Umboðssöluviðskipti

36. fundur
Miðvikudaginn 21. október 1992, kl. 13:50:23 (1455)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel það mikilvægt sem fram kemur í ræðu hæstv. viðskrh. í framhaldi af orðum hv. 1. þm. Austurl. að hann fellst ekki á þau sjónarmið sem fram hafa komið frá hæstv. utanrrh. varðandi meðferð þessara mála á Alþingi. Hæstv. utanrrh. hefur aftur og aftur síðustu sólarhringa verið að gera tilraun til þess að stofna til illinda á Alþingi með ummælum utan þings um það hvernig haldið hefur verið á málum hins Evrópska efnahagssvæðis í þinginu.
    Ég tel að þær tilraunir hans hafi út af fyrir sig ekki tekist. Menn hafa ekki látið það storka sér til þess að setja á verulega málfundi um þessi mál undanfarna daga. En allt um það, þá þykir mér mikils um vert að hæstv. viðskrh. hefur í raun og veru ómerkt yfirlýsingar og árásir hæstv. utanrrh. á stjórnarandstöðuna út af meðferð EES-málanna. Ég tel mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að það liggi fyrir.