Samþykktir Ríó-ráðstefnunnar

37. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 10:50:28 (1471)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Það sem rekur mig í stólinn er að hæstv. umhvrh. fullyrti að núgildandi kvótakerfi væri í fullu samræmi við þær hugmyndir sem var skrifað undir í Ríó. Ekki get ég séð það. Mér finnst það undarleg túlkun. Hafa menn t.d. gert sér grein fyrir því að ef núgildandi kvótakerfi væri komið á með sama hætti og ætlast er til hefðu smábátarnir, sem minnst var á áðan, orðið að kaupa veiðileyfin af stórútgerðunum á árinu sem er að líða. Þar sem verið er að tala um að vernda heimamið handa smærri útgerðarfyrirtækjum þá samrýmist það ekki því að menn geti keypt og selt aflakvótana eins og gert er í þessu kerfi.

     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. skýr og greinargóð svör við fyrirspurnum mínum. Það sem mér finnst standa upp úr er í fyrsta lagi það sem hæstv. ráðherra nefndi, að það nýtingarsjónarmið, sem við Íslendingar höfum ævinlega verið talsmenn fyrir varðandi auðlindina við strendur landsins, varð ofan á. Auðvitað skiptir það mjög miklu máli. En það sem vekur mesta athygli innan lands og hlýtur óhjákvæmilega að verða mjög til umræðu, og sú umræða er raunar hafin nú þegar, er merking þeirra orða að hafa beri hliðsjón af sérstakri þekkingu og hagsmunum sjávarbyggðanna, fiskimannanna á smábátunum og fólks við sjávarsíðuna, þegar stjórnkerfi sé sett á laggirnar. Þetta er auðvitað það sem menn eru að horfa á og sú spurning vaknar með hvaða hætti menn ætla sér að reyna að tryggja þetta markmið. Sú spurning vaknar og hlýtur óhjákvæmilega að verða varpað fram, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði, með hvaða hætti við gerum það t.d. gagnvart eigendum smábátanna eða því fólki sem kann að standa frammi fyrir miklum erfiðleikum vegna fyrirkomulagsins um réttindi til þess að sækja fisk úr sjó.
    Annað sem kom líka fram í máli hæstv. ráðherra var áherslan á valhæfni veiðarfæranna. Þetta er auðvitað innlegg í þá umræðu sem ævinlega fer fram um skynsamlega nýtingu hafsbotnsins og skynsamlega nýtingu sjávarfangsins, einkanlega það sem nú hefur verið meira á döfinni en oft áður. Það er spurningin: Hver er þáttur einstakra veiðarfæra í þróun vistkerfisins í sjónum? Það er mál sem var á þessari umhverfisráðstefnu réttilega vakin athygli á og þess vegna tel ég að ástæða sé til að fagna þessari samþykkt og að hún eigi erindi inn í þá miklu umræðu sem fram mun fara um nýtingu auðlinda hafsins.