Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

36. fundur
Miðvikudaginn 21. október 1992, kl. 14:01:34 (1458)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Varðandi þá spurningu hv. þm. hvort þetta frv. tengist EES-samningnum eða hvort það geti staðið sjálfstætt er því til að svara að þetta er nauðsynlegt frv. varðandi samningana um EES en getur út af fyrir sig einnig staðið sjálfstætt ef ekki væri um EES-samninga að ræða.
    Varðandi 1. gr. um að lög þessi gildi ekki um haffær skip, þá er þetta gert á grundvelli alþjóðareglna sem gilda um skip. Þetta er sérákvæði sem flest ríki hafa samþykkt. Eftir því sem ég kemst næst hefur verið álitið að hér sé um íþyngjandi ákvæði að ræða varðandi skiparekstur og gæti falist í því ákveðin hætta að ef slík ákvæði væru inni mundu skip hugsanlega fara að sigla undir öðru flaggi. En fyrst og fremst er hér um alþjóðlegar reglur að ræða sem gilda um skip og sérákvæði sem flest ríki hafa samþykkt.