Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 17:42:13 (1442)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þm., sem hér hafa tekið til máls við 1. umr. um fjárlög fyrir árið 1993, fyrir mjög svo málefnalegar ræður. Mig langar til þess við lok þessarar umræðu að fjalla örlítið um nokkur sjónarmið og viðhorf sem komu fram í ræðum einstakra hv. ræðumanna.
    Hv. 1. þm. Norðurl. e., Guðmundur Bjarnason, ræddi nokkuð um áreiðanleika fjárlaganna og tiltrú manna á þeim nú og hvort ástæða væri til þess að ætla að niðurstöður fjárlaga fyrir næsta ár væru betri en yfirstandandi árs eða áranna á undan. Auðvitað er afskaplega erfitt að ákveða það en sé litið til nokkurra staðreynda, þá hygg ég að menn geti verið sammála um að meiri líkur séu til þess á næsta ári að niðurstöðutölur standist en oft áður. Ég vil nefna nokkur dæmi því til staðfestingar.
    Í fyrsta lagi er fjárlagagerðin með allt öðrum hætti nú, eins og í fyrra, en áður. Einstök ráðuneyti koma að málum með þeim hætti að fjárlagaundirbúningurinn fer fram úti í ráðuneytunum. Þetta hefur haft þá þýðingu að ráðherrar og fulltrúar einstakra ráðuneyta hafa ekki fundið sömu þörf hjá sér og oft áður að

koma til hv. fjárln. og kvarta undan því að í fjárlagafrv. sé ekki tekið tillit til óska viðkomandi ráðuneyta. Þetta lýsti sér í því t.d. fyrir ári síðan, þegar fjárlagafrv. var til umræðu og umfjöllunar í hv. fjárln., að bæði tekjutölur og gjaldatölur frv. lækkuðu í meðferð þingsins. Það er auðvitað einstæður viðburður að ég hygg í þingsögunni.
    Þá er næsta spurning hvort slík lækkun hafi ekki verið byggð á blekkingum, að aðeins hafi verið skafnar út þær tölur sem í frv. voru og nýjar tölur búnar til og síðan sé ekkert að marka þær. Ef við lítum á þær tölur sem við þekkjum nú í októberlok og miðum við niðurstöðutölur síðasta árs held ég að öllum sé ljóst að tölurnar í frv. yfirstandandi árs muni standast mun betur en tölur síðasta árs. Það er sérstaklega athyglisvert að hallinn verður mun minni þrátt fyrir verulegt tekjutap á yfirstandandi ári.
    Til viðbótar þessu öllu skal það tekið fram að það sem veldur mestum erfiðleikum við að ná niður gjöldum og láta gjöld standast áætlanir fjárlaga eru svokallaðar rekstrartilfærslur, þ.e. fjármunir sem ríkissjóður lætur af hendi en aðrir en ríkið taka ákvörðun um hvernig er varið. Hér er t.d. um tvær stórar tölur að ræða. Annars vegar þær tölur sem ganga til niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta í landbúnaði og hins vegar tölur sem ganga í gegnum Tryggingastofnun ríkisins til ýmissa bóta og til sjúkratrygginga, þar á meðal til sérfræðikostnaðar og lyfjakaupa. Það er ljóst að á næsta ári verður hægt að treysta niðurstöðunni hvað varðar landbúnaðarmálin vegna þeirra samninga sem gerðir hafa verið milli ríkisvaldsins annars vegar og bændasamtakanna hins vegar um búvöruframleiðsluna. Eftir stendur hins vegar að enn hefur ekki tekist nægilega vel að ná tökum á sjálfvirkni útgjalda sem fara til tryggingamála. Þrátt fyrir þetta hefur okkur tekist að fækka þeim gjaldaliðum sem hættast er við að fari úr böndum. Þess vegna tel ég fulla ástæðu til þess að ætla að það verði fremur að marka þetta fjárlagafrv. og áætlanir þess en fjárlagafrv. sem lögð hafa verið fram á Alþingi á undanförnum árum. Ég ætla þó ekki að gefa neinar yfirlýsingar um þetta efni. Við vitum það öll, sem hér erum í þingsalnum, að skjótt geta skipast veður í lofti og við vitum að ákveðin hætta vofir yfir í atvinnulífi okkar sem auðvitað getur haft áhrif á niðurstöðutölur fjárlaganna.
    Hv. þm. ræddi síðan um gjaldahlið frv. að öðru leyti og virtist ekki hafa trú á einstökum atriðum þar. Skal ég ekki fjölyrða um það því ugglaust gefst betri tími til þess síðar, ekki síst við 2. og 3. umr. frv. þegar hv. nefnd hefur haft tækifæri til þess að fara duglega ofan í þessar tölur og gera sínar athugasemdir og jafnvel breytingartillögur.
    Hann staðhæfði hins vegar að biðlistar á sjúkrahúsum hefðu lengst og nefndi til sögunnar, ef ég man rétt, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Nú er það svo að landlæknir hefur kannað þetta mál sérstaklega og fyrir liggja upplýsingar um það að biðlistar hafa styst á sjúkrahúsunum, að einu sjúkrahúsi undanskildu. Það sem er kannski enn merkilegra er að fjöldi aðgerða á sjúkrahúsunum hefur aukist á yfirstandandi ári og það þrátt fyrir allt niðurskurðar- og sparnaðartal. Það sem ég held að sé að í þessum málaflokki er það að okkur hefur ekki enn tekist að koma böndum á svokallaða sérfræðiþjónustu og það er brýn nauðsyn á því að hægt sé að gera samninga við sérfræðingana og til viðbótar að koma á beinu hlutdeildarfyrirkomulagi þegar fólk kaupir lyf. Ef við náum tökum á þessu tvennu tel ég að ekki þurfi að kvíða því að gjaldahlið fjárlaganna fari mikið úr skorðum.
    Hv. þm. ræddi síðan talsvert um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og þá gjaldþrotastefnu sem hann taldi hana reka. Ég vil aðeins og aftur ítreka það, sem reyndar kom fram í minni framsöguræðu, að með því að vitna til stefnuræðu forsrh. kemur glögglega í ljós að forsrh., og reyndar einnig iðnrh., gerðu því rækilega skil í sínum ræðum í umræðu um stefnuræðu forsrh. að það væri viðhorf ríkisstjórnarinnar að lækka bæri svokallaða kostnaðarskatta. Það breytir hins vegar ekki því, og það held ég að hv. 1. þm. Norðurl. e. hljóti að vera mér sammála um, að svo er komið fyrir sumum fyrirtækjum að þeim verður ekki bjargað með þeim eina hætti og þeim yrði ekki heldur bjargað þótt hér yrði gengisfelling, hvort sem hún yrði 10, 20, 30, 40 eða 100%, einfaldlega vegna þess að þegar skuldir fyrirtækjanna sem hafa safnast upp í áranna rás eru orðnar svo miklar, kannski meiri en eignir fyrirtækjanna, þá er ljóst að ekkert kemur þeim fyrirtækjum til hjálpar. Þá er eðlilegt að gripið sé annaðhvort til formlegra nauðasamninga, nauðasamninga utan réttarins eða gjaldþrota og ekki þarf að skammast sín fyrir það því allir vita að gjaldþrot eru hluti af þeim leikreglum sem við búum við hér eins og alls staðar í hinum vestræna heimi þar sem lagt er upp úr því að fyrirtæki eigi tekjuafgang og geti grætt, að það sé nauðsynleg forsenda tilvistar fyrirtækjanna.
    Þetta vildi ég að kæmi fram því að stundum er því haldið fram að það sé sérstök stefna Sjálfstfl. að gera öll fyrirtæki gjaldþrota. Það er af og frá. Hitt er annað mál að þegar fyrirtæki verða gjaldþrota, þau fyrirtæki sem skulda opinberum sjóðum og bönkum, þá gerist það að skuldirnar færast yfir á hið opinbera og ef þeir sjóðir eru ekki mjög sterkir --- og í því sambandi nefni ég atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar eða Framkvæmdasjóð --- þá lenda skuldirnar að lokum á ríkissjóði. Að ríkissjóði standa aðeins skattgreiðendur þ.e. fólkið í landinu þannig að með þeim hætti flyst kostnaður vegna gjaldþrota yfir á skattgreiðendur framtíðarinnar. Þetta hljótum við öll að skilja en í þessu felst ekki nein stefna í þá átt að gera fyrirtækin í landinu öll gjaldþrota.
    Það var athyglisvert að heyra hv. þm. lýsa því yfir að hann styddi, ég skildi hann svo að hann talaði þar fyrir hönd flokks síns, tilfærslu skatta frá fyrirtækjum yfir á einstaklinga. Þessi yfirlýsing hefur að ég held ekki komið jafnskýrt fram áður frá hv. framsóknarmönnum og ég túlka hana á þann veg að Framsfl. sé tilbúinn ásamt öðrum og með öðrum að líta á öll þessi mál með víðtækt samkomulag í huga.
    Hv. þm. minntist á innheimtu virðisaukaskatts. Hann hefur rétt fyrir sér í því að þótt innheimtan

hafi gengið betur í ár en á sl. ári þá hefur það komið í ljós að smám saman reynist þessi skattstofn ekki vera nægilegur heldur. Hann er of gisinn, undanþágur of margar, hlutfallið of hátt og það gerir það að verkum að skilin eru ekki nægilega góð. Þetta er gömul saga og ný og er ástæðan fyrir því að hæstv. ríkisstjórn hefur ætlað sér að breikka stofninn og lækka hlutfallið.
    Hv. þm. gerði efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar á sl. ári síðan að umtalsefni sem hann taldi vera misheppnaðar og nefndi fyrst af öllu þá vaxtabreytingu sem varð þegar ríkisstjórnin tók við. Ég verð að segja að ég undrast það stórkostlega að ráðherra úr fyrrv. ríkisstjórn skuli koma í ræðustól á Alþingi og halda því fram að þessi aðgerð hafi verið misheppnuð þegar ljóst er að allir þeir sérfræðingar sem hafa kannað þetta mál telja að þetta hafi verið forsenda fyrir því að við gátum haldið áfram og náð tökum á málum og því jafnvægi sem við höfðum náð. Vegna hvers? Vegna þess að skráðir nafnvextir voru svo lágir að stórkostlegt útstreymi úr ríkissjóði átti sér stað. Milljörðum saman runnu fjármunir úr ríkissjóði og ríkissjóður varð að taka þá að láni í Seðlabankanum og Seðlabankinn að ganga á gjaldeyrisvarasjóðinn. Ef haldið hefði verið áfram eins og gert var á lokadögum síðustu ríkisstjórnar hefði allt farið hér lóðbeint á höfuðið á örskammri stund. Þess vegna var nauðsynlegt að grípa til þessarar aðgerðar. Það sem kannski má gagnrýna er að síðasta ríkisstjórn skyldi ekki hafa gripið til þeirra úrræða miklu fyrr en gert var. Ljóst er að það skrið og þau lausatök sem áttu sér stað í efnahagsstjórn síðustu ríkisstjórnar byrjuðu fyrir jól á árinu 1990. Um þetta hefur margoft verið fjallað og ég kalla það mikla dirfsku af ráðherra úr fyrrv. ríkisstjórn að koma hér og halda því fram að þessi nauðsynlega leiðrétting hafi verið mistök þegar það liggur fyrir að þetta var einhver nauðsynlegasta aðgerð sem ríkisstjórnin átti við að glíma. Svo koma menn hér upp og tala um sænskar aðferðir til að bjarga genginu og ég heyrði ekki betur heldur en sumir framsóknarmenn lýstu því yfir að það ætti ekki að fella gengið. Hvernig fóru Svíar að? Eru menn búnir að gleyma því? Halda menn að Svíar hafi eingöngu skóflað til sköttunum? Halda menn að Svíar hafi eingöngu skorið niður útgjöldin? Nei. Sænski seðlabankinn varð að grípa til þess að hækka vextina og einn daginn fóru þeir upp í 500%. Til hvers? Það var gert til þess að verja gengi sænsku krónunnar. Það er nefnilega þannig þótt það komist ekki inn í haus allra hv. framsóknarmanna og allra síst formanns flokksins að samband er á milli vaxta og gengis. Sem betur fer og ég óska hv. framsóknarmönnum til hamingju með það, hafa talsmenn þess flokks talað þannig í dag að svo er að skilja að þeir fylgi ekki gengisfellingarstefnu formanns síns. Ég tel það mikið fagnaðarefni fyrir bæði þing og þjóð.
    Hv. þm. ræddi síðan um Vegagerðina og sagði réttilega að ætlunin væri að greiða þær framkvæmdir sem áformaðar eru á næsta ári og kosta munu um 1.800 millj. umfram það sem ætlað var áður af vegafé, þ.e. af tekjustofnum Vegagerðarinnar. Ég held að ég megi til með að bæta við: Það er forsendan fyrir því að við samþykktum þetta. Við teljum að hér sé verið að flýta verki, að þetta sé gert til þess að styrkja stöðu sveitarfélaganna, stækka atvinnusvæðin og réttlætanlegt sé að taka þetta lán og borga það síðan þegar fjárfestingar aukast á nýjan leik þannig að við getum þá slakað á í fjárfestingu til vegagerðar og verðum búnir að ná fram þeim ágóða sem hlýtur að verða í kjölfar þess að við leggjum vegi á milli þeirra staða þar sem mest þörf er á.
    Ef við hefðum einungis tekið lán án þess að gera nokkra grein fyrir því hvernig borga eigi það lán til baka hefði ég fyrir mitt leyti ekki fallist á þá aðgerð. Það vil ég að komi skýrt fram. Það er ekki nóg að bora í gegnum fjöll og leggja vegi. Frændur okkar í Færeyjum voru mjög iðnir og duglegir við það. En menn verða að hafa fyrirhyggju og kunna sér hóf og þegar fjárfestingar detta niður að hreyfa þær á milli ára en þá með því skilyrði að það sé greitt til baka þegar betur stendur á.
    Hv. þm. ræddi nokkuð um viðhald og stofnkostnað. Í því sambandi held ég að full þörf sé á að minna á að í þeirri litlu verðbólgu sem hér ríkir og hefur ríkt um nokkurra missira skeið þá gerist það sem skiptir ákaflega miklu máli að menn taki eftir og það er að framkvæmdamáttur stofnframlaganna verður meiri en ella. Við skulum aðeins rifja upp. Fyrir nokkrum árum þegar verðbólga geisaði, hvort sem hún var 10%, 20% eða 30%, stóðu stofnframlögin og yfirleitt viðhaldsframlögin í stað. Þau voru ekki verðbætt í fjárlagafrv. þannig að þessar upphæðir rýrnuðu þegar fram liðu stundir. Nú þegar verðbólgan er minni en ráðgert var í frv. verður framkvæmdamáttur stofnframlaganna og viðhaldsins meiri en ráð var fyrir gert í upphafi. Þess vegna er hægt að gera meira fyrir jafnmargar krónur á yfirstandandi ári og væntanlega því næsta en ráð var fyrir gert. Það eru ekki allir sem taka eftir þessu en þetta er eitt af því sem gerist þegar verðbólgan dettur niður og sérstaklega ef verðbólgan er lægri en forsendur fjárlagafrv. gerðu ráð fyrir.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir ræddi örlítið um Evrópska efnahagssvæðið og taldi að fjárlagafrv. bæri því vitni að ríkisstjórnin treysti eingöngu á það. Þetta er að sjálfsögðu ekki rétt en ég viðurkenni hins vegar að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gefur okkar ýmsar vonir. Þar eru sóknarfæri og allir hljóta að sjá, sem skynja að út- og innflutningur okkar er hér um bil þriðjungur af landsframleiðslunni, hve mikið við eigum undir því að slík samskipti og viðskipti á milli þjóða gangi snurðulaust fyrir sig og gerist með þeim hætti að Íslendingar megi njóta sem best verðlags og komi vörum sínum á markað með sem minnstum tilkostnaði. Þess vegna tek ég undir það sjónarmið sem hefur komið fram hjá mörgum en er ekkert bundið við frv. að við gerum okkur vonir um að Evrópska efnahagssvæðið hjálpi okkur í þeim vandamálum sem við eigum við að glíma.
    Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með að það var ekki eins mikill sparnaðartónn í ræðu hv. þm. og í formanni Alþb. þegar hann hefur verið að kynna hina nýju stefnu bandalagsins upp á síðkastið, sem er fráhvarf frá hinni hefðbundnu stjórnarandstöðupólitík. Mér fannst eins og hv. þm. hafi stundum runnið örlítið til á línunni þegar komið var að því að deila á útgjaldahlið frv. Það er nefnilega svo, og ég óska Alþb. til hamingju með það, að í nýjustu skrifum þess sem undirbúin voru fyrir fundinn um daginn kemur fram meiri skilningur á því en oftast áður að okkur ber að spara og draga úr útgjöldunum meira að segja í íslenska velferðarkerfinu. Hv. þm. sagði: ,,Vandinn er ástæðulaus, þetta er heimatilbúinn vandi.`` (Gripið fram í.) Nú ætla ég að gera dálítið. Ég ætla að taka undir með hv. þm. og segja: Vandinn er kannski ástæðulaus og heimatilbúinn, en hann er orðinn. ( Gripið fram í: Rétt.) Ef á sínum tíma hefði verið gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir það sem gerðist værum við ekki að glíma við þennan vanda nú. Að því leytinu til er hann ástæðulaus. Hann er einnig heimatilbúinn vegna þess að segja má að með meiri fyrirhyggju og ráðdeild hefðum við að verulegu leyti getað hagað okkur öðruvísi í fortíðinni. En við gerðum það ekki. Vandinn er því til staðar og það er ekki hægt að flýja frá honum með því að segja að það hafi á sínum tíma verið ástæðulaust að efna til hans. Sú staðreynd blasir við okkur öllum að vandinn er hérna og við verðum að horfa framan í vandamálin og leysa þau.
    Í lok ræðu sinnar minntist hv. þm. á að hún taldi að það vantaði umhyggju og væntumþykju í frv. Það kann vel að vera. Ég býst ekki við því að þeir sem skrifuðu frv. hafi hugsað sér að þeir væru að skrifa góða skáldsögu til þess að kveikja slíkar tilfinningar. En þegar frv. er skoðað kemur glöggt í ljós að kostnaður á einu tilteknu sviði er aukinn. Á hvaða sviði er það? Það er í málefnum fatlaðra. Og það er vegna þess að víðtæk samstaða hefur verið um það, að ég hélt, að þjóðin tæki á í þessum efnum. Ég held að það sé til fyrirmyndar. Það má vera að gengið hafi verið fulllangt í þeim efnum og það kann einnig að vera að ná megi meiri árangri úr þeim fjármunum sem til fatlaðra fara. Þrátt fyrir allan barlóminn, andbyrinn og öll vandamálin höfum við haft þá reisn sem þarf til að gera þetta og þar er ég ekkert að hæla ríkisstjórninni sérstaklega. Þar er ég að hæla hinu háa Alþingi fyrir það að takast á við vandamálið sem víða um heim hefur verið skilið eftir, ekki síst þegar aðstæður eru slæmar. Þetta vildi ég að kæmi fram því að mér finnst þó að í þessu komi fram væntumþykja í garð þeirra sem kannski eru verst settir í okkar þjóðfélagi.
    Hv. þm. Jóna Valgerður ræddi m.a. um hallann í fjárlögum og taldi að þær tölur sem kæmu fram í frv. mundu ekki standast og sagði réttilega að ríkisstjórnin hefði í upphafi stefnt að hallalausum fjárlögum. Ríkisstjórnin stefndi í upphafi að því að ná hallalausum fjárlögum fyrir árið 1993. En aðstæður hafa breyst. Ef við skoðum vandlega hvað hefði gerst ef við hefðum ekki tekið tvo milljarða inn á næsta ári, ekki misst tekjurnar vegna samdráttarins og hefðum getað dregið úr útgjöldunum vegna minna atvinnuleysis, t.d. vegna þess að við hefðum verið að byggja álver eins og stóð til þegar þetta markmið var sett, hefðu niðurstöðutölur í fjárlagafrv. fyrir næsta ár verið þær að gjöld og tekjur hefðu staðist á. Þetta er staðreynd sem mjög auðvelt er að sýna fram á. En það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir ákváðu að breyta þessu markmiði vegna þess að ytri aðstæður hafa breyst og við getum auðvitað ekki barið höfðinu við steininn. Við verðum að takast á við vandann eins og hann kemur fyrir hverju sinni.
    Hv. þm. spurðist fyrir um gjöld í framhaldsskólum sem eru 80 millj. kr. Ég vil einungis segja að ekki er um ný gjöld að ræða. Hér er verið að færa gjöld í fjárlögin sem tekin hafa verið á undanförnum árum. Það má kannski segja að verið sé að samræma fjárlög og ríkisreikning sem ekki hefur áður verið gert í fjárlögum. Áður var þetta framkvæmt með mjög misjöfnum hætti þannig að sumir skólar sýndu sértekjur en aðrir ekki. Hér eru hins vegar ekki á ferðinni skólagjöldin margumræddu og skal ég þó ekki láta undir höfuð leggjast að viðurkenna að ég hefði viljað sjá skólagjöld greidd í framhaldsskólum landsins, 6 þús. kr. á önn. Ég tel að þeim peningum hefði verið mjög vel varið og styð þá tillögu en viðurkenni að það þarf að leita eftir víðtækari samvinnu og samstarfi en nú er til staðar í ríkisstjórnarflokkunum til að ná því fram. Ég útiloka ekki að það geti orðið hluti af því víðtæka samstarfi og samstöðu sem menn eru að tala um þessa stundina. Þetta segi ég vegna þess að frændur okkar á Norðurlöndum hafa einmitt verið að fara þessa leið bæði í menntamálum og í heilbrigðismálum.
    Hv. þm. minntist síðan á vegagerð og skerðingu á vegafé. Ég held að menn ættu að hika andartak þegar talað er um mikla skerðingu á vegafé. Þegar menn nota hugtakið skerðingu á vegafé eru menn að bera saman vegáætlun eins og hún var samþykkt fyrir kosningar vorið 1991 og framlög til vegamála. Ef við sleppum hins vegar vegáætlun og skoðun eingöngu þær upphæðir sem lagðar voru til vegamála 1990 og 1991 við hliðina á þeirri upphæð sem fór í ár og fer á næsta ári, kemur í ljós að frá árunum 1991--1993 vaxa framlög til vegamála um hvorki meira né minna en 38%, úr 5,5 milljörðum upp í 7,5 milljarða. En hluti af því skýrist með því að ferjurnar, um það bil 300 millj., fara nú inn í þessa hít og það á að greiða fyrir þann kostnað af tekjustofnum Vegagerðarinnar. ( Gripið fram í: Sagði ráðherrann hít?) Ráðherra sagði hít við gamla nemandann sinn sem hlustar enn jafn vel og áður.
    Þetta þýðir að framlög til vegamála hafa stóraukist í síðari tíð þótt þau nái ekki þeim upphæðum sem eru í vegáætluninni. Það skal fúslega viðurkennt, enda var sú vegáætlun samþykkt rétt fyrir síðustu kosningar og var eins og svo margt sem samþykkt er rétt fyrir kosningar með þeim bjartsýna hætti sem einkennir lánsfjárlög, vegalög og aðrar samþykktir Alþingis á slíkum tímum. ( Gripið fram í: Það var samþykkt samhljóða.) Það var samþykkt samhljóða, það er hárrétt og þar er enginn undanskilinn, ekki heldur sá sem hér stendur.

    Hv. þm. sagði síðan að við ættum val um það hvort við færum sænsku leiðina eða færeysku leiðina. Ég verð að segja að mér finnst sú sænska heldur skárri því að sú færeyska var engin leið. Þar mættu Færeyingar því miður þessum örlögum sínum af því að þeir flutu sofandi að feigðarósi. Við þurfum að koma í veg fyrir að það geti gerst hér.
    Hv. þm. Jón Kristjánsson spurðist fyrir um það hvar umræðan um virðisaukaskattinn stæði hjá ríkisstjórnarflokkunum. Þegar gengið var frá frv. til prentunar var sá grunnur lagður af hálfu stjórnarflokkanna að miðað yrði við það að samræma undanþágureglur í virðisaukaskattinum sem þýddi að vissar greinar sem notið hafa þess að fá að draga innskattinn frá mundu ekki njóta þess eftir að viðkomandi frv. um virðisaukaskatt yrði samþykkt í takt við fjárlagafrv.
    Nokkru eftir að málið hafði verið skoðað vel vaknaði áhugi á að kynna á nýjan leik nýjar hugmyndir sem fólu það í sér að leggja á nýtt þrep í virðisaukaskattinum á þær greinar sem ekki greiða skattinn í dag, lægra þrep, og leyfa þeim að sjálfsögðu síðan að njóta innskattsins á móti jafnvel þótt hann sé yfirleitt í miklu hærra skattþrepi.
    Þessar umræður fara nú fram á milli stjórnarflokkanna í nefnd. Þær hafa ekki verið ræddar aftur í þingflokkum stjórnarflokkanna að því er ég best veit. Þær hafa verið ræddar á milli einstakra þingmanna. Málið er hins vegar, eins og ég sagði í minni framsöguræðu, í biðstöðu vegna þess að það hefur mikla þýðingu fyrir framgöngu málsins hvað verður um þær hugmyndir sem nú eru væntanlega í fæðingu hjá aðilum vinnumarkaðarins.
    Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fjárlög eru lögð fram án þess að tillögur á tekjuhlið fjárlaga séu fullútbúnar. Það hefur margoft gerst áður eins og ég veit að þeir sem hafa setið í ríkisstjórnum muna.
    Hitt er svo annað mál að þetta eru ekki stórkostleg tekjumálefni. Þetta eru ekki mjög háar upphæðir og ég tel enga hættu á því að tekjuáætlun fjárlaga riðlist en tel fulla ástæðu til þess að svara því undandráttarlaust en það er ekki enn fullkomin vissa um það hver lendingin verður.
    Ég bendi á, eins og reyndar kom fram í ræðum hv. þm., að samið hefur verið við sveitarfélögin um annan hátt en þann sem að var stefnt. Sú samþykkt ein og sér gefur auðvitað til kynna að ríkisstjórnin hefur áhuga á því að hverfa frá undanþágusamræmingunni. Það er rétt til getið að segja má að þar sé stigið stefnumótandi skref sem gefur til kynna hvert framhaldið kunni að verða.
    Varðandi aðstöðugjaldið sem hv. þm. spurðist fyrir um skal frá því sagt að ítarleg skýrsla liggur fyrir um það mál og ég vona að hv. þm. hafi fengið fyrir allnokkru. Enn fremur hefur á grundvelli þeirrar skýrslu starfað nefnd og skilað nefndaráliti sem kynnt hefur verið fyrir atvinnurekendum og sveitarstjórnarmönnum, þ.e. forustumönnum í sveitarstjórnarsambandinu. Mér er kunnugt um að þessar tillögur verða til umræðu á vettvangi Sambands sveitarfélaga síðar í þessari viku.
    Ég get ekki að svo stöddu fullyrt hvað verður ofan á í þessum efnum. Aðstöðugjöldin eru tekjustofn sveitarfélaganna en ekki ríkisins og þess vegna er nauðsynlegt að það mál fái úrlausn í samvinnu við og í samráði við sveitarfélögin í landinu. En auðvitað koma til greina ýmsar leiðir t.d. þær að flytja stofninn, þ.e. flytja tekjurnar sem sveitarfélögin fá nú af aðstöðugjaldinu, af fyrirtækjunum yfir á einstaklingana með því að hækka útsvar, eða finna einhvern annan stofn. Nefndar hafa verið nokkrar hugmyndir í því sambandi sem ég tel ástæðulaust að vera að ræða hér, enda veit ég ekki hve mikil alvara er í þeim málum. Þetta er eitt þeirra mála sem nú eru til umræðu hjá aðilum vinnumarkaðarins og í atvinnumálanefnd ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins.
    Varðandi samkomulagið við sveitarfélögin sem ég minntist á fyrr í minni ræðu vil ég taka það fram að væntanlegt er lagafrv. um þetta efni. Í því lagafrv. verður gert ráð fyrir því að sveitarstjórnarmenn eigi aðild að ákvörðunum stjórnarinnar þegar fjallað verður um tiltekin málefni og einnig hitt að staðfesting á úthlutun sjóðsins til þessara sérstöku framkvæmda sem nefndar hafa verið til sögunnar verði að leita hjá heilbr.- og trmrh. sem er yfirmaður Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Varðandi þjónustugjöldin vil ég einungis láta það koma fram að þjónustugjöld eru ekki aukin í þessu frv. Það þýðir ekki að núv. fjmrh. sé horfinn frá þeirri stefnu sinni því að hann telur skynsamlegt að auka þjónustugjöld og hef ég fært fjölmörg rök fyrir því en ekki því miður komist nægilega hratt fram í þessu skynsamlega máli. Ég hygg og vona hins vegar að þau mál verði tekin upp ef og þegar víðtækt samkomulag verður gert um ráðstafanir í ríkisfjármálum til þess að tryggja stöðu fyrirtækjanna og stöðugleika í efnahagslífinu. ( ÓÞÞ: Er það ný nýsköpunarstjórn?) Ég veit ekki hvort hægt er að gefa því samstarfi svo virðulegt nafn að kalla það stjórn. Ég minni hins vegar á að ríkisstjórnin hefur til að mynda fyrr á þessu ári átt gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins og tók ákvörðun í tengslum við síðustu kjarasamninga um ýmsa þætti ríkisfjármálanna. Ég tel að nú sé önnur staða komin upp vegna þess að í ljós hefur komið að atvinnu- og efnahagsástandið er lakara en þá var spáð og þess vegna sé full ástæða til þess að taka þessi mál upp við aðila vinnumarkaðarins á nýjan leik. Ég held að mér sé óhætt að segja að það hljóti að vera eðlilegt þegar menn eru að ræða um víðtækt samstarf, samráð og samvinnu um þessi mál.
    Varðandi Byggingarsjóð verkamanna vil ég taka það fram að segja má að það sé nokkurs konar þríliða í gangi. Við gerum ráð fyrir því að hinn 1. mars nk. hækki vextir í félagslega íbúðakerfinu. Framlag ríkisins verður óbreytt og ætlunin er að bæta við framlagið, eins og kemur fram í fjárlögum, þeim sparnaði sem næst út úr Húsnæðisstofnun ríkisins og réttilega kom fram hjá hv. þm. Ef sá sparnaður næst ekki fram, þá verða útlánin þeim mun minni og má því búast við að færri íbúðir verði byggðar en áður

var ætlað.
    Ég vil vegna orða hv. 2. þm. Austurl. um að hann byggist ekki við því að hv. þm. Framsfl. flyttu tillögur til hækkunar og mundu taka þátt í vinnu nefndarinnar af fullum heilindum einungis segja að það tel ég vera mjög mikilsvert og sýna að Framsfl. lítur á þessi mál með þeim hætti að nauðsynlegt sé að tempra útgjöld ríkisins og ná sem mestum árangri með því að draga úr ríkissjóðshallanum.
    Virðulegi forseti. Það urðu nokkrar umræður hér á milli tveggja hv. ræðumanna um gengi og gildi gengisfellinga. Ég ætlaði ekki að skipta mér af þeim umræðum en tel þó ástæðu til að minna á að raungengi íslensku krónunnar nú er svipað og meðaltal raungengisins var á sl. áratug. Það sem vekur okkur vonir nú er að verðbólga hér á landi er lægri en í nágranna- og viðskiptalöndunum sem að öllu jöfnu ætti að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Þó ber að geta þess að ef framleiðsla íslensku fyrirtækjanna dregst saman eins og nú gerist í sjávarútvegi þarf til viðbótar að grípa til annarra ráða. Þetta er öllum ljóst. Þess vegna er það sem fjöldi aðila hefur nú bundist samtökum um að finna leiðir til þess að draga úr kostnaði þessara fyrirtækja.
    Hv. þm. Ingi Björn Albertsson spurðist fyrir um íþróttir. Því miður get ég ekki svarað honum fullkomlega. Ég vil þó benda á að á bls. 283 í fjárlagafrv. er fjallað um þessa þætti. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Þá er breyting gerð á framsetningu svokallaðra styrkjaliða menntmrn. en það eru fjárlagaliðir þar sem færðir eru styrkir til einstaklinga, samtaka og félaga vegna listastarfsemi, íþrótta- og æskulýðsmála og fleiri þátta. Undanfarin ár hefur viðfangsefnum á styrkjaliðum fjölgað verulega. Engar fastmótaðar reglur hafa gilt um úthlutun fjárveitinga og eftirlit með styrkþegum. Menntmrn. hefur nú í hyggju að setja reglur um styrki af þessu tagi, skýrslugerð styrkþega, reikningsskil o.fl. Reglur þessar verða unnar í samráði við fjárln. Alþingis. Í stað þess að sundurgreina framlög til einstakra verkefna er nú gerð tillaga um heildarfjárveitingu til tiltekinna málaflokka. Undantekning er ef fjárveiting er bundin ákvæðum laga eða sérstakra samninga. Þá er og gerður greinarmunur á almennum rekstrartilfærslum og stofnkostnaðartilfærslum. Heildarfjárhæð styrkjaliða er svo til óbreytt en töluvert er um innbyrðis breytingar þar sem nokkrir liðir hækka en aðrir lækka á móti.``
    Þetta skýrir uppsetninguna. Þetta skýrir einnig af hverju skákin er tekin út úr. Mér skilst að það sé vegna sérstakra samninga við þá sem stunda skák og standa að þeirri starfsemi. Ég vonast til þess að gott samkomulag náist um það á milli menntmrn. og fjárln. að skipta þessu fjármagni þannig að ekki verði um ágreining að ræða eins og því miður hefur viljað brenna við, ekki einungis á yfirstandandi ári heldur líka stundum áður.
    Virðulegi forseti. Ég hef reynt í kannski of löngu máli að gera skil nokkrum þeim atriðum sem hafa komið fram í þessari ágætu umræðu. Það má segja að það hafi ríkt friður í þessari umræðu sem er ekki skrýtið. Margir hv. ræðumenn hafa minnst á að annars staðar sé verið að huga að þessum verkefnum. Ég fyrir mitt leyti fagna því. Ég tel afar nauðsynlegt að sem flestir í þjóðfélaginu komi að þessu verki, hafi skilning á því og sé tilbúnir til að styðja góða niðurstöðu málsins. Ég vona þó að þetta logn sem ríkt hafi hér í dag sé ekki lognið á undan storminum heldur merki um það að hv. þm. vilji gott samstarf um lausn málsins.