Sveigjanleg starfslok

37. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 10:36:53 (1466)

     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans og þau viðhorf sem koma fram í hans máli. Ég minnist þess að einmitt það sem hann minntist á hvernig þessum reglum var breytt hjá Reykjavíkurborg með góðum árangri kynntum við okkur einmitt þegar unnið var að þessu máli.
    Ég vil minnast á þær tölur sem eru svo sláandi um hvernig það fólk sem missir störf sín verður háð lyfjum. Það kom fram í þeirri rannsókn sem ég minntist á að t.d. lyfjanotkun fólks á aldrinum frá 47--66 ára er nokkuð lítil en á aldrinum 67--73 ára eykst neysla taugaróandi lyfja um 35% og svefnlyfja um 80% meðal kvenna. Meðal karlmanna á sama aldri eykst neysla taugaróandi lyfja um 50%.
    Þetta eru alvarlegar tölur sem benda til mikillar vanlíðunar þegar líður að starfslokum. Menn segja kannski sem svo: Hvernig dettur mönnum þetta í hug við þær aðstæður sem blasa við í þjóðfélaginu þegar atvinnuleysi vex og samtök hafa verið stofnuð til baráttu fyrir atvinnulausa Íslendinga? Það er mín skoðun að þegar til lengri tíma væri litið og búið væri að móta hin sveigjanlegu starfslok mundi það hafa þau áhrif að fólk mundi byrja að hægja á vinnu sinni og kannski vera í hálfu starfi frá 65 til 73--74 ára.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en auðvitað harma ég það að nefndin skuli ekki hafa komið saman nema einu sinni. Miðað við þau orð sem hæstv. forsrh. lét falla, þá treysti ég honum til þess að fylgja því eftir að niðurstaða þessarar nefndar liggi sem fyrst fyrir.