Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 18:27:26 (1443)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt að ég tel að þetta sé heimatilbúinn vandi eða eins og skáldið Þorsteinn frá Hamri sagði miklu fallegar: Heimatilbúið angur.
    Í lánsfjárlögum sem hér liggja fyrir er ákvæði í 5. gr. sem vekur ljúfar minningar. Fyrir tveim árum keypti íslenska ríkið brunarústir og sex fyrrverandi grenitré í Flekkuvík fyrir 108 millj. kr. sem hefði nú kannski mátt nota í eitthvað annað. Í athugasemd með 5. gr. lánsfjárlaga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Vatnsleysustrandarhreppur. Ráðgert er að veita Vatnsleysustrandarhreppi ábyrgð fyrir allt að 55 millj. kr. láni til undirbúningsrannsókna við Flekkuvíkurhöfn á vegum Hafnamálastofnunar ríkisins.``
    Það má ekki minna vera en að það komi höfn við rústirnar. Og af því að ég hef sterkan grun um að hæstv. ríkisstjórn hafi harla lítið hugmyndaflug en við í Alþb. þeim mun meira, þá ætla ég að gauka að hæstv. ráðherra hugmynd. Væri ekki ráð að koma hugarfóstri hæstv. iðnrh. fyrir á Grundartanga því að þar er höfn? Þar mætti spara ábyrgð á 55 millj. kr. láni til Vatnsleysustrandarhrepps til hafnargerðar við jörðina Flekkuvík sem kostaði 108 millj. kr.