Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 13:56:21 (1497)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég þakka flm. fyrir að flytja tillöguna aftur. Það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem raforkuverð kemur til umræðu á hinu háa Alþingi. Það hversu mikil umræða er og í hve mörgum tilvikum er rætt um þessi mál bendir til þess að þau brenni mjög á fólki. Lækkun raforkuverðs er stærsta hagsmunamál okkar. Það er stórmál. Það er stórmál bæði fyrir fiskvinnslufyrirtækin og líka fyrir iðnaðinn. Íslenskur iðnaður situr þar ekki við sama borð og erlend stóriðja. Það er stórmál fyrir heimilisrekstur um allt land. Þær rökræður sem hér fara yfirleitt fram um lækkun raforkuverðs snúast um þetta allt saman.
    Þau markmið sem Landsvirkjun hefur sett sér í sambandi við skuldastöðu fyrirtækisins og komu fram í máli hv. flm. eru óraunhæf. Það er furðuleg sú afstaða Landsvirkjunar að vera ekki til viðræðu um að lengja þann tíma sem hún setur sér til að ná skuldastöðu fyrirtækisins niður á núll. Það væri auðvitað til þess líka að koma meiru af framleiðslunni í gagnið og selja hana á lægra verði. Hvort tveggja ætti að vera markmið fyrirtækisins þó svo það þyrfti að lengja eitthvað þann tíma sem það tæki að ná skuldum fyrirtækisins niður. Landsvirkjun setur sér allt of stuttan tíma þarna sem er ekki í neinu samræmi við raunveruleikann.
    Dreifiveiturnar hafa að sjálfsögðu tekið undir þetta og reynt að beita sér fyrir þessu, bæði á fundum með Landsvirkjun og samþykktum heima fyrir. Þjóðhagsstofnun tekur undir það sem hér kemur fram og ég tel að tillagan sé enn einn liðurinn í því að ýta á þetta mál.
    Ég skora á iðnrh. að beita sér fyrir því að tillagan fái framgang og að það verði liður í því að hafa áhrif á stefnu Landsvirkjunar.