Íbúðaverð á landsbyggðinni

38. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 12:02:38 (1488)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þar sem ég er einn af flm. þessa máls ætla ég að bæta nokkru við það sem hv. 1. flm., Einar K. Guðfinnsson, sagði áðan. Það kemur þá fyrst og fremst inn á það hvað hægt er að gera í framhaldinu. Það hafa verið hugmyndir uppi meðal ýmissa úti á landsbyggðinni hvort mögulegt væri að koma á fót eins konar húsakaupasjóði sveitarfélaga eða ríkisins sem fólk hefði aðgang að til að eiga tryggt að það gæti selt og aðrir sem vildu flytja út á landsbyggðina gætu keypt. Einhverja leið verðum við að finna til að gera þessum íbúðareigendum og hugsanlegum kaupendum álíka hátt undir höfði.
    Það er líka nokkuð fróðlegt að skoða Fréttabréf Fasteignamats ríkisins frá því í mars á þessu ári þar sem rætt er um álagningu fasteignaskatta og við hvað þeir eru miðaðir. Með leyfi forseta ætla ég að lesa smákafla úr þessu fréttabréfi þar sem segir:
    ,,Fyrir þá sem stjórna matsmálum og hafa þannig áhrif á heildarstöðu fasteigna í hagkerfinu er fróðlegt að fræðast um þau mál frá hendi Svía`` --- það er mjög í umræðunni nú að ræða um hvernig Svíar fara að --- ,,sem án efa eru nú meðal þróaðri þjóða á þessu sviði, bæði hvað varðar mat fasteigna og skattameðferð. Svíar hafa nú ekki verið þekktir fyrir varfærni í skattlagningu og á það við um fasteignir ekki síður en tekjur. Það vakti því athygli á þeirri námsstefnu, sem hér er vitnað í, að þar kom fram að við álagningu fasteignaskatta nota þeir sem álagningargrunn aðeins 75% af matsverði fasteigna með tilliti til þeirra óvissu sem þeir telja að fjöldamat sé ævinlega háð. Þetta telja þeir nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að fasteignaeigendur séu skattlagðir á eignagrunni sem ekki sé til í reynd eða með öðrum orðum sagt að skattstofn hverrar eignar sé ekki hærri en líklegt markaðsverð hennar.``
    Það segir hér líka að það sé vissulega kærkomið fyrir Fasteignamat ríkisins að heyra þetta sjónarmið vegna þess að þeir hafi haldið því fram í þau 15 ár sem Fasteignamatið hefur starfað að Alþingi Íslendinga virðist ekki gefa mikinn gaum að því og alls ekki ef miðað er við þá breytingu sem gerð hafi verið á tekjustofnum sveitarfélaga með lögum nr. 91/1989. Í þeim var nefnilega ákvæði um sérstakan gjaldstofn fyrir álagningu fasteignaskatts sem í mörgum tilfellum er án þess að það sé raunverulegt verðmæti á bak við eða ekki nema að hluta. Þarna er einn misbresturinn, ef við getum orðað það svo, í meðferð á fasteignum landsmanna að ekki er farið eftir því hvert líklegt markaðsverð eignarinnar er þegar verið er að leggja á fasteignagjöld. Í þeim löndum sem Fasteignamatið hefur upplýsingar frá er þessi álagning aðeins með tvennu móti. Það er annars vegar miðað við líklegt markaðsverð og hins vegar er miðað við tekjur sem af eigninni mætti hafa. Sú matsaðferð sem hér á landi er byggt á er algerlega óraunhæf.
    Þetta vildi ég að kæmi fram því að menn hafa látið það yfir sig ganga í mörg undanfarin ár að búnir séu til óraunhæfir loftkastalar úr verðlitlum eignum og notaðir sem tekjustofn.
    Eins og kom fram í máli hv. 1. flm. áðan hafa mjög margir úti um landsbyggðina, og það er ekki eingöngu bundið við Vestfirði þó að við séum þaðan tvö sem höfum talað í þessu máli núna, áhyggjur og ég get sagt eins og hv. 1. flm. að ég hef fengið mikil viðbrögð við þessu máli. Margir hafa skrifað eða hringt og rætt málið. Við teljum það að sjálfsögðu mjög þarft mál að koma þessu inn í umræðuna og taka inn í það fleiri þætti, ekki síst þann álagningarstofn til fasteignagjalda sem notaður er úti á landsbyggðinni.