Fjarskipti

36. fundur
Miðvikudaginn 21. október 1992, kl. 14:22:59 (1462)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég þarf heldur ekki að segja margt um þetta mál á þessu stigi þar sem ég mun fylgjast grannt með málinu í samgn. en þangað hefur ráðherra lagt til að málinu verði vísað.
    Það kemur auðvitað fram í greinargerð með þessu frv. að á mörgum sviðum erum við Íslendingar að kokgleypa löggjöf Evrópubandalagsins og sjálfsagt Rómarsáttmálann. Það er einkenni á ráðherrunum þegar þeir flytja þessi EES-mál að þeir verða illskiljanlegir, hinir bestu ræðumenn tafsa tilbreytingarlaust og virðast lítt þekkja efnið.
    Það sem vekur athygli mína svona snöggt á litið og ég vildi að ráðherrann útskýrði betur er að mjög er talað um að stofnað verði sérstakt Fjarskiptaeftirlit ríkisins sem virðist eiga að verða hægri hönd ríkisvaldsins og undir handarjaðri samgrh. Í þeim efnum væri fróðlegt við þessa umræðu að heyra hjá ráðherranum hvernig til fjarskiptaeftirlitsins verður stofnað. Er það einhver sérstök nefnd sem skipuð er af ráðherranum eða ríkisstjórn eða er það stofnunin sjálf sem heitið hefur Póstur og sími fram undir þetta? Ég vil að ráðherra skýri þingheimi ögn frá því hvernig til þessa fjarskiptaeftirlits verður stofnað. Ég mun síðan sem einn af samgöngunefndarmönnum fylgjast með þessu máli í samgn.