Íbúðaverð á landsbyggðinni

38. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 11:48:40 (1487)

     Flm. (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt á þskj. 160 till. til þál. um íbúðaverð á landsbyggðinni. Flm. ásamt mér eru Halldór Ásgrímsson, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Margrét Frímannsdóttir.
    Tillagan er á þessa leið:

    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er leiti leiða til þess að efla almennan íbúðamarkað á landsbyggðinni. Nefndinni verði sérstaklega gert að skoða hver áhrif lög og reglur um félagslegt íbúðarhúsnæði hafi á stöðu íbúðamarkaðarins.``
    Þessi tillaga er flutt að mjög gefnu tilefni. Þróun íbúðaverðs á landsbyggðinni er víðast hvar mikið áhyggjuefni. Fyrir margt löngu er orðið ljóst að markaðsverð íbúðarhúsnæðis er langt undir framreiknuðum stofnkostnaði þess. Verðmæti þessa húsnæðis hefur þannig brunnið upp og skert eignir fólks á landsbyggðinni svo að nemur gríðarlegum fjárhæðum.
    Það þarf í sjálfu sér ekki að fara mörgum orðum um íbúðaþróunina í landinu undanfarin allmörg ár. Hún hefur í sem grófustum dráttum verið sú að á meðan fólki hefur fjölgað á höfuðborgarsvæðinu hefur því fækkað í það minnsta tiltölulega úti á landi. Um ástæður þessa mætti hafa mörg orð og misjafnlega spakleg en það er ekki ætlunin hér. Nauðsynlegt er hins vegar að draga fram þessa alþekktu staðreynd sem grunn að máli mínu á eftir.
    Sú var tíðin að fólk keypti og byggði sér húsnæði allsendis óhrætt á landsbyggðinni. Þá var þar uppgangur, tekjur kappnógar og bjartsýni ríkjandi. Skuttogaravæðingin var í algleymingi og mikil atvinna víða um land. Ungt fólk kaus að búa úti á landi. Það fjölgaði í sjávarplássunum, fólk skorti húsnæði. Ungt fólk með bærilegar tekjur lagði óhrætt út í fjárfestingar, byggði, eignaðist húsnæði, lagði hart að sér og mig grunar að margt þessa fólks sé nú í þeirri stöðu að versta húsnæðisbaslið sé að baki og hjá sumum kannski vel það.
    Nú er hins vegar öldin önnur. Þó að ég ætli síst að berja lóminn, þá er það samt sem áður staðreynd að fólki fjölgar ekki að tiltölu úti á landi. Sums staðar hefur orðið fækkun, jafnt töluleg sem tiltöluleg fækkun. Eftirspurn eftir nýju húsnæði á almennum íbúðamarkaði er þess vegna ekki mikil. Fólk hikar við að fjárfesta á eigin ábyrgð í húsnæði þótt það hugsi sér að búa á viðkomandi stað. Það óttast óvissuna, hræðist að sú staða komi upp að ekki reynist unnt að losna við húskofann ef þörf krefur. Fólk leitar þess vegna í öryggið, í vissuna, hið félagslega íbúðarhúsnæði sem sífellt verður stærri kostur í húsakosti þeim sem í landinu er, ekki síst úti á landi.
    Fyrir löngu er orðin bærileg pólitísk sátt um það þjóðfélagslega markmið sem er lagalegur og hugmyndalegur grundvöllur Byggingarsjóðs verkamanna, ,,að annast lánveitingar til félagslegra íbúða með það að markmiði að bæta úr húsnæðisþörf þess fólks sem þarfnast til þess sérstakrar fyrirgreiðslu``, eins og segir í 63. gr. laga nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Ég fullyrði að engin marktækur pólitískur ágreiningur ríkir um þessi mál lengur. Menn eru hins vegar ekki alveg sammála um framkvæmdina. Á þetta vil ég leyfa mér að leggja mjög mikla áherslu. Ég tel að það sé sjálfsagt verkefni hins opinbera að greiða fyrir húsnæðisþörf þess fólks sem þarfnast sérstakrar fyrirgreiðslu til þess. Það er bjargföst skoðun mín að slíkt eigum við að gera með myndarlegum hætti og að því hnígi siðferðileg, pólitísk og efnahagsleg rök. Sú gagnrýni sem ég mun hér á eftir vissulega setja fram um afleiðingar núverandi félagslegs íbúðakerfis ber þess vegna að skoða í því ljósi.
    Þegar við höfum í huga þær aðstæður á landsbyggðinni sem ég lýsti hér að framan þarf engan að undra þótt hlutfall nýrra, félagslegra íbúða á landsbyggðinni hafi verið 10--20% hærra þar en sem nam hlutdeild landsbyggðarinnar í öllum nýbyggingum. Ég hygg að segja megi að það endurspegli að einhverju leyti það ástand sem einkennist af ótta fólks við nýjar fjárfestingar á landsbyggðinni. Byggingarframkvæmdir eru á landsbyggðinni, ekki síður en í Reykjavík, nauðsynlegur þáttur í mikilvægri atvinnustarfsemi og nauðsynlegt er að þær séu öflugar og stöðugar. Ég held hins vegar að hér séum við stödd í skelfilegri sjálfheldu sem nauðsynlegt er að við losnum úr eigi ekki illa að fara og að þeirri fágætu tegund mannskepnunnar, sem kaupir sér hús úti á landi, verði hreinlega ekki útrýmt.
    Í fyrra lagði ég fyrir félmrh. fyrirspurn á Alþingi í þeim tilgangi að varpa nokkru tölulegu ljósi á þetta mál allt saman. Fsp. var í tvennu lagi: Annars vegar laut hún að því að fá það upplýst hvert væri meðalverðið á fermetra á notuðu húsnæði á almennum íbúðamarkaði. Hins vegar að fá fram sömu upplýsingar um félagslegt íbúðarhúsnæði. Sá talnafróðleikur, sem birtist í svari ráðherrans, er að mínu mati afar merkilegur þótt vissulega séu á honum miklir og slæmir annmarkar. Að sumu leyti eru þessar
tölur mér nokkur ráðgáta. T.d. sýnist mér ljóst að lítil samsvörun er á milli fermetraverðs og stærð íbúða innan hins félagslega íbúðakerfis. Þá er afskaplega mikill munur á fermetraverði í hinu félagslega íbúðakerfi á milli einstakra landsbyggðarkjördæma og örðugt að sjá vitrænar eða rökréttar skýringar á því máli.
    En aðalatriðið og það sem vakti vitaskuld mesta forvitni mína var að skoða í samhengi íbúðaverð annars vegar í félagslegu íbúðarhúsnæði og hins vegar húsnæðis á almennum íbúðamarkaði í kjördæmum landsins. Hver er niðurstaðan þar? Fyrir það fyrsta annmarkarnir. Við vitum að fermetraverð húsnæðis er breytilegt eftir stærð þess. Í svarinu er ýmist miðað við herbergjafjölda eða fermetrafjölda. Samanburður af því tagi getur því verið dálítið flókinn. Þá er ekki endilega víst að svipaðar stærðir húsnæðis hafi verið í boði á þessum tveimur sviðum íbúðamarkaðarins á sama tíma, hinu félagslega og því almenna. Allur samanburður er þess vegna margslunginn og stundum viðsjárverður. Nokkrum þáttum get ég þó örugglega slegið föstum.
    1. Félagslegt íbúðarhúsnæði er í það minnsta ekki ódýrara en húsnæði á almennum íbúðamarkaði. Fyrirgreiðsla hins félagslega íbúðakerfis byggist því á öðrum þáttum.
    2. Víða er fermetraverð hins félagslega íbúðakerfis verulega hærra en á almennum íbúðamarkaði.

Af skiljanlegum ástæðum hef ég rýnt hvað mest í þær tölur sem eiga við um Vestfirði. Þar er samanburðurinn líka tiltölulega þægilegur. Ef við skoðum árið 1990 á Vestfjörðum, þá var fermetraverð notaðra félagslegra íbúða af stærðinni 110--130 fermetrar 63.100 kr. Á sama tíma var meðalverð á fermetra á almennum markaði 37.010 kr. Hæst á fjögurra herbergja íbúð á almennum markaði, 42.621 kr., en lægst á stærri íbúðum, 26.795 kr. Ef við gefum okkur að við hyggjumst kaupa okkur 130 fermetra íbúð á Vestfjörðum og verðið sé 63.100 kr. á fermetra í félagslegu íbúðakerfi en 37.010 kr. á almennum markaði þá gefur það vitaskuld auga leið að hvað verðið áhrærir er miklu vænlegri kostur að kaupa sér hús á almennum markaði. Verð á 130 fermetra húsnæði á almennum markaði, miðað við þessar forsendur, er 4,8 millj. kr. en í hinu félagslega íbúðakerfi 8,2 millj. kr. Mismunurinn er litlar 3,4 millj. Ég bað Húsnæðisstofnun að reikna út fyrir mig greiðslubyrði þessara ímynduðu fasteignakaupa, annars vegar á hinum almenna markaði og hins vegar í félagslega íbúðakerfiu miðað við nokkrar gefnar forsendur. Það verður að segjast eins og er að samanburðurinn er afskaplega fróðlegur.
    Ef við tökum hið almenna íbúðakerfi, þá blasir það við að miðað við að viðkomandi hafi 150 þús. kr. í tekjur á mánuði, þurfi að leggja fram eigið fé upp á 820 þús. kr. og verðið sé 4,8 millj., þá er greiðslubyrðin fyrstu fjögur árin í almenna húsnæðiskerfinu að vísu talsvert meiri og hærri en í hinu félagslega. Hlutfall launa viðkomandi manns sem fer í að borga af þessu láni er 44% fyrsta árið, 27,2% annað árið, 27,4% þriðja árið og 27,8% fjórða árið. Eftir það, og það er mjög athyglisvert, eftir það hrapar þetta hlutfall niður í 10%. Í félagslega íbúðakerfinu, þar sem eru nákvæmlega sömu forsendur en verð íbúðarinnar 8,2 millj., er launahlutfallið jafnt öll árin að sjálfsögðu, 11,8%. Þ.e. hlutfall launanna sam fara í það að greiða fyrir félagslega íbúð er þá 11,8%. Með öðrum orðum, eftir fjórða árið, eftir að menn hafa borgað skammtímalánin, bankalánin, er hlutfallið orðið lægra á hinum almenna markaði.
    Ég held þess vegna að sú sjálfhelda sem almennir íbúðaeigendur á landsbyggðinni eru í núna í húsnæðismálunum lúti ekki endilega því að auðveldara sé að eignast þak yfir höfuðið með því að komast inn í hið félagslega íbúðakerfi. Það tel ég mig hafa sýnt fram á með þessum tölulegu upplýsingum. Vandinn er hins vegar sá að fólk leitar inn í félagslega íbúðakerfið af því að þar er öryggið. Lögin um Húsnæðisstofnun kveða á um kaupskyldu sveitarfélaganna á öllum félagslegum eignaríbúðum og félagslegum kaupleiguíbúðum fyrstu tíu árin frá útgáfu afsals en í fimm ár á almennum kaupleiguíbúðum. Við endursöluna er upphaflegt kostnaðarverð framreiknað að frádrengum afskriftum. Sá sem er í félagslegu íbúðarhúsnæði hefur því allt sitt á þurru. Hann þarf ekki að óttast að geta ekki selt þegar honum býður svo við að horfa. Honum eru tryggð þau félagslegu réttindi að sveitarfélag hans verður að kaupa af honum húsnæði bjóði honum svo við að horfa. Það er því ekki einasta að sveitarfélagið hafi rétt þessum einstaklingi hjálparhönd við að eignast húsnæði, svo sjálfsagt og eðlilegt sem það nú var, heldur kemur það einnig til bjargar ef hann ætlar að selja. Það er hins vegar ekki nóg með að við höfum byggt upp félagslegt kerfi við að aðstoða fólk við að kaupa húsnæði heldur höfum við líka komið á fót félagslegu kerfi til þess að selja hús.
    Það blasir auðvitað við að þegar sífellt þrengir að á hinum almenna íbúðamarkaði á landsbyggðinni lækkar verð húsnæðis. Svigrúmið þrengist og möguleikar á eðlilegum fasteignaviðskiptum hverfa smám saman. Þetta er ekkert sérstakt fyrir þennan markað. Svipuð lögmál gilda einfaldlega í viðskiptum manna á milli og því þarf það ekki að koma mönnum á óvart. Þetta er hins vegar mjög alvarlegt mál fyrir íbúa landsbyggðarinnar vegna þess að hjá venjulegu fólki er öflun eigin húsnæðis helsta fjárfestingin sem það tekst á hendur. Þó að sparnaðarkostir fólks séu orðnir margvíslegir, þá hefur það ekki breytt því að enn er öflun íbúðarhúsnæðis aðalsparnaður fólks, ef svo má að orði komast, á lífsleiðinni og trygging þess fyrir framtíðina. Hin dapurlega verðþróun á íbúðarhúsnæði er þess vegna býsna alvarleg fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Til viðbótar við þann efnahagslega skaða sem fólk verður fyrir bætist hitt að óvissa fólks verður nær óbærileg og veldur kvíða og vanlíðan.
    Ég veit vel að ástæður þessa ástands eru að sjálfsögðu fjölmargar og margslungnar og fjarri mér er að halda að þær megi allar rekja til hins félagslega íbúðakerfis. En þegar það kemur til viðbótar með þeim hætti, sem ég hef lýst, er ekki að undra þótt ég orði það svo að við séum stödd í sjálfheldu að þessu leyti.
    Virðulegi forseti. Þessi till. til þál. var flutt á 115. löggjafarþinginu en var ekki tekin fyrir og er þess vegna endurflutt nú. Frá því að hún var flutt í fyrra og hennar getið að nokkru í fjölmiðlum hefur ótölulegur fjöldi fólks haft samband við mig og lýst áhuga sínum á þessu máli og fullum stuðningi við það. Sveitarstjórnir hafa sent frá sér ályktanir, jafnvel þó að þetta mál hafi ekki verið tekið til umræðu á Alþingi, til þess að lýsa yfir stuðningi sínum við þetta mál.
    Það vakti athygli mína í ferð fjárln. um Vesturland að í fyrsta sveitarfélaginu sem við heimsóttum, Borgarnesi, kom þetta mál sérstaklega til umræðu. Mál af þessu taginu, sem ég hef hér verið að lýsa, voru vandamál sem sveitarstjórnarmenn þar höfðu miklar áhyggjur af og lýstu miklum áhyggjum sínum yfir. Þess vegna veit ég að það búa miklar væntingar hjá mörgu fólki að baki þessu máli og fólk ætlast til þess að hið háa Alþingi sinni þeim vanda sem nú er kominn upp og er vissulega til staðar úti á landi. Það stoðar ekki að reyna að afgreiða málið með þeim hætti að því felist einhver óvild í garð félagslegs íbúðakerfis þó að menn séu að velta upp neikvæðum afleiðingum þess sem auðvitað geta alltaf komið upp.
    Ég ítreka að það er mín skoðun og ég hygg líka annarra flm. þessarar tillögu að við viljum að til staðar sé öflug félagsleg aðstoð við það fólk sem þarf á henni að halda við að afla sér húsnæðis. En það

gengur ekki að um leið séu aðrir skaðaðir sem síst skyldi.
    Fjórðungsþing Vestfirðinga ræddi þetta mál og ályktaði um það og ég vísa enn í þau fjölmörgu viðbrögð sem ég hef fengið. Ég tel þess vegna nauðsynlegt að málið fái hraða og vandaða afgreiðslu hér á þinginu og að þingmenn sýni í verki vilja sinn til að taka á því sem er raunverulegt vandamál þúsunda fjölskyldna úti um allt land.
    Að lokinni þessari umræðu geri ég það að tillögu minni að málinu sé vísað til síðari umr. og hv. félmn.