Íbúðaverð á landsbyggðinni

38. fundur
Fimmtudaginn 22. október 1992, kl. 12:08:27 (1489)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég skil vel þann góða anda sem er í þessari tillögu en ég verð að viðurkenna að ég sé ekki fyrir mér í fljótu bragði hvernig þetta má takast. Það er mín skoðun að það eina sem raunverulega getur orðið til að koma þessum málum í betra horf sé að stjórnvöld móti stefnu sem byggi á því að réttur fólks til grunnframfærslu sé sem jafnastur. Þ.e. það verði álíka dýrt að hita húsin upp og að það verði álíka dýrt að kaupa rafmagn til almennra nota fyrir íbúana og að vöruverð sé svipað eða a.m.k. að möguleikar fólks til að kaupa ódýrari vörur verði auknir á landsbyggðinni. Það sem ég tel að sé kannski úrslitaatriði í sambandi við þessi mál öll er að það verði mótuð sjávarútvegs- og atvinnustefna sem viðurkennir að þessar byggðir allt í kringum landið eigi rétt á því að fá að lifa og að þær eigi þann rétt sem á að fylgja þeim vegna þess að þær eru til vegna fiskimiðanna í nágrenninu. Það kerfi sem við búum við núna er að grafa undan byggðum allt í kringum landið. Það þarf að snúa af þeirri braut. Ég er sannfærður um það að óvissan í ýmsum byggðum landsins er að miklu leyti vegna þess sem þarna er að gerast. Ég vona sannarlega að menn beri gæfu til þess að finna þær leiðir.
    Það er ýmislegt sem má ræða í sambandi við þessa tillögu, m.a. um Fasteignamat ríkisins og gjöldin til sveitarfélaganna en ég hef því miður ekki tíma til þess að gera það. Ég sé að tíminn er búinn.