokun á einstökum verkum. Það þarf að koma til valddreifing þannig að ekki sé hætta á því að þessi úthlutun sé misnotuð. Það þarf að koma til aðhalds í okkar heilbrigðis- og tryggingakerfi sem þarf að byggjast á valfrelsi, þjónustugjöldum og hlutfallsgreiðslum. Einstaklingarnir þurfa að veita stofnunum aðhald og stofnanir þurfa að veita hver annarri aðhald.
    Í þessu sambandi þurfum við einnig að huga að því að auka sjálfstæði einstaklinganna. Þá á ég við efnalegt sjálfstæði þeirra þannig að þegar eitthvað bregður út af hinu hefðbundna og hinu vanalega þá þurfi einstaklingarnir ekki alltaf að hlaupa til ríkisins og treysta á það að ríkið bjargi og leysi úr vandanum. Við þurfum að eiga fjárhagslega sjálfstæða einstaklinga og fjárhagslega sjálfstæða þjóð. Til þess að svo megi verða þarf fólk að leggja fyrir. Það þarf að hafa möguleika til þess að leggja fyrir og skapa þannig innlendan sparnað. Ef innlendur sparnaður hefði verið meiri á undangengnum árum og áratugum væri fjármögnun á halla ríkissjóðs á annan veg farið. Við værum þá ekki með eins miklar erlendar skuldir heldur hefðum við getað fjármagnað þessi útgjöld innan lands, enda er það einsdæmi í hópi Norðurlanda hvað Ísland hefur hátt hlutfall af erlendum skuldum.
    Innlendur sparnaður hjálpar einnig til þess að auka það fjármagn sem atvinnulífið hefur tök á að fá að láni, bæði til þess að skapa ný atvinnutækifæri sem aftur skapa auknar tekjur fyrir einstaklingana og fyrir ríkissjóð. En til þess að þetta geti gengið eftir þurfum við að hlúa að sparnaði og með því að hlúa að sparnaði sköpum við sjálfstætt fólk og það er á sjálfstæðu fólki sem íslenska velferðarþjóðfélagið byggir.
    Fram undan er mikil vinna. Það er mikil vinna við meðferð fjárlaga í þinginu og eins í atvinnu- og efnahagsmálum. Það er því mjög ánægjuleg afstaða og samstarfsvilji sem hefur komið fram hjá aðilum vinnumarkaðarins, bæði launþegum og atvinnurekendum. Ekki er síður ánægjulegur sá samstarfsvilji sem fram hefur komið hjá stjórnarandstöðunni, bæði í umræðunum í dag og annars staðar. Ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu tekið frumkvæði í þessum málum. Hún hefur lagt til að 2 milljarðar kr. til viðbótar því sem áður var ætlað verði settir í framkvæmdir til þess að styrkja atvinnutækifærin og fjölga þeim.
    Það kom líka fram í ræðu forsrh. hér á dögunum að þetta væri ekki nóg heldur þyrfti nauðsynlega að lækka kostnað útflutningsgreinanna til þess að gengið mætti vera stöðugt. Hluti af þessu er lækkun kostnaðarskatta og það er sérstaklega á okkar valdi sem hér erum inni að taka ákvarðanir í þeim málum. Hér er um að ræða mjög vandasamt verk. Það krefst þess að aðgerðir verði markvissar og komi niður þar sem þær eru nauðsynlegastar og koma að mestum notum. Við verðum að varast að þeir sem ekki þurfa á aðstoðinni að halda seilist til hennar.
    Við verðum að hafa í huga að lausnin á þessum vandamálum okkar felst í gjaldahlið fjárlagafrv. en ekki í tekjuhliðinni. Hún felst ekki í aukinni skattheimtu. Það er engin ástæða til þess að ganga til þessara verka með neikvæðu hugarfari og full svartsýni. Þetta eru verk sem við verðum að vinna og þau verk sem við vinnum vel og skynsamlega hjálpa okkur til að komast út úr vandanum og ekki síður gera þau okkur hæfari til þess að sækja fram og skapa okkur betri lífskjör í framtíðinni en við búum við nú.