Sala rafmagns til skipa

38. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 10:58:42 (1474)

     Flm. (Guðjón Guðmundsson ):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um sölu rafmagns, afgangsorku, til skipa í höfnum landsins.
    Tillagan, sem er á þskj. 153, var áður flutt á síðasta þingi en fékkst ekki afgreidd og er endurflutt óbreytt.
    Flm. ásamt mér eru hv. þm. Sturla Böðvarsson og Árni Johnsen. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að skipa nefnd er hafi það verkefni að gera tillögu um hvernig best verði staðið að sölu rafmagns (afgangsorku eða ótryggrar orku) til skipa í höfnum landsins.
    Í nefndinni sitji m.a. fulltrúar Sambands íslenskra rafveitna, Landssambands íslenskra útvegsmanna og Hafnasambands sveitarfélaga.``
    Eins og fram kemur í greinargerð með þessari þáltill. er helsti tilgangur hennar sá að fá hagsmunaaðila til að gera markaðsátak í þeim tilgangi að minnka verulega keyrslu dísilrafstöðva um borð í skipum í höfnum landsins en nýta í staðinn innlenda orku, framleidda í vatnsorkuverum landsins. Það er margt sem vinnst með slíku markaðsátaki, t.d. betri nýting innlendra raforkuvera en afkastageta þeirra er stórlega vannýtt eins og er. Gjaldeyrir sparast með aukinni notkun innlendrar orku í stað innfluttrar olíu. Mengun minnkar, bæði mengun andrúmslofts og hávaðamengun og væntanlega má með þessu spara útgerðinni verulegan kostnað.
    Þessi markaður liggur sérlega vel við umframorku Landsvirkjunar vegna þess hve auðvelt er að grípa til varaafls ef þessa umframorku þrýtur og á ég þá við ljósavélar sem eru að sjálfsögðu til staðar í skipum. Til að ná þessum markaði verður útgerðin að sjá sér hag í þessum viðskiptum. Þess vegna verður orkan að seljast á lægra verði en sem nemur kostnaði við að framleiða orkuna í dísilvél.
    Á það má einnig benda að þegar komið er öflugt dreifikerfi á hafnarsvæði má líka nota það til að flytja rafmagn frá skipum í land. Það getur komið sér vel og verið öryggismál, sérstaklega í minni byggðarlögum þegar langvarandi bilanir verða í dreifikerfum rafveitna af völdum veðurs eða vegna annarra orsaka. Slík notkun ljósavéla yrði að sjálfsögðu að fara fram á vegum viðkomandi rafveitu.
    Til að lækka verð og auðvelda sölu á landrafmagni til skipa eru ýmsar leiðir. Það þarf að bæta aðstöðu til sölu á landrafmagni í mörgum höfnum landsins og samræma búnað í höfnum svo skip geti notað sama landtengingarbúnað í hvaða höfn sem er. Það þarf að ná samningum við Landsvirkjun um að hún lækki verulega verð á rafmagni sem notað er í þessum tilgangi og mætti semja um að þetta væri svokölluð ótrygg orka, þ.e. afgangsorka.
    Eins og ég nefndi fyrr er trúlega enginn markaður betur fallinn fyrir þessa orku en einmitt sala til skipa í höfnum vegna þess hve auðvelt er að stöðva þessa raforkusölu tímabundið og skipta yfir á ljósavélar skipanna. Sá afsláttur sem Landsvirkjun mundi veita í þessum tilgangi yrði greiddur beint til söluaðila að því tilskildu að verðlag til skipa væri innan ákveðinna marka. Það þarf að samræma búnað í höfnum svo skip geti notað sama landtengingarbúnað í hvaða höfn sem er.
    Til að afgreiða landrafmagn til skipa þurfa að vera sérstakir spennar um borð í hverju skipi. Þann kostnað sem af því leiðir mætti lækka með sameiginlegum innkaupum margra aðila.
    Áhugi útgerðarmanna á að kaupa rafmagn úr landi til skipa í höfnum er ótvíræður ef þessu er sinnt vel af söluaðilum. Sem dæmi um það má nefna þá miklu söluaukningu sem varð á rafmagni til skipa á Akranesi eftir að Rafveita Akraness gerði markaðsátak og stórbætti þjónustuna við höfnina, m.a. með byggingu nýrrar spennistöðvar og lagningu nýrra leiðslna fram allar bryggjur. Þetta nýja kerfi var að fullu tekið í notkun í mars 1991 jafnframt því sem verð orkunnar var lækkað nokkuð og fjórfaldaðist þá salan á rafmagni til skipa. Enn er þó verð orkunnar of hátt og því nota ekki öll stærstu skipin landtengingar en mundu gera það ef hægt væri að lækka verðið enn frekar.
    Þessar tölur um söluaukningu sýna þó glöggt þann mikla áhuga sem útgerðarmenn hafa á þessu máli og hve auðveldlega er hægt að gera átak til notkunar á innlendri mengunarlausri orku.
    Það er nokkuð óljóst hversu stór þessi markaður er. Óneitanlega þarf talsverða orku til ljósa og upphitunar skipa í höfnum. Ég hef þær upplýsingar frá útgerðarmanni loðnuveiðiskips að skipið noti að jafnaði 25--30 kw afl þegar það liggur í höfn yfir veturinn, að stærstum hluta til upphitunar.
    Eitt af hlutverkum þeirrar nefndar sem hér er gerð tillaga um að skipa yrði að kanna hve stór þessi markaður er.
    Iðnrn. gekkst fyrir fundi með fulltrúum raforkufyrirtækja og umhvrn. 23. jan. sl. þar sem ræddar voru leiðir til að auka nýtingu raforkukerfisins. Í minnisblaði iðnrn. frá þessum fundi kemur fram að rætt hefur verið um húshitun, sundlaugar, garðyrkju, fiskimjölsverksmiðjur, rafmagn til skipa, m.a. til viðgerða, samgöngur, fiskeldi og fleira. Um rafmagn til skipa í höfnum landsins segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Í Reykjavík og víðast á landinu eiga skip kost á að fá rafmagn frá viðkomandi dreifiveitum. Nokkuð mismunandi útfærsla er á því hvernig salan fer fram, ýmist hafnasjóðir eða rafveitur selja til skipanna. Almennt landrafmagn er lítið notað og kjósa flestir útgerðarmenn að keyra ljósavélar. Í því sambandi má einnig nefna að millilandaskip geta keypt mjög ódýra olíu sem gerir það að verkum að landrafmagn er ekki samkeppnishæft. Bent er á að í sumum skipum væru tæknilegir erfiðleikar við að tengjast landrafmagni. Nefnt var að hugsanlega mætti sporna við notkun ljósavéla í landlegu með því að takmarka heimildir til notkunar þeirra vegna mengunar.``
    Það er ekki hægt að segja að þarna komi fram mikil bjartsýni á að hægt sé að ná árangri á þessum vettvangi. En skyldi ekki fleirum en mér finnast undarlegt að það sé hagstæðara að kynda skip í höfnum landsins með innfluttri olíu en rafmagni, framleiddu í vatnsorkuverum landsins, á sama tíma og menn trúa því að hægt sé að selja rafmagn frá þessum sömu vatnsorkuverum um sæstreng til sömu landa og selja okkur olíuna?
    Það er öllum ljóst að talsvert umframafl er til í vatnsorkuverum Landsvirkjunar og hefur fyrirtækið að sjálfsögðu leitað að nýjum markaði fyrir raforku. Í greinargerð tæknideildar Landsvirkjunar frá 20. jan. sl. segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Þegar gjaldskrá Landsvirkjunar var breytt um áramótin 1990--1991 var m.a. með nýjum skilmálum um ótrygga orku reynt að höfða til þess hluta af orkumarkaðinum innan lands sem enn notar innflutta orkugjafa. Segja má að forgangsorkumarkaðurinn sé mettaður hjá núverandi einstökum notendum en aukning í þeim hluta markaðarins er nær eingöngu vegna nýrra notenda sem tengjast kerfinu. Með því að lækka

það aflmark, sem ótrygga orkan miðast við, úr 1 mw í 100 kw. eða 500 mwst., var leitast við að vinna hluta af þeim markaði sem nú er fullnægt með olíu. Einkum var beint sjónum að húshitun, ýmiss konar iðnaði og stærri opinberum byggingum, skólum, sundlaugum og slíku.``
    Af þessu má sjá að áhugi Landsvirkjunar á aukinni sölu er mikill eins og eðlilegt er og þó að rafmagnssala til skipa í höfnum landsins sé ekki nefnd í þessari greinargerð Landsvirkjunar tel ég víst að öllum tillögum um aukin raforkuviðskipti verði vel tekið á þeim bæ.
    Hæstv. forseti. Eins og ég gat um í upphafi máls míns var þessi tillaga flutt á síðasta þingi en komst ekki á dagskrá vegna þess mikla annríkis sem var í þinginu eftir að tillagan kom fram. Áður en ég endurflutti tillöguna lét ég athuga, m.a. hjá Sambandi ísl. rafveitna, í byrjun þessa mánaðar hvort eitthvað hefði gerst í þessu máli síðan í vor og fékk þau svör að svo væri ekki. Síðan frétti ég það í gær að iðnrn. hefði fyrir nokkrum dögum sett á fót starfshóp með Hafnasambandinu til að kanna þetta mál. Ég tel að tillagan sem hér er flutt eigi eftir sem áður fullan rétt á sér, bæði sé það tvímælalaust til bóta að fleiri aðilar eigi fulltrúa í nefndinni og eins leggi ályktun Alþingis aukna áherslu á jákvæða niðurstöðu af starfi nefndarinnar.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. iðnn.