Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 18:46:34 (1446)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Áður en kemur að hinu eiginlega andsvari vil ég segja um endurgreiðslur að þótt ekki liggi fyrir endanlegar tillögur í þeim efnum finnst mér eðlilegt að líta á að um 10 ára tímabil geti verið að ræða en auðvitað þarf að haga þeim nokkuð eftir fjárfestingarstiginu í landinu. Meira get ég ekki sagt að svo stöddu.
    Mitt erindi hingað er að fjalla aðeins um vexti og rifja upp að um það leyti sem núv. ríkisstjórn kom að völdum var því spáð að innlendur sparnaður yrði 24 milljarðar kr. en ekki 36 milljarðar eins og spáð hafði verið af Seðlabankanum haustið 1990 að yrði árið 1991. Eftir að við hækkuðum vextina gjörbreyttist þetta ástand og niðurstaðan varð sú að árið 1991 varð sparnaðurinn 37 milljarðar kr., þar af frjáls sparnaður 20 milljarðar. Í áætlun yfirstandandi árs er gert ráð fyrir að peningalegur sparnaður verði 34 milljarðar kr. og á næsta ári 36 milljarðar. Ég staðhæfi það hér og nú að ástæðan fyrir því að við höfum náð upp sparnaðinum aftur er m.a. og kannski ekki síst vegna þess að við höfðum kjark og þor til að taka þá réttu ákvörðun á sínum tíma, þótt óvinsæl væri, að hækka vextina duglega og koma hlutunum hér í lag.