Fréttamaður Ríkisútvarpsins á Vesturlandi

38. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 11:47:13 (1486)


     Flm. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir jákvæða svörun við tillögunni sem ég lagði fram. Hæstv. umhvrh. saknaði þess í tillögu minni að þar væri ekki neitt um að Ríkisútvarpið gæti kannski hagrætt svo í sínum rekstri að það gæti innibyrt svæðisútvarp. Ég bar einmitt fram fsp. þess efnis til hæstv. menntmh. á síðasta þingi og fékk við henni neikvæð svör og þess vegna er það ekki í minni tillögu. Ef það væri hægt væri það það besta en hér er aðeins verið að tala um einn fastan fréttamann á Vesturland sem skref í rétta átt. Það fékkst ekki á síðasta þingi þannig að ég er hrædd um að það hefði lítið þýtt fyrir mig að fara fram á heilt svæðisútvarp í þessari tillögu en mun að sjálfsögðu gera það ef ég finn að það er stuðningur fyrir því.