Endurskoðun umferðarlaga

38. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 11:26:39 (1480)

     Flm. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurskoðun umferðarlaga á þskj. 148. Þessi tillaga var flutt á 115. löggjafarþingi en fékkst ekki afgreidd þá. Flm. ásamt mér er Finnur Ingólfsson.
    Þessi þáltill. beinist fyrst og fremst að því að draga úr þeim fjölda umferðarslysa sem verða hér á landi á ökumönnum bifhjóla. Þau slys eru margföld miðað við tíðni bifreiðaslysa eða fimmföld sé miðað við fjölda farartækja auk þess sem slys á bifhjólum eru tíðust á mjög ungu fólki og slysin oftar en ekki alvarleg og draga til ævilangrar örorku. Margir foreldrar þekkja þá miklu pressu sem því fylgir þegar unglingur er kominn á þann aldur að mega stjórna bifhjóli og foreldrar finna að sjálfsögðu fyrir því hve litlar kröfur eru raunverulega gerðar til hæfni og þroska hins unga ökumanns sem stýrir fari sínu oftar en ekki

meira af kappi en forsjá. Varnaðarorð foreldra koma oft að litlu gagni. Því þarf að auka þær kröfur sem gerðar eru til ökumanna almennt með aukinni þjálfun fyrir ökupróf. Því ber ég fram eftirfarandi tillögu, með leyfi forseta:
    ,,    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hraða endurskoðun umferðarlaga, nr. 50/1987, með síðari breytingum, m.a. með eftirfarandi að markmiði:
    1. Auka fræðslu og forvarnastarf í skólum.``
    Þessi þáttur er mikilvægur en sú kennsla sem bæði Umferðaráð og lögregla hefur beitt sér fyrir, bæði í leikskólum og grunnskólum, hefur skilað miklum árangri og verkað jákvætt. En umferðarfræðslu þarf að styrkja enn frekar og e.t.v. verður það best gert með því að svæðisfulltrúar verði skipaðir í hverju fræðsluumdæmi sem skipuleggur umferðarkennslu markvisst. Það er aldrei nógsamlega unnið að því að efla jákvæð viðhorf, t.d. með notkun hvers konar öryggisútbúnaðar í umferðinni. Einnig þarf að skipuleggja fornám fyrir ökupróf sem hafist gæti strax í tíunda bekk grunnskóla. Það mundi tengjast grunnþætti fyrir próf ýmissa ökutækja.
    Tilraunir hafa verið gerðar með skipun svokallaðs svæðisfulltrúa á Vesturlandi og einnig á Austurlandi. Á þessum svæðum hefur tekist að efla samband milli skóla og annarra aðila til stuðnings umferðarfræðslu með átaki um bætta umferðaraðstæður skólabarna, m.a. með auknu samstarfi við foreldra og forráðamenn í sveitarfélögum.
    ,,2. Auka og bæta ökukennslu á bifhjól og létt bifhjól til samræmis við þær kröfur sem gerðar eru til undirbúnings ökuprófs á bifreiðum.``
    Það er langt frá að þarna sé kennsla fullnægjandi og það er mjög algengt að ungt fólk fari út í umferðina á bifhjólum án þess að hafa fullkomin tök á því, bæði á hjólinu sjálfu og almennum umferðarreglum.
  ,,3. Lögfesta skyldu ökumanna og farþega á bifhjólum til að nota hlífðarfatnað.``
    Þeir sem bifhjóli stjórna eru algjörlega berskjaldaðir ef óhapp hendir og það er nauðsynlegt að gera meiri kröfur til hlífðarfatnaðar en nú er gert. Það getur dregið verulega úr vondum slysum að vera rétt búinn.
  ,,4. Kanna, m.a. í samráði við slysaskráningardeild Borgarspítalans, hvort nauðsynlegt sé að hækka aldursmörk fyrir ökupróf á bifhjól og létt bifhjól með tilliti til mikillar slysatíðni ökumanna og farþega þessara ökutækja.``
    Á Borgarspítalanum eru nákvæmar slysaskráningar sem segja meira um ástand mála en mörg orð. Þær upplýsingar ættu að nýtast vel við endurskoðun laganna.
  ,,5. Kanna hvort nauðsynlegt sé að skipta bifhjólum í flokka eftir stærð og vélarafli þeirra og áskilja t.d. reynslu eða hærri aldur til að fá ökuleyfi á aflmeiri bifhjól, m.a. með hliðsjón af reglum innan Evrópubandalagsins og í öðrum nágrannalöndum okkar.``
    Það er ekki óalgengt að sjá 17--18 ára unglinga á mjög aflmiklum bifhjólum og draga má í efa að svo ungt fólk hafi reynslu og burði til að stýra svo aflmiklum farartækjum.
    Í grg. með frv. segir m.a.:
    ,,Markmið endurskoðunar umferðarlaga hlýtur m.a. að beinast að því að leitast við að draga úr þeim mikla fjölda umferðarslysa sem ungmenni verða fyrir hér á landi á bifhjólum.
    Samkvæmt slysaskráningum er tíðni bifhjólaslysa hlutfallslega hærri en tíðni bifreiðaslysa og bifhjólaslys hafa þá sérstöðu að þar slasast oftast mjög ungt fólk. Samkvæmt könnun á slysadeild Borgarspítalans slösuðust 454 í bifhjólaslysum á þremur árum (1987--1989), eða um 7% slasaðra í umferðarslysum. 77% slasaðra voru á aldrinum 15--24 ára og 20% slasaðra voru 15 ára. Þá voru 58% slasaðra á aldrinum 15--19 ára sem sýnir glöggt að úrbóta er þörf til að draga úr slysatíðni í þessum aldurshóp. Á árunum 1981 og 1990 létust 15 ungmenni í bifhjólaslysum.
    Tíðni bifhjólaslysa er margföld miðað við tíðni bifreiðaslysa eða um fimmföld sé miðað við fjölda farartækja, eða 92 slys á hver 1.000 bifhjól á móti 19 slysum á hverjar 1.000 bifreiðar. Tíðni bifhjólaslysanna er því 9,2% af fjölda hjólanna og er það uggvænleg tala.
    Vitað er með vissu að aðeins 13% slysa á bifhjólum á árunum 1987--1989 urðu í vinnutíma og bendir það til að bifhjól, bæði létt og þung, séu notuð sem leiktæki. Því virðist sem kapp, lífsorka og hraðafíkn unglinga á aldrinum 15--20 ára fari illa saman við þau öflugu farartæki sem þeim standa til boða. Einnig má ráða af þessum tölum að ökukennslu á bifhjól, bæði létt og þung, sé verulega ábótavant og er mjög brýnt að bæta þar úr.
    Flestir geta verið sammála um að aukin og lengd ökukennsla sé grunnurinn að bættri umferðarmenningu og fækkun slysa. Því er vert að fagna sérstaklega þeim tillögum sem fram hafa komið um bætta og aukna ökukennslu og skora á Umferðarráð, sem væntanlega tekur innan tíðar við skipulagningu umferðarkennslu, að auka og lengja ökunám til að nemendur fái í námi að takast á við sem fjölbreyttastar aðstæður við akstur.``
    Virðulegi forseti. Ég tel að þessum málum sé aldrei nægur gaumur gefinn og ég vona að þessi tillaga verði tekin til greina við endurskoðun umferðarlaga. Að svo mæltu og að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. allshn.