Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 18:48:11 (1447)

     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Andsvar er ekki langt og ástæðulaust að karpa um þessar tölur. Það liggur fyrir hver niðurstaðan hefur orðið í sambandi við þennan sparnað. Sparnaðurinn er að verulegu leyti kerfisbundinn, þ.e. sparnaður lífeyrissjóðanna. Það er vissulega rétt að áætlun sem gerð var í árslok 1990 um áætlaðan sparnað á árinu 1991 gerði ráð fyrir minni sparnaði en varð niðurstaðan á árinu 1991. En sú spá er auðvitað ekki gerð undir þeim kringumstæðum sem kunna að hafa skapast á vormánuðum eða fyrri hluta árs 1991, heldur er hún gerð um mitt ár eða seinni hluta árs 1990. Og niðurstöðurnar tala sínu máli. Síðan kemur í ljós að áætlað er að þessi sami frjálsi sparnaður minnki verulega í ár, niður í 14 milljarða þrátt fyrir hið háa vaxtastig sem hæstv. fjmrh. telur þó að sé röksemdin fyrir þessum mikla sparnaði.
    Ég leyfi mér enn að fullyrða og ítreka það sem ég hef sagt áður að þessi hávaxtastefna hafði alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnulífið og á sinn þátt í því hvernig þar er komið nú.