Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 17:37:53 (1440)


     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þegar ég gat þess að það hefðu verið rúmir 2 milljarðar sem Alþfl. hefði farið fram yfir heimildir fjárlaga var ég einfaldlega að fletta á bls. 2 í frv. til fjáraukalaga og tók þar ráðuneytin sem heyra undir alþýðuflokksráðherra. Það var ekki flóknara en það. En ef menn vilja fría sig af því að þeir fari með ábyrgð þeirra málaflokka, þá er það þeirra mál.
    Varðandi Lottóið þá hefur það auðvitað komið íþróttahreyfingunni til hjálpar. En íþróttahreyfingin er geysifjölmenn og stór hreyfing og þeir fjármunir sem þar deilast síðan út skipta ekki sköpum. Lottópeningarnir nýtast kannski best hjá Örykjabandalaginu og þeim aðilum. Hjá íþróttahreyfingunni sem heild hjálpar auðvitað allt til. En þetta eru ekki slíkir fjármunir að þeir breyti neinu stóru.
    Hvað varðar stöðu íþróttafélaganna yfirleitt og að foreldrar séu farnir að greiða meira fyrir börnin en áður var og að farið sé að greiða þjálfurum laun, sem er reyndar baggi á íþróttafélögunum, er það engu að síður staðreynd að nánast öll íþróttafélög sem ég þekki til berjast í bökkum. Ein lítil knattspyrnudeild sem ég þekki til skuldar tæpar 40 millj., bara ein lítil deild innan félags. Ég get talið mörg önnur slík dæmi. Önnur lítil deild úti á landsbyggðinni skuldar um 30 millj. kr. Það veitir svo sannarlega ekki af því að huga vel að stöðu íþróttanna. Ég tel að Alþingi eigi að gera það og gera það miklu, miklu betur en það gerir. Það er ekki nóg að koma upp á tyllidögum og afmælum einhvers staðar úti um land og berja sér á brjóst og segja: Ég er stuðningsmaður íþróttahreyfingarinnar. Síðan þegar þeir koma inn á hið háa Alþingi eru allir búnir að gleyma því um leið. Það er ekki nóg. Innantóm orð úti um allt land hafa ekkert gildi. Það er hér inni sem á að taka á málinu. Það gerum við með því að veita ríflegum fjármunum til íþróttanna. Ég veit að ég þarf ekki að fara yfir það hér hvert er gildi íþrótta yfirleitt, hvert gildið er fyrir landsmenn í heild, fyrir heilbrigði landsmanna, fyrir uppeldið, sem forvarnastarf og ég veit ekki hvað. Ég gæti sett á langa ræðu um það. En ég held að ég þurfi þess ekki fyrir hv. þm.