Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 13:42:54 (1496)

     Flm. (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um verðlagningu á raforku. Till. er á þskj. 127 og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela iðnrh. að láta fara fram athugun á verðlagningu á raforku til almenningsrafveitna.``
    Í grg. með tillögunni segir svo:
    ,,Tillaga þessi var flutt á 115. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú flutt að nýju.
    Á undanförnum árum hefur raforka stöðugt orðið stærri þáttur í útgjöldum fyrirtækja jafnt sem heimila. Það er því mikilvægt að verðlagning á raforku lúti reglum sem eru sanngjarnar gagnvart notendum jafnframt því sem þær tryggja eðlilega endurgreiðslu til Landsvirkjunar vegna virkjana.
    Verðlagning Landsvirkjunar hefur sætt nokkurri gagnrýni og hafa forsvarsmenn almenningsrafveitna, sem kaupa raforku af Landsvirkjun, leitað eftir samningum um hámarksverð er lækki í þrepum fram til aldamóta að tilteknu marki.
    Ekki hafa náðst samningar og er því eðlilegt að Alþingi álykti um að iðnrh. beiti sér fyrir athugun á verðlagningu á raforku og hlutist til um að samningar náist.
    Með greinargerð fylgja bréf sem gengið hafa milli 1. flm. og Rafmagnsveitna ríkisins.``
    Í nokkurn tíma hef ég í ræðu og riti gagnrýnt þá stefnu Landsvirkjunar að halda uppi svo háu raforkuverði til dreifiveitna sem raun ber vitni. Það er mat margra að þessi stefna hafi ef til vill valdið vanda fiskvinnslu vegna þess hve raforka er víða stór hluti af rekstrarkostnaði vinnslunnar. Hátt raforkuverð hefur einnig aukið á mismun milli byggða, bæði gagnvart atvinnufyrirtækjum og heimilum og á þann hátt ýtt undir byggðaröskun, óánægju og meting milli landshluta. Hátt raforkuverð hefur einnig ýtt undir þá þróun að færa fiskvinnsluna út á sjó. Hátt raforkuverð hefur að mati sumra hamlað gegn þróun og nýsköpun í atvinnulífinu.
    Á fundum sveitarstjórnarmanna á Vesturlandi hefur mjög verið hvatt til þess að ná fram meiri hagkvæmni í orkudreifingu og orkusölu til þess að styrkja atvinnuvegina og hamla gegn óæskilegri byggðaþróun. Í framhaldi af fundum þingmanna í Vesturlandskjördæmi skrifaði ég bréf til Rafmagnsveitna ríkisins sem ég vitna til, með leyfi forseta. Í því bréfi segir:
    ,,Á fundum þingmanna Vesturlandskjördæmis, sem haldnir voru 19.--24. sept. sl., komu fram eindregnar óskir og kröfur um lækkun rafmagnsverðs. Í þeirri umræðu kom m.a. fram hörð gagnrýni vegna verðlagningar Landsvirkjunar á þeirri orku sem Rarik kaupir og endurselur notendum.
    Hér með er óskað eftir áliti stjórnar Rarik á því hvort mögulegt sé að ná betri samningum við Landsvirkjun og/eða leiðrétta ,,óeðlilega`` verðlagningu orkunnar frá Landsvirkjun.
    Undirritaður mun gera þingmönnum kjördæmisins og sveitarstjórnarmönnum grein fyrir væntanlegu svari stjórnar Rarik.``
    Þann 10. mars sl. svaraði rafmagnsveitustjóri og segir m.a. í bréfi hans, með leyfi forseta:
    ,,Rafmagnsveitur ríkisins geta fyrir sitt leyti tekið undir það álit sem fram kemur í bréfi yðar, dags. 12. febr. sl., um að verðlagning raforkunnar frá Landsvirkjun sé að ýmsu leyti óeðlileg. Fyrir því liggja ýmis rök sem betur verða tíunduð hér á eftir. En áður en það verður gert er nauðsynlegt að gera grein fyrir þeim almennu markmiðum sem Landsvirkjun hefur sett sér við verðákvarðanir sínar.
    1. Stefnt er að því að Landsvirkjun verði skuldlaus upp úr aldamótum.
    2. Stefnt er á því að verð frá Landsvirkjun sé jafnt langtímajaðarkostnaði um svipað leyti og þannig búið í haginn fyrir framtíðarvirkjanir.
    3. Stefnt er að því að auka vægi orkugjalda enn frekar og minnka að sama skapi vægi aflgjalds í verðinu. Fyrri hluti þessarar breytingar hefur þegar komið til framkvæmda.
    Ljóst er að það markmið, sem fram kemur í lið 1, ræður að mestu verðlagningu Landsvirkjunar nú. Rafmagnsveiturnar geta ekki tekið undir þetta sjónarmið, enda er það álitamál hvort núlifandi kynslóð á að greiða fjárfestingar í orkukerfinu niður með þeim hraða sem hér er ráðgert. Rafmagnsveiturnar eru ekki í neinum vafa um að þessar aukabyrðar eru hvorki sanngjarnar né hagkvæmar fyrir þjóðarbúið þegar til

lengri tíma er litið. Þær tefja nauðsynlega iðnvæðingu og draga úr framkvæmdum og frumkvæði jafnframt sem þær gera aðra, jafnvel innflutta orkugjafa, samkeppnishæfa gagnvart raforkunni. Eðlilegra er að fjárfesting sé greidd niður í takti sem nálgast afskriftatíma hennar eða með öðrum orðum á meðan starfsemi hennar er tekjuskapandi.
    Um markmið nr. 2 má fara mörgum orðum þó það verði ekki gert hér. Grundvallarhugsun verðlagningar samkvæmt langtímajaðarkostnaði er fyrst og fremst fjárfestingarsjónarmið. Það er með öðrum orðum verið að verðleggja næstu seldu kwst. með álagi sem taka skal þátt í að fjármagna næstu virkjun. Ef Landsvirkjun væri á flæðiskeri stödd varðandi afkastagetu virkjana er slík verðlagningarstefna hin eina rétta. Hins vegar er veruleikinn í dag allur annar.
    Þegar afkastagetan er allt of mikil á að verðleggja orkuna samkvæmt skammtímajaðarkostnaði eða þeim kostnaði sem framleiðsla næstu kwst. kostar í óhagkvæmustu virkjuninni sem venjulegast er sú síðasta sem tekin var í notkun. Eins og við vitum er sá kostnaður allverulega lægri en það verð sem ríkir í dag.
    Markmið nr. 3 er fyllilega í samræmi við sjónarmið Rafmagnsveitnanna en það þarf ekki að hafa áhrif á orkuverð til hækkunar.
    Þau sjónarmið sem hér eru reifuð beinast fyrst og fremst að þeim viðhorfum sem gilda við ríkjandi einokunarskipulag í raforkugeiranum. Hugsanlega er hægt að bæta hag bæði orkunotenda og orkufyrirtækja með breyttu skipulagi orkugeirans en út í þá sálma verður ekki farið að þessu sinni.
    Hvað varðar hugleiðingar um möguleika Rafmagnsveitnanna til að ná betri samningum við Landsvirkjun en þær hafa nú má benda á að fyrirtækið leitar stöðugt eftir bestu kjörum sem kostur er á innan þess gjaldskrárramma sem Landsvirkjun setur hverju sinni. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að breytingar á söluskilmálunum og samningum Landsvirkjunar við almenningsrafveitur hafa hingað til miðast við að tekjur hennar verði alla vega ekki minni eftir en áður og eru slíkar breytingar því viðkvæmar.
    Með bréfi þessu fylgja gögn yfir greiðsluflæðireikninga fyrir Landsvirkjun sem byggja á mismunandi forsendum um þróun raforkuverðs. Skuldastaðan á hverjum tíma kemur síðan fram sem afgangsstærð að gefinni þeirri forsendu að öllum greiðsluafgangi sé ráðstafað til niðurgreiðslu skulda eða sjóðssöfnunar.
    Niðurstöður útreikninganna eru í stuttu máli eftirfarandi:
    1. Ef tilmælum Rafmagnsveitnanna og annarra almenningsrafveitna verður fylgt (forsenda 1) er skuldastaðan komin niður í núll á árinu 2008. Með þessu móti lækkar verðið jafnt og þétt á þessum áratug niður í langtímajaðarkostnað (LTJ) árið 2000.
    2. Ef verðið lækkar niður í LTJ á þessu ári (forsenda 2) verður skuldastaðan komin niður í núll á árinu 2010.
    3. Ef fylgt er verðstefnu Landsvirkjunar (forsenda 3), þ.e. óbreytt verð til ársins 2000 en lækkar síðan jafnt og þétt niður í LTJ árið 2005, verður skuldastaðan orðin núll á árinu 2004.
    Með því að bera saman ferla yfir verðþróun og samsvarandi þróun skuldastöðu kemur ofannefnd niðurstaða ef til vill best í ljós, eins og sjá má á meðfylgjandi línuritum.
    Þegar litið er á þessar niðurstöður með hliðsjón af þeim langtímasjónarmiðum sem eiga að ríkja í orkugeiranum má ef til vill segja að deilan snúist um keisarans skegg, þegar ágreiningur stendur um hvort eðlilegt sé fyrir Landsvirkjun að vera skuldlausa fjórum til sex árum seinna en þeirra ýtrustu kröfur gera tilkall til.``
    Lýk ég þar með tilvitnun í bréf rafmagnsveitustjóra.
    Forsvarsmenn almenningsrafveitna hafa ítrekað óskað eftir samningum við Landsvirkjun án þess að árangur hafi orðið. Í bréfi frá 1. nóv. sl. vísa forsvarsmenn Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja, Rafveitu Akraness, Orkubús Vestfjarða, Rafveitu Hafnarfjarðar og Rafmagnsveitna ríkisins til bréfs sem ritað hafði verið til Landsvirkjunar 25. okt. sl., en í því bréfi fara forsvarsmenn almenningsrafveitnanna fram á viðræður um þessi efni sem rafmagnsveitustjóri ríkisins gerir grein fyrir í sínu bréfi. Þessir aðilar óska eftir samningum við Landsvirkjun um viðskiptin milli dreifiveitnanna og þess ágæta fyrirtækis Landsvirkjunar. Ég ætla ekki að vitna sérstaklega til þess bréfs en bendi hv. þm. á að líta til þess í fylgiskjölum.
    Þjóðhagsstofnun hefur lagt mat á verðlagningu Landsvirkjunar á raforku til almenningsrafveitna. Er ljóst af gögnum sem fyrir liggja að Þjóðhagsstofnun tekur undir þær ábendingar sem forsvarsmenn dreifiveitnanna hafa sett fram.
    Einnig hefur Þjóðhagsstofnun bent á að þó að skammtímasveiflur í afkomu Landsvirkjunar séu verulegar sé ekki forsvaranlegt að láta það koma svo mjög niður á gjaldskrárbreytingum til almenningsrafveitna.
    Þá hefur Þjóðhagsstofnun einnig minnt á það sem segir í ákvæði laga um Landsvirkjun að orkusölusamningar til stóriðju megi ekki valda hærra raforkuverði til almenningsrafveitna en ella hefði orðið.
    Að framansögðu má ljóst vera að Landsvirkjun hefur gengið mjög langt í því að tryggja stöðu sína á kostnað notenda að sjálfsögðu með þeim afleiðingum sem ég hef að framan tilgreint en það er hátt raforkuverð að mati rafmagnsveitustjóra. Með vísan til þess sem ég hef sagt í greinargerðinni og með tilvísun í bréf rafmagnsveitustjóra og bréf forsvarsmanna almenningsrafveitna til Landsvirkjunar legg ég fram þessa till. til þál. um verðlagningu á raforku um að Alþingi álykti að fela iðnrrh. að láta fara fram athugun á verðlagningu á raforku til almenningsrafveitna.
    Að lokinni umræðu legg ég til, virðulegur forseti, að tillögunni verði vísað til hv. iðnn.