Fréttamaður Ríkisútvarpsins á Vesturlandi

38. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 11:41:04 (1483)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Sem einn af þingmönnum Vestlendinga lýsi ég fullum stuðningi við tillöguna. Enda þótt ég sé ekki af eðlilegum ástæðum einn flm. lýsi ég fullum stuðningi við efni tillögunnar. Ég held að sú þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum að starfsemi Ríkisútvarpsins hefur með ýmsum hætti verið færð meira út á landsbyggðina og henni dreift meira sé af hinu góða. Það er svo sem eðlilegt og skiljanlegt að ekki sé hægt að koma upp föstu svæðisútvarpi á eins mörgum svæðum og æskilegt væri jafnfljótt og menn telja brýnt. Hefði ég þó talið að það væri athugunarefni hvort Ríkisútvarpið gæti ekki hagrætt í sínum rekstri og raðað verkefnum með þeim hætti að það mætti koma við svæðisútvarpi á Vesturlandi.
    Mér fyndist það hefði mátt gera ráð fyrir því í tillögunni að leitast væri við að koma málum í þann

farveg vegna þess að það væri auðvitað það æskilega því reynslan af starfsemi svæðisútvarps hygg ég að sé hvarvetna góð. En auðvitað gerist þetta ekki allt í einu og menn þurfa kannski að hafa svolitla biðlund.
    Ríkisútvarpið er sá fjölmiðill sem tengir alla þjóðina saman og þó að útbreiðsla annarra ljósvakamiðla hafi aukist nokkuð skortir samt verulega á að þeir nái jafnvíða og Ríkisútvarpið og munu væntanlega ekki gera það alveg á næstunni vegna þess að því fylgir meiri kostnaður en líklegt er að þeir vilji leggja í á þessu stigi.
    Ég lýsi fullum stuðningi við þessa tillögu og vona að efnslega fái hún góða og jákvæða afgreiðslu.